Þjálfarar Aron Kristjánsson og Gunnar Magnússon eiga erfitt verkefni fyrir höndum.
Þjálfarar Aron Kristjánsson og Gunnar Magnússon eiga erfitt verkefni fyrir höndum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM2014 Víðir Sigurðsson vs@mbl.

EM2014

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Einhvern tíma hefði ég freistast til þess að spá Íslandi öruggu sæti í undanúrslitum á stórmóti þegar svona leikjadagskrá lægi fyrir: Noregur, Ungverjaland og Spánn í undanriðli, Danmörk, Makedónía, Tékkland og/eða Austurríki í milliriðli.

Með okkar sterkasta lið á vettvangi væri þetta uppskriftin að hörðum slag Íslands, Spánar og Danmerkur um sætin tvö í undanúrslitum Evrópumótsins sem verður til lykta leitt á jósku heiðunum síðar í þessum mánuði.

En í þetta sinn eru væntingarnar hófstilltar. Mínar, og flestra annarra, heyrist mér. Það er ekki nema eðlilegt þegar máttarstólpar eru horfnir á braut, úr leik vegna meiðsla eða tæpir á síðustu stundu fyrir fyrsta leik í Álaborg.

En horfum aftur á leikjadagskrána. Það gæti hæglega gerst að íslenska liðið myndi pakka saman eftir leikina þrjá í riðlakeppninni. Takist því ekki að vinna Norðmenn og/eða Ungverja halda íslensku leikmennirnir líkast til heimleiðis á föstudaginn.

Svo er hinn möguleikinn vel fyrir hendi. Sigrar gegn Noregi, Ungverjalandi og tveimur liðum úr A-riðli myndu fleyta Íslandi í leik um 5.-6. sætið á mótinu. Það væri niðurstaða sem allir yrðu himinlifandi með í dag.

Aðalatriðið er hinsvegar að Ísland komist áfram úr undanriðlinum. Framhaldið er síðan bara bónus. Þá er sæti í efri styrkleikaflokki fyrir umspil HM í Katar tryggt og líkurnar á að komast þangað mun betri en ella.