2002 Guðmundur Þ. Guðmundsson stýrði Íslandi í fyrsta sinn á EM.
2002 Guðmundur Þ. Guðmundsson stýrði Íslandi í fyrsta sinn á EM. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Íslenska landsliðinu í handknattleik hefur ekki gengið sem best gegn Spánverjum á Evrópumótum. Spánverjar verða síðasti andstæðingur Íslands í riðlakeppni EM fimmtudaginn 16. janúar. Fyrsti leikur þjóðanna í lokakeppni EM var í Skövde í Svíþjóð 25.

Íslenska landsliðinu í handknattleik hefur ekki gengið sem best gegn Spánverjum á Evrópumótum. Spánverjar verða síðasti andstæðingur Íslands í riðlakeppni EM fimmtudaginn 16. janúar.

Fyrsti leikur þjóðanna í lokakeppni EM var í Skövde í Svíþjóð 25. janúar 2002. Viðureigninni lauk með jafntefli, 24:24, en síðustu sekúndur leiksins voru æði skrautlegar. Íslenska liðið tók leikhlé þegar um 15 sekúndur voru eftir. Að loknum hléinu dróst í nokkrar sekúndur að setja leikklukkuna í gang á nýjan leik. Eftir því var ekki tekið fyrr en of seint. Eftir leikhléið hóf íslenska liðið sókn, marki yfir, 24:23, en tapaði boltanum fljótlega. Spánverjar ruku í sókn og skoruðu. Ef leikklukkan hinsvegar hefði verið sett af stað á rétum tíma hefði Spánverjum aldrei gefist tími til sóknar eftir að íslenska liðið tapaði boltanum. Dómarar og tímaverðir viðurkenndu hinsvegar aldrei mistök sín og kæru íslenska liðsins var vísað frá. Greinilegt var hinsvegar af upptökum af leiknum að leikurinn var nærri 10 sekúndum lengri en hann hefði átt að vera.

Ólafur Stefánsson var markahæstur Íslendinga í leiknum með sjö mörk.

Tveir sigrar Spánverja

Sex ár liðu þangað til þjóðirnar mættust á nýjan leik og þá í Þrándheimi í lokaleik íslenska liðsins í keppninni. Spánverjar unnu öruggan sigur, 33:26. Aftur var Ólafur Stefánsson markahæstur í íslenska liðinu, að þessu sinni með átta mörk.

Þriðja viðureign Íslendinga og Spánverja á EM var í Novi Sad í Serbíu fyrir tveimur árum. Aftur unnu Spánverjar örugglega, að þessu sinni með fimm marka mun, 31:26. Guðjón Valur Sigurðsson varð markahæstur með sex mörk og Rúnar Kárason var næstmarkahæstur með fjögur mörk, öll með þrumufleygum.

Á EM 2008 og 2012 hafnaði spænska liðið í 4. sæti mótsins. Spánverjar höfnuðu í 7. sæti á EM 2002 en þá varð íslenska liðið í 4. sæti. iben@mbl.is