Anna Ben Blöndal
Anna Ben Blöndal
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Það er óheppilegt að rof komi í meðferð sjúklinga vegna þess að viðeigandi lyf er ekki til í landinu,“ segir Ásgerður Sverrisdóttir krabbameinslæknir.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Það er óheppilegt að rof komi í meðferð sjúklinga vegna þess að viðeigandi lyf er ekki til í landinu,“ segir Ásgerður Sverrisdóttir krabbameinslæknir.

Í desember fékkst ekki á landinu tiltekið samheitalyf sem notað er í eftirmeðferð vegna brjóstakrabbameins. Í staðinn þurfti að nota annað sambærilegt samheitalyf sem var án markaðsleyfis. Þar af leiðandi þurfti að sækja um undanþágu til Lyfjastofnunar til að fá að nota lyfið.

Slíkt kallar á mikla skriffinnsku af hálfu lækna svo ekki sé talað um óþægindi fyrir þá sem þurfa að taka inn lyfið; óska eftir nýju lyfi með tilheyrandi bið.

Af þessum sökum hafa tugir manna orðið fyrir óþægindum og einhver dæmi eru um að einstakir sjúklingar hafi verið án lyfsins í nokkrar vikur.

„Óróleiki kemur fram hjá mörgum og dæmi eru um að þetta hafi slæm áhrif,“ segir Ásgerður. Hún bendir þó á að það komi fyrir að gera þurfi hlé á meðferð, m.a. vegna aukaverkana og það ætti ekki að koma að sök í nokkra daga eða mánuð.

Rannsóknir hafa sýnt að besta mögulega meðferðin sé fimm ár samfellt á þessum lyfjum. Hins vegar hefur ekki verið rannsakað hvaða áhrif það hefur ef hlé er gert á meðferðinni. „Mér finnst óþægilegt að rof komi í meðferðina og verð að viðurkenna að ég verð aðeins óörugg,“ segir Anna Ben Blöndal. Hún neyddist til að gera þriggja vikna hlé á eftirmeðferð við brjóstakrabbameini í desember. Anna bendir á að hún sé heppin því hún er fullfrísk en ekki séu allir í þeirri stöðu. Hún þarf að greiða kostnaðinn við lyfjakaupin að fullu vegna þess að lyfið er ekki skráð inn í lyfjakerfið og þarf að sækja um niðurgreiðslu sérstaklega.

Ekki hægt að koma alveg í veg fyrir lyfjaskort

„Aldrei er hægt að koma alveg í veg fyrir lyfjaskort, vegna þess að fjölmargir þættir spila inn í, m.a. stærð markaðarins, eitthvað kemur upp á í framleiðslu lyfjanna erlendis o.fl. Það er alltaf slæmt þegar sú staða kemur upp,“ segir Mímir Arnórsson, deildarstjóri upplýsingadeildar Lyfjastofnunar.

Aukabirgðir kostnaðarsamar

Spurður hvort ekki sé hægt að bregðast fyrr við, t.d. í þessu tilfelli, þar sem stærð hópsins liggi fyrir og af hverju sé þá ekki hægt að vera búinn að kaupa inn tiltekin samheitalyf svo þessi staða komi ekki upp, segir Mímir: „Þetta er hægt en spurning um kostnað og hver eigi að bera hann. Auka-lyfjabirgðir landsmanna myndu kosta mikla fjármuni.“ Hann bendir á að um leið og ljóst sé að stefni í lyfjaskort sé farið af stað og reynt að finna sambærileg lyf.