[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NFL Gunnar Valgeirsson Los Angeles Deildakeppnin í NFL atvinnuruðningnum hófst seinnipart sumars og lauk 29. desember. Úrslitakeppnin hófst síðan um síðustu helgi.

NFL

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Deildakeppnin í NFL atvinnuruðningnum hófst seinnipart sumars og lauk 29. desember. Úrslitakeppnin hófst síðan um síðustu helgi. Nú eru átta lið eftir og hefst keppnin loks fyrir alvöru, en fjögur bestu liðin sátu hjá í fyrstu umferð.

Denver Broncos og Seattle Seahawks voru fyrirfram talin sigurstranglegust í sínum deildum og þessi lið stóðu undir væntingum þeim sem gerðar voru til þeirra.

Gamla kempan Payton Manning, leikstjórnandi Denver, var tvímælalaust besti leikmaðurinn í deildakeppninni. Hann sló ýmis kastmet leikstjórnenda og hefur heldur betur sýnt að hann er nú búinn að ná sér af alvarlegum meiðslum á taugum í hálsi sem gerðu það að verkum að hann var meira og minna frá keppni tvö síðustu ár sín í Indianapolis.

Með liðið á sínum herðum

Helstu keppinautar Denver í Ameríkudeildinni verða eflaust New England Patriots, en þar á bæ hefur leikstjórnandinn Tom Brady enn einu sinni sýnt snilld sína. Ekkert annað lið hefur átt í eins miklum meiðslum með lykilmenn og Patriots, en Brady hefur hreinlega tekið liðið á sínar herðar og ef þessi lið leika til úrslita um Ameríkutitilinn ætti að verða mikið fjör.

Annars leika eftirfarandi lið í átta liða úrslitunum (heimaliðið fyrst).

Seattle Seahawks – New Orleans Saints.

Carolina Panthers – San Francisco 49ers.

New England Patriots – Indianapolis Colts.

Denver Broncos – San Diego Chargers.

Öll heimaliðin ættu að vinna hér, en San Francisco er líklegast að vinna útisigur. Leikirnir fara fram um helgina, 11. og 12. janúar. Úrslitaleikir deildanna tveggja fara fram 19. janúar og sjálfur úrslitaleikurinn sunnudaginn 2. febrúar. gval@mbl.is