Átök Jennifer Lawrence og Amy Adams í kvikmyndinni American Hustle sem hlotið hefur mikið lof gagnrýnenda.
Átök Jennifer Lawrence og Amy Adams í kvikmyndinni American Hustle sem hlotið hefur mikið lof gagnrýnenda.
American Hustle Nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Davids O. Russell sem á m.a. að baki Óskarsverðlaunamyndina Silver Linings Playbook .
American Hustle

Nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Davids O. Russell sem á m.a. að baki Óskarsverðlaunamyndina Silver Linings Playbook . American Hustle segir af snjöllum blekkingameistara og aðstoðar- og ástkonu hans sem þurfa tilneydd að aðstoða alríkislögregluna við rannsókn á spillingarmáli sem tengist mafíunni og valdamiklum embættismönnum. Þurfa þau að leggja gildru fyrir mafíósa í þeim tilgangi að afhjúpa mikla spillingu. Inn í þá áætlun fléttast grunlaus stjórnmálamaður og eiginkona blekkingameistarans sem hefur fengið sig fullsadda á framhjáhaldi eiginmannsins. Með aðalhlutverk fara Christian Bale, Amy Adams, Jennifer Lawrence, Alessandro Nivola, Bradley Cooper, Jeremy Renner, Louis C.K. og Robert De Niro.

Metacritic: 90/100

Lone Survivor

Kvikmynd byggð á frásögn bandarísks sérsveitarmanns af aðgerð í Afganistan sem kostaði 19 hermenn lífið. Í myndinni segir af fjórum sérsveitarmönnum í bandaríska hernum sem sendir eru í leynilega sendiför til Afganistan árið 2005 í þeim tilgangi að handsama eða drepa háttsettan talibana, Ahmad Shahd. Upp komst um aðgerðina með skelfilegum afleiðingum. Leikstjóri er Peter Berg og með aðalhlutverk fara Mark Wahlberg, Ben Foster, Emile Hirsch, Eric Bana, Josh Berry og Taylor Kitsch. Metacritic: 57/100

Justin Bieber's Believe

Poppstjarnan unga, Justin Bieber, er viðfangsefni þessarar bandarísku heimildarmyndar. Í myndinni er fylgst með goðinu, á sviði sem utan þess, og leið hans til ofurvinsælda um heim allan. Meðal þess sem ber fyrir augu eru trylltir aðdáendur popparans á táningsaldri, svipmyndir af Bieber í æsku og viðtöl við vini hans og ættingja, þ.ám. móður hans. Höfundur myndarinnar er Jon Chu.

Metacritic: 39/100

Borgman

Kvikmyndin Borgman, framlag Hollendinga til Óskarsverðlauna fyrir bestu kvikmynd í ár, verður frumsýnd í Bíó Paradís í dag. Í henni segir af flækingnum Borgman sem bankar upp á hjá auðugri fjölskyldu í einu af fínni hverfum Hollands. Hann fær húsmóðurina á heimilinu til að leyfa honum að búa í skúr úti í garði. Smám saman tekst honum, ásamt tveimur félögum sínum, að breyta lífi fjölskyldunnar í algjöra martröð. Leikstjóri myndarinnar er Alex van Warmerdam og með aðalhlutverk fara Jan Bijvoet, Hadewych Minis og Jeroen Perceval. Metacritic: 70/100

A Lizard in a Woman's Skin

Kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar í Bíó Paradís sýnir á sunnudaginn kvikmyndina A Lizard in a Woman's Skin frá árinu 1971. Í myndinni segir af dóttur þekkts stjórnmálamanns sem fær hryllilegar martraðir tengdar kynlífi, kynsvalli og LSD-vímu. Hún fremur morð í einni af þessum martröðum og þegar hún vaknar kemur í ljós að nágranni hennar hefur verið myrtur og hún er grunuð um verknaðinn. Leikstjóri er Lucio Fulci og með aðalhlutverk fara Florinda Bolkan, Stanley Baker og Jean Sorel.