Mjólk Innflutningur á írsku smjöri í fituríkar íslenskar mjólkurvörur er gagnrýndur meðal bænda, sem hvattir eru til að auka framleiðslu sína.
Mjólk Innflutningur á írsku smjöri í fituríkar íslenskar mjólkurvörur er gagnrýndur meðal bænda, sem hvattir eru til að auka framleiðslu sína. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Stjórnendur mjólkuriðnaðarins þurfa að útskýra fyrir bændum hvað fór úrskeiðis.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Stjórnendur mjólkuriðnaðarins þurfa að útskýra fyrir bændum hvað fór úrskeiðis. Að smjör vantaði á markað átti að vera fyrirséð,“ segir Haraldur Benediktsson, alþingismaður og bóndi á Vestari-Reyni við Akrafjall. Óánægja er meðal bænda vegna þeirrar ráðstöfunar Mjólkursamsölunnar að flytja inn fyrir hátíðirnar írskt smjör, sem notað var sem hráefni í fituríkar vörur. Alls 50 milljónir króna voru greiddar fyrir smjörið. Upphaflega var þess óskað að fá innflutninginn tollfrjálsan en síðan fallið frá því. Að hafa ætlað að fá slíka heimild segir Haraldur úr takt við skilning sem verði að vera á mikilvægi tollverndar fyrir landbúnað.

Í pistli á fésbókarsíðu sinni segir Haraldur Benediktsson, sem lengi var formaður Bændasamtaka Íslands, smjörmálið vera alvarleg mistök. Hann segir það ekki hafa verið tekið fyrir á pólitískum vettvangi og hann sé ekki að krefjast þess að neinn víki vegna þessa. Félagskjörnir fulltrúar bænda verði þó að svara fyrir sig.

Sýni auðmýkt í stóru verkefni

„Ég vil að menn læri af þessu og sýni auðmýkt fyrir sínu stóra verkefni; að höndla með þá grunnvöru sem mjólkin er fyrir okkur öll. Árið 2012 kom smjörskortur upp í Noregi. Þá var spurt hvort MS gæti útvegað smjör til Noregs, sem ekki var mögulegt, en í framhaldinu var rætt hvað gera skyldi ef þessi staða kæmi upp hér á landi, sem reyndar var talið ósennilegt. MS hefði þó átt að vera á verði,“ segir Haraldur.

„Snemma árs í fyrra flutti MS út smjör og síðan tók við kalt sumar sem þýddi að nyt kúa féll. Auðvitað er erfitt að gera áætlanir þegar tíðarfar er slæmt. En með tilliti til þess að sala á fituvörum er mest seint á árinu hefði síðsumars átt að vera ráðrúm til þess að koma skilaboðum til bænda um að auka framleiðslu. Það var ekki gert, sem er skýringin að hluta.“

Vörur átti að sérmerkja

Haraldur segir að það hefði verið bót í máli ef vörur úr írska smjörinu hefðu verið sérmerktar. Sérstaða íslenskra íslenskra afurða sé skýr og neytendur vilji vita hver uppruni vara sé. „Ég hefði viljað sjá innflutta smjörið í neytendaumbúðum við hliðina á okkar íslenska og leyfa neytendum sjálfum að velja. Með alveg sama hætti og við viljum láta merkja innflutt kjöt og grænmeti. Magnið skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi, þetta snýst um grundvallaratriði. Mjólkursamsölunni er tryggð verndarstaða á markaði, sem hefur skilað bændum viðunandi verði fyrir mjólkina og neytendur hafa einnig notið lægra verðs, vegna hagræðingar. Stöðu fyrirtækisins fylgir ábyrgð og henni verða menn að rísa undir. Það finnst mér forsvarsmenn MS ekki hafa gert núna og ég, sem félagsmaður í afurðafyrirtækinu Auðhumlu, ætlast til að þeir sem ábyrgðina bera geri sér grein fyrir því og átti sig á hvaða stöðu þeir hafa komið íslenskum landbúnaði í.“

Sögðu ekki frá innflutningi

Tvívegis á síðustu fimm árum hefur Mjólkursamsalan flutt inn mjólkurhráefni til framleiðslu sinnar. Annað tilvikið var írska smjörið síðasta haust, það er 80 tonn eða 0,06% af mjólkurhráefni ársins. Hitt tilvikið var árið 2009. Þá nýtti Mjólkursamsalan um átta tonn af innfluttum osti til bræðsluostagerðar sem var um 2% hráefnis sem þurfti í brædda osta það árið. „Frá því var ekki greint opinberlega, sem er ekki í anda stefnu þess um upplýsingar til neytenda. Mjólkursamsalan hefur þegar yfirfarið vinnuferla til að tryggja að slíkt eigi sér ekki stað aftur og biðst velvirðingar á þessum mistökum,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins frá í gær.

Í fjölmiðlum í gær sagði Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands að setja þyrfti reglur um upprunamerkingar matvæla. MS styður það. „Hinsvegar þegar um er að ræða samsett matvæli eru notuð stoðefni, bragðefni og íblöndunarefni sem óhjákvæmilegt er að flytja inn til matvælavinnslu. Og nýjar reglur um uppruna þurfa að taka mið af slíkum aðstæðum,“ segir í tilkynningu MS.