[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Actavis, sem er með starfsemi í yfir 60 löndum, er með um 25 manns í vinnu í tveimur teymum sem sinna skattamálum í samstarfi við dótturfélögin.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Actavis, sem er með starfsemi í yfir 60 löndum, er með um 25 manns í vinnu í tveimur teymum sem sinna skattamálum í samstarfi við dótturfélögin. Þau vinna að ýmsum verkefnum, svo sem skattaeftirliti og skipulagningu á sköttum, sem og gæta þess að dótturfélögin fylgi lögum og reglum. Auk þess bera fjármálastjórar ábyrgð á sköttum dótturfélaganna og því vinna mun fleiri að skattatengdum málum hjá Actavis. „Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hve mikill tími fer í þætti sem þessa,“ segir Heimir Þorsteinsson, fjármálastjóri Actavis á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið.

Hann flytur erindi í dag á árlegum skattadegi Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins, sem ber heitið Okkar hlið á skattapeningnum og fjallar um hvernig alþjóðlegt fyrirtæki hagar sér í skattamálum. Heimir segir að vinnubrögð hjá stórum alþjóðlegum félögum séu með öðru sniði en hjá hefðbundnum íslenskum fyrirtækjum.

Höfuðstöðvar á Írlandi

Actavis er með höfuðstöðvar sínar á Írlandi. Lyfjafyrirtækið Actavis sameinaðist bandaríska stórfyrirtækinu Watson Pharmaceuticals árið 2012. Í kjölfar kaupa á írsku lyfjafyrirtæki næstsíðasta sumar var tilkynnt að fyrirtækið hygðist flytja höfuðstöðvar sínar frá Bandaríkjunum til Írlands. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að fyrirtækjaskattur sé 20% á Íslandi, 12,5% á Írlandi en 28% í Bandaríkjunum. „Actavis er ekki með mikla starfsemi á Írlandi, en höfuðstöðvarnar eru þar. Starfsemin fer fram að miklu leyti í Bandaríkjunum og í Evrópu, þess vegna er skattlagningin á Írlandi ekki mikil enda er reksturinn og framleiðslan annars staðar,“ segir Heimir.

Hann segir að ýmis atriði ráði því hvar alþjóðleg fyrirtæki velji höfuðstöðvum sínum stað, t.d. hverslags skattasamningar á milli landa séu fyrir hendi, hvernig skattlagningu á arð og annað slíkt sé háttað, sum lönd veiti skattaafslátt til fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróunarstarf. Annað sem miklu máli skipti sé hvort hægt sé að fá bindandi álit um ýmis skattamál áður en hafist er handa með eitthvert mál, svo víst sé að skattayfirvöld séu samþykk því hvernig viðskiptunum sé hagað, svo fyrirtæki fái ekki fyrirkomulagið í hausinn síðar meir. „Það hefur verið boðið upp á þetta í nokkur ár hér á landi,“ segir Heimir.

Mikil veltuaukning

Bandaríska fyrirtækið Watson sem keypti Actavis, og kaus að nýta áfram Actavis-nafnið, hefur vaxið hratt á liðnum árum með yfirtökum. Heimir segir að Watson velti nú tæpum tíu milljörðum dollara á ári en árið 2009 nam veltan tæpum þremur milljörðum dollara.
Skattadagur Deloitte
» Árlegur skattadagur Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins, er í dag.
» Fjármálastjóri Actavis á Íslandi segir að ýmis atriði ráði því hvar alþjóðleg fyrirtæki velji að hafa sínar höfuðstöðvar.
» Höfuðstöðvar Actavis, sem er umsvifamikið félag með starfsemi í yfir 60 löndum, eru á Írlandi.
» Bandaríska fyrirtækið Watson Pharmaceuticals keypti og sameinaðist Actavis árið 2012.