Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Heilsan er bara þokkaleg. Ég er búinn að æfa stigvaxandi í vikunni og ég finn að þetta er allt að koma hjá mér.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Heilsan er bara þokkaleg. Ég er búinn að æfa stigvaxandi í vikunni og ég finn að þetta er allt að koma hjá mér. Hver einasti dagur hjálpar mér að verða betri og ég er bara ótrúlega ánægður og stoltur yfir því að vera í landsliðshópnum, ekki bara núna heldur alltaf. Það er ekkert sjálfgefið að komast í hópinn enda liðið frábært,“ sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik, við Morgunblaðið.

Arnór hefur glímt við meiðsli í kálfa og óvissa ríkt um þátttöku hans á Evrópumótinu en nú er ljóst að hans mun njóta við og það er fagnaðarefni enda er Arnór íslenska landsliðinu gríðarlega mikilvægur í sókn jafnt sem vörn.

Orðinn hungraður í að komast út á völl

„Eftir að hafa verið frá vegna meiðsla er maður auðvitað orðinn mjög hungraður í að komast út á völlinn og eftir síðustu æfinguna hér heima fyrir EM brosti maður bara allan hringinn. Ég hlakka gríðarlega mikið til sunnudagsins,“ sagði Arnór, sem leikur með franska liðinu St. Raphael.

Arnór segist lítið velta sér upp úr væntingum hinna og þessara til landsliðsins á Evrópumótinu. „Við leikmennirnir höfum sett okkur markmið og sú pressa sem við tökum mark á kemur frá okkur sjálfum. Við höfum alltaf okkar háleitu markmið. Við viljum vera á meðal toppþjóða og við eigum að vera þar. Við vitum að okkur eru allir vegir færir ef hlutirnir ganga vel og allir vinna í sömu átt. Nú er bara öll einbeitingin á fyrsta leikinn, sem er á móti Norðmönnum. Við getum ekki leyft okkur að hugsa lengra fram í tímann,“ sagði Arnór.