[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is „Nei, ég verð ekki með.

Handbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Nei, ég verð ekki með. Ég er búin að vera alveg hrikalega slæm,“ segir Rakel Dögg Bragadóttir, leikmaður toppliðs Stjörnunnar í Olís-deild kvenna í handbolta, en Garðabæjarstúlkur eiga fyrsta leik á nýju ári gegn Gróttu á laugardaginn.

Þar verður liðið án Rakelar Daggar, leiðtoga síns og eins besta varnarmanns, þar sem hún hefur ekki enn jafnað sig á höfuðhöggi sem hún varð fyrir á landsliðsæfingu í lok nóvember.

Samherji Rakelar í landsliðinu þrumaði þá knettinum óvart í gagnauga hennar með þeim afleiðingum að hún fékk heilahristing. Hún hélt í fyrstu að ekki væri um alvarlegt atvik að ræða en annað hefur komið á daginn. „Ég fell niður reglulega með alveg brjáluð höfuðverkjaköst,“ segir hún.

Lá í þrjá daga eftir æfingu

„Ég er núna á leið í sneiðmyndatöku og mun líka hitta sérfræðing. Þetta hefur ekki verið góður tími eða góð jól,“ segir Rakel Dögg sem hefur ekkert æft eftir atvikið. Hún reyndi að æfa í síðustu viku en því hefði hún betur sleppt.

„Ég hafði ekkert æft fram að því og prófaði 20 mínútur í upphitun í samráði við sjúkraþjálfara. Ég lá í þrjá daga eftir það. Ég var slæm strax sama kvöld, verri daginn eftir og svo rosalega slæm daginn eftir það. Þá lá ég bara í rúminu og komst ekki fram úr. Þá varð ég líka smeyk og ákvað að panta mér tíma hjá sérfræðingi,“ segir hún.

Rakel varð fyrir höfuðhögginu á föstudegi en fór ekki á sjúkrahús. Hún fór heim og hvíldi sig þá helgina en leið það illa að hún fór á bráðamóttöku Landspítalans á mánudeginum.

Ekki hægt að harka þetta af sér

„Það var í raun ekkert gert þá. Læknirinn gerði bara einhver próf sem alltaf eru gerð en þá kom í ljós að ég varð ekki fyrir heilaskaða sem var allavega gott að heyra. Ég var svo send heim og sagt að koma aftur ef ég væri ekki orðin skárri eftir 2-3 vikur og sá tími er löngu liðinn. En nú ætla ég bara að láta mynda þetta og sjá hvort það er mar eða eitthvað þvíumlíkt,“ segir Rakel Dögg sem er mikill nagli en gallinn er að ekki er hægt að bíta á jaxlinn og æfa þegar um svona meiðsli er að ræða.

„Maður veit ekkert hvernig á að bregðast við. Það er ekki eins og þetta sé tognaður ökkli sem maður getur bara reifað saman og haldið áfram að æfa. Maður getur harkað ýmislegt af sér en það er bara ekki í boði núna,“ segir Rakel Dögg.

*Rakel er einn af álitsgjöfunum sem meta möguleika karlalandsliðsins í EM-blaði Morgunblaðsins í dag.