Vörn Guðlaugur Arnarsson telur vörnina stærsta spurningarmerkið.
Vörn Guðlaugur Arnarsson telur vörnina stærsta spurningarmerkið. — Morgunblaðið/Ómar
„Krafan er að komast upp úr riðlinum,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, spurður um vonir og væntingar sem hann geri til íslenska landsliðsins í handknattleik nú þegar stutt er þangað til flautað verður til leiks á...

„Krafan er að komast upp úr riðlinum,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, spurður um vonir og væntingar sem hann geri til íslenska landsliðsins í handknattleik nú þegar stutt er þangað til flautað verður til leiks á Evrópumeistaramótinu.

„Það skiptir engu máli hvort við erum með okkar allra sterkasta lið eða ekki, það er ekki hægt að bóka sigur gegn einhverju þeirra liða sem við mætum í riðlakeppninni, norska, ungverska og spænska. Öll liðin eru vel skipuð og þá ekki síst Spánverjarnir sem ég tel okkur ekki eiga möguleika gegn,“ segir Guðlaugur.

„Norðmenn eru í mikilli sókn um þessar mundir á nýjan leik eftir að hafa verið í lægð um skeið. Ég hef þá trú að við vinnum Norðmenn sem verður til þess að við förum upp úr riðlinum. Hinsvegar töpum við fyrir Ungverjum og Spánverjum.“

Þarf tíma í varnarleikinn

Guðlaugur þekkir sérstaklega vel til varnarleiks í handknattleik enda var það hans sérgrein á ferlinum. Hann segir að það þurfi góðan tíma til þess að stilla saman varnarleik. Það taki lengri tíma en að stilla saman sóknarleik. Lítill undirbúningstími komi þar af leiðandi niður á varnarleiknum.

„Það sem mér fannst vanta upp á í leikjunum í Þýskalandi um síðustu helgi var að varnarmennirnir voru ekki nógu grimmir, voru of „flatir“. Skýringin er sú að Sverre Jakobsson og Vignir Svavarsson eru ekki í eins góðu líkamlegu formi og þeir ættu að vera. Þar spila meiðsli inn í.

Ég hef hinsvegar mikla trú á því að Sverre vinur minn berji sig í gang og loki vörninni eins og hann hefur yfirleitt gert. Markverðirnir okkar þurfa á því að halda að varnarmennirnir séu grimmir og fari út og brjóti á sóknarmönnum andstæðinganna. Við getum ekki varið skot sem koma af sjö metrum.

Ég held að hugmynd Atla Hilmarssonar um fimm plús einn vörn geti verið góð lausn. Okkur hefur hinsvegar gengið best þegar tekist hefur að leika grimma sex núll vörn en til þess verða „þristarnir“ að standa sína vakt og brjóta leik andstæðinganna niður án miskunnar. Ég skil vel óöryggið eins og staðan er á mönnum núna. Ef okkur tekst ekki að bæta vörnina þá verða leikirnir ennþá erfiðari en ella,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram. iben@mbl.is