Ágúst Ingi Jónsson.
Ágúst Ingi Jónsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Háleitar vonir og miklar væntingar um að komast í hóp þeirra bestu hafa alltaf fylgt íslenska landsliðinu í handknattleik. Stundum hafa strákarnir komist á stall en í önnur skipti hefur allt gengið á afturfótunum.

Háleitar vonir og miklar væntingar um að komast í hóp þeirra bestu hafa alltaf fylgt íslenska landsliðinu í handknattleik. Stundum hafa strákarnir komist á stall en í önnur skipti hefur allt gengið á afturfótunum. Það síðarnefnda á við um þátttöku Íslands á heimsmeistaramótunum 1974 og 1978.

Ágúst Ingi Jónsson var blaðamaður Morgunblaðsins á báðum þessum mótum, sem reyndust bæði leikmönnum og forystumönnum í íslenskum handknattleik mjög erfið. Meira var um áföll en afrek. Í tveimur greinum hér á síðunni stiklar hann á stóru í minningabrotum úr ferðunum til Austur-Þýskalands og Danmerkur.

Lykilmaður Geir Hallsteinsson var í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu á áttunda áratugnum og lék á heimsmeistaramótunum í Austur-Þýskalandi og Danmörku árin 1974 og 1978. Hér skorar hann gegn Hollandi í B-keppninni í Austurríki en þar tryggði íslenska liðið sér sæti í lokakeppni HM 1978.

Nótur úr bréfaskóla

• Erfiðleikar á HM í Danmörku 1978 • Þjálfarinn titlaður sem ráðgjafi • Lítil samstilling HM 1978

Það þykir verra þegar stjórnandi mætir ekki á síðustu æfingar fyrir tónleika. Ekki er víst að tónninn verði réttur eða áherslurnar og svo er líka spurning um hvenær aðalraddirnar láta til sín taka, nú eða bakraddirnar. Kannski er þessu svipað farið í handboltanum og því var ekki von á góðu þegar Ísland tók þátt í HM í handbolta í Danmörku í janúar 1978. Það vantaði samstillingu.

Stórhugur einkenndi undirbúninginn lengi vel, forystan var tilbúin að leggja mikið á sig og í landsliðinu voru margir frábærir leikmenn. Þegar leið að mótinu kom í ljós að á ýmsan hátt var pottur brotinn.

Í pólskum bréfaskóla

Stóra málið var auðvitað að þjálfari liðsins, Pólverjinn Janus Czerwinsky, lét bíða eftir sér svo vikum skipti um haustið meðan undirbúningur liðsins stóð sem hæst. Hann var alltaf á leiðinni til landsins, en að lokum kom hann til fundar við landsliðið á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn, þremur dögum fyrir fyrsta leik. Þá hafði hann lítið eða ekkert séð til sumra leikmanna íslenska landsliðsins.

Æft var eftir áætlun frá Janusi og einhvern tímann var hann titlaður sem fyrrum skólastjóri bréfaskóla íslenska handboltaliðsins. Ekki vantaði æfingaálagið, sem sumir töldu hafa verið alltof mikið. Meiðslasagan var til staðar og er engan veginn einskorðuð við samtímann. Í sjálfri keppninni var Janus titlaður ráðgjafi, en ekki landsliðsþjálfari.

Enginn efaðist um hæfni Czerwinskys, sem hann m.a. sýndi er hann stjórnaði liðinu í B-keppninni í Austurríki 1977 og síðar á ferlinum. Spurningar vöknuðu hins vegar um heilindi yfirvalda pólskra íþróttamála og Janusar í samskiptum við Íslendinga.

Eins og bræðurnir frá Bakka

Ísland tapaði öllum þremur leikjum sínum á mótinu; 22-18 gegn Rússum, 21-14 gegn Dönum og loks 25-22 gegn Spánverjum. Þar með var ekki öll sagan sögð. Við fjölmiðlamenn fórum mikinn í gagnrýni á forystu HSÍ og liðið og einhver erfiðasti og um leið einkennilegasti blaðamannafundur sem undirritaður sat á þessum árum íþróttafréttamennskunnar var haldinn í Thisted að loknum síðasta leiknum.

Forysta HSÍ, þjálfarar og nokkrir leikmenn fóru þar yfir stöðuna og fyrirsögn Morgunblaðsins segir allt sem segja þarf um þennan fund: „Engu líkara en menn stæðu yfir moldum íslenzks handknattleiks“. Sjaldan höfðu jafn miklar vonir brugðist eins hrapallega og það var langt í frá að leikmenn og stjórnendur töluðu einni röddu.

Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsforingi á INN og fjölmiðlamaður í hálfa öld, segir að enn setji að sér örvæntingarhroll þegar hann láti hugann reika 36 ár til baka. „Þetta var einhvern veginn allt byggt á fölskum forsendum og við höguðum okkur eins og bræðurnir frá Bakka,“ sagði Ingvi Hrafn þegar við í vikunni rifjuðum upp þessa dimmu daga í Danmörku.

Allir dönsuðu með

Í stórri grein á forsíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins 31. janúar 1978 gerðum við Sigtryggur Sigtryggsson, fréttastjóri á Morgunblaðinu, keppnina og aðdragandann að henni upp undir fyrirsögninni „Allir dönsuðu með“. Þar sagði að þrátt fyrir að öllu hefði verið kostað til svo árangur mætti nást hefði allt farið á versta veg. „Röð tilviljana, mistaka og blekkinga síðan í Austurríki fyrir ári gerði það að verkum að Ísland náði engum árangri í Danmörku,“ sagði þar.

Síðan er skotið í allar áttir; á leikmenn og forystuna og ekki síst blaðamenn sem tóku þátt í dansinum gagnrýnislítið. Ekki hafi verið hlustað á viðvörunarbjöllur, sem þó hefðu klingt.

Lokaorðin voru á þá leið að allir yrðu að vera samtaka í að lyfta þessari þjóðaríþrótt upp á við. Sem sannarlega hefur verið gert. Margir hafa lagt hönd á þann plóg og þau eru orðin mörg fingraförin á íslenska handboltanum. aij@mbl.is

Flensa í farteskinu

• Sárlasnir leikmenn í þýska alþýðulýðveldinu • Spurning um heilsufar frekar en getu í handbolta HM 1974

Liðið var á leið á stóra sviðið og var meira að segja búið að syngja inn á hljómplötu. Árið var 1974 og nú skyldi keppt á heimsmeistaramótinu í Austur-Þýskalandi. Kominn tími til að sýna umheiminum hvers litla Ísland var megnugt. Strákarnir til í allt.

Undirbúningur hafði gengið vel og lokahnykkurinn í því ferli var öruggur sigur á Norðmönnum í Ósló á leiðinni til afreka á HM. Svo öruggur var sigurinn að norsku blöðin gáfu í skyn að Ísland gæti leikið um verðlaunasæti á mótinu. Nema hvað!

Ástæðan fyrir viðkomu í landi frænda vorra og forfeðra var að fararskjótinn, Fokker Friendship frá Flugfélaginu, hafði ekki þol til að fljúga lengra í einum áfanga. Víðtækt verkfall lamaði þá samgöngur eins og annað atvinnulíf á Íslandi , en undanþága fékkst fyrir Fokkerinn svo strákarnir okkar kæmust á mót þeirra sextán bestu í heiminum.

Trabant og Wartburg

Eftir tvo leiki í Noregi var haldið austur fyrir járntjaldið svokallaða, til Austur-Þýskalands, DDR. Í landi Ulbrichts, Stophs og Honeckers voru Trabant og Wartburg áberandi á götunum og talsvert var umferðin hægari og götumyndin fábrotnari en ungur maður átti að venjast úr Vestur-Evrópu. Lenín og aðrar hetjur kommúnismans gnæfðu yfir torgum og minntu stöðugt á mátt sinn og megin.

Íslenska liðið og fylgifiskar bjuggu á þægilegum hótelum, en sumir höfðu á orði að einkennileg hreyfing væri á þykkum gluggatjöldum við enda hótelganganna. Síðar áttuðu menn sig á því að fylgst var með gestum og gangandi.

Hitinn nálgaðist 40 stig

En ekki var allt sem sýndist, laumufarþegi hafi troðið sér inn í íslenska hópinn. Daginn fyrir fyrsta leik kom í ljós að um helmingur leikmanna var kominn með beinverki og kvef eða inflúensu og þurftu margir að leita til læknis.

Hjá sumum nálgaðist hitinn 40 stig og slíkt kann ekki góðri lukku að stýra daginn fyrir stórleik í átakaíþrótt, svo sem ekki í neinni íþrótt.

Óttuðust lyfjaeftirlit

Ekki var talið þorandi að gefa leikmönnum lyf af ótta við að einhver þeirra lenti í lyfjaeftirliti og myndi þurfa að sæta þungri refsingu. Heimamenn voru jú sagðir snillingar í að meðhöndla og gefa alls konar lyf fyrir íþróttamenn og þá um leið að greina þau. Vítamínsprautur voru látnar duga.

Fyrsti leikur Íslands í keppninni fór fram fimmtudaginn 28. febrúar í borginni, sem kennd er við sjálfan Karl Marx í suðurhluta þýska alþýðulýðveldisins.

Það var ekki að sökum að spyrja: „Sárlasnir Íslendingar áttu enga möguleika,“ sagði í fyrirsögn Morgunblaðsins, en liðið tapaði 25-15 fyrir Tékkum. Þetta var ekki lengur spurning um getu í handknattleik heldur um heilsufar.

Heldur þóttu strákarnir hressari í leiknum við Vestur-Þjóðverja tveimur dögum síðar, reyndar sex marka tap, 22-16. Blaðamaður hafði eftir sem áður ofurtrú á íslensku strákunum, sem léku lasnir eða slappir. „Ef leikurinn hefði farið fram undir eðlilegum kringumstæðum og íslenska liðið verið eins og það á að sér er hætt við að úrslitin hefðu orðið önnur. Sennilega okkar mönnum í hag,“ skrifaði ykkar einlægur.

Sýklahernaður

Þar með var orðið nokkurn veginn ljóst að Íslendingar kæmust ekki áfram í keppninni. Leikur við Dani var þó eftir og sjö marka sigur þar kæmi liðinu áfram. Það örlaði reyndar á bjartsýni hjá blaðamanni þegar hann frétti að þrír leikmenn danska liðsins hefðu leitað læknis með flensueinkenni.

Hetjuleg barátta gegn Dönum á sunnudeginum dugði ekki til, 19-17 tap og liðið hélt heim á leið strax á mánudegi. Allt hafði gengið á afturfótunum.

„Þessi ferð hefur frá upphafi verið eitt slys, sýklahernaður,“ sagði landsliðsmaðurinn Ólafur H. Jónsson að þátttöku Íslands lokinni.

aij@mbl.is

Tölvur og gemsar rugluðu ekki

Það var ekki beinlínis þannig að tölvur og gemsar rugluðu menn í ríminu þessa HM-daga fyrir 40 árum og því hvorki netið né fésbókin.

Blaðamaður hringdi heim einu sinni, kannski tvisvar á dag, að sjálfsögðu collect, sem þýðir að viðtakandi borgaði símtalið. Reyndar oftar á leikdegi.