Sterkur Albert Rocas er einn af lykilmönnum Spánverja og hér skorar hann í leik gegn Egyptum í síðustu viku.
Sterkur Albert Rocas er einn af lykilmönnum Spánverja og hér skorar hann í leik gegn Egyptum í síðustu viku. — EPA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spánn Ívar Benediktsson iben@mbl.is Ríkjandi heimsmeistarar í handknattleik karla, Spánverjar, hafa aðeins eitt skýrt markmið með þátttöku sinni á Evrópumeistaramótinu í Danmörku.

Spánn

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Ríkjandi heimsmeistarar í handknattleik karla, Spánverjar, hafa aðeins eitt skýrt markmið með þátttöku sinni á Evrópumeistaramótinu í Danmörku. Markmiðið er að verða Evrópumeistari en því markmiði hefur spænska landsliðið aldrei náð. Spænska landsliðið hefur í þrígang fengið silfrið, 1996, 1998 og 2006 og einu sinni brons, árið 2000.

Á EM í Serbíu fyrir tveimur árum þóttu Spánverjar lengi vel afar sigurstranglegir. Liðið lék frábæran handknattleik sem andstæðingarnir réðu ekki við fyrr en Danir urðu á vegi Spánverja í undanúrslitum. Danir voru þá komnir á bragðið eftir erfiða byrjun. Danska landsliðið gerði sér lítið fyrir og vann það spænska, 25:24, í undanúrslitum. Þar með misstu Spánverja móðinn og töpuðu þeir einnig í framhaldinu fyrir Króötum í leiknum um bronsið með fjögurra marka mun, 31:27.

Forráðamenn spænska landsliðsins vonast til að sigurinn á heimsmeistaramótinu á heimavelli fyrir ári hafi aukið sjálfstraust leikmanna og þeir fari að þessu sinni alla leið í úrslitin. Hinsvegar er ljóst að leið Spánverja að gullinu verður ekki auðveld því þeir mæta m.a. Dönum í milliriðli í Herning. Eftir að hafa verið kjöldregnir í úrslitaleik HM í fyrra eru Danir ákveðnir í að það muni ekki endurtaka sig á heimavelli.

Nýr maður í brúnni

Nýr maður stendur í brúnni hjá spænska landsliðinu í keppninni. Manoel Cadenas tók við þjálfun landsliðsins í apríl eftir að hinn sigursæli Valero Rivera sagði starfi sínu lausu til þess að taka við þjálfun landsliðs Katar. Cadenas þekkir vel til spænska landsliðsins og þeirra vinnubragða sem Rivera hafði. Svo skemmtilega vill einnig til að Cadenas tók einnig við af Rivera hjá Barcelona á sínum tíma.

Cadenas er 58 ára gamall og hefur verið þjálfari frá árinu 1986, m.a. hjá Cantabria, Valladolid, Ademar León, FC Barcelona og BM Granollers. Samhliða þjálfun spænska landsliðsins stýrir hann einnig pólska liðinu Wisla Plock.

Nóg af frábærum leikmönnum

Ekki vantar að nóg er af frábærum handknattleiksmönnum í spænska liðinu sem setur það í hóp þeirra sem líklegust eru til þess að vinna EM. Má þar nefna Jorge Maqueda, Viran Morros, Victor Tomás, Albert Rocas og Antonio García að ógleymdum línumanninum illviðráðanlega, Julen Aguinagalde.

Hinsvegar saknar spænska liðið Alberto Enterríos, Aitor Arino, Ángel Montoro og Arpad Sterpik auk José Hombrados sem hefur staðið í marki spænska landsliðsins nærri því svo lengi sem elstu menn muna. Þá handarbrotnaði hinn efnilegi Alex Dusjebaev á dögunum og verður ekki með.

Mikið mun mæða á José Manuel Sierra, markverði og samherja Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar og Róberts Gunnarsson hjá Paris Handball. Gonzalo Pérez de Vargas, markvörður Toulouse í Frakklandi, er enginn nýgræðingur.

Entrerríos og Ugalde með

Raúl Entrerríos og Joan Canellas eru lykilmenn í sóknarleiknum en í varnarleiknum heldur Viran Morros um alla þræði og er svo sannarlega ekki neinn meðalmaður. Entrerríos kemur inn í landsliðið að þessu sinni en hann var meiddur á HM í fyrra eins og Cristian Ugalde.

Spánverjar mættu einnig til leiks á EM 2006 sem ríkjandi heimsmeistarar. Á EM í Sviss lék liðið afar vel þar til það mætti ofjörlum sínum, Frökkum, í úrslitaleik og tapaði með tíu marka mun, 31:21.