Boðnar upp Ísaðar ýsur í kari á Fiskmarkaði Íslands í Reykjavík.
Boðnar upp Ísaðar ýsur í kari á Fiskmarkaði Íslands í Reykjavík. — Morgunblaðið/Ómar
„Afli hefur verið þokkalegur, veðrið vægast sagt rysjótt og enn er enginn kraftur kominn í vertíðina,“ sagði Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, í gær þegar hann var spurður um aflabrögð í ársbyrjun.

„Afli hefur verið þokkalegur, veðrið vægast sagt rysjótt og enn er enginn kraftur kominn í vertíðina,“ sagði Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, í gær þegar hann var spurður um aflabrögð í ársbyrjun. Hann sagði að minni línubátar frá Grindavík hefðu fengið 3-5 tonn síðustu daga, en í gær færðu flestir þeirra sig vestur fyrir og ætluðu að landa í Sandgerði.

Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands, tók í sama streng og sagði að tíðarfarið hefði verið erfitt og þar af leiðandi lítið framboð á mörkuðunum. Það hefði hins vegar leitt til þess að verð á mörkuðum hefði verið mjög hátt fyrstu daga ársins.

Í gær hafði framboðið hins vegar aukist og fengust þá að meðaltali 326 krónur fyrir kíló af óslægðum þorski, en verðið fór upp í 477 krónur 4. janúar. Fyrir ýsuna fengust 330 krónur að meðaltali í gær, en 504 krónur 2. janúar

Breyta gjaldskránni

Í dag taka gildi umtalsverðar breytingar á gjaldskrá á mörkuðum Fiskmarkaðar Íslands hf., sem eru níu talsins. Að sögn Páls lækka gjöld sem seljendur greiða verulega, en gjöld á kaupendur hækka. Páll segir að í heildina lækki gjöldin og segist hann vona að með þessu aukist framboð á fiskmörkuðum í stað þess að fiskurinn fari í bein viðskipti.

Í frétt á heimasíðu FMÍS segir m.a.: „Meginmarkmið breytinganna eru að hver tekjuliður endurspegli sem næst þann tilkostnað sem til verður við að veita þjónustuna. Í megindráttum hefur gjaldskrá verið óbreytt allt frá stofnun félagsins 1991 og því ljóst að margt hefur tekið breytingum í rekstrarumhverfi fiskmarkaða síðan þá.“ aij@mbl.is