Mannkynssagan Gunnar semur tónlist við texta fjögurra ljóðskálda í verkinu The Improvised History of the World sem verður frumflutt í Lundúnum.
Mannkynssagan Gunnar semur tónlist við texta fjögurra ljóðskálda í verkinu The Improvised History of the World sem verður frumflutt í Lundúnum. — Ljósmynd/Sigríður Soffía Gunnarsdóttir
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Gunnar Karel Másson er í hópi þriggja tónskálda sem fengin voru til að semja tónlist við þverfaglegt, alþjóðlegt leikhúsverk, The improvised History of the World , sem frumsýnt verður í Roundhouse í Lundúnum um miðjan maí næstkomandi. Í verkinu fá áhorfendur færi á að skapa sögu síns eigin heims, eins og því er lýst á vef verkefnisins, út frá tónlist sem verður spunnin á staðnum og verða því engar tvær sýningar eins. Texta verksins skrifa fjögur bresk ljóðskáld: AF Harrold, Adam Kammerling, Isley Lynn og Jonny Fluffypunk, og auk Gunnars semja Jerzy Bielski frá Póllandi og Toni Mairata March frá Spáni tónlist við verkið. Tveir dramatúrgar, Jazz Flaherty frá Bretlandi og Sarah Gottlieb frá Bandaríkjunum, munu búa til handrit út frá afrakstri rithöfundanna og tónskáldanna og verður unnið út frá því í vinnustofum í Amsterdam, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Madrid þar sem 25 atvinnutónlistarmenn frá ýmsum löndum koma við sögu. Ferlinu lýkur með frumsýningu í Lundúnum í maí. Þessu fjölþjóðlega og, að því er virðist, flókna verkefni stýrir Pawel nokkur Klica, leikhúsframleiðandi sem býr og starfar í Lundúnum.

Önnum kafinn

Gunnar á að baki tónsmíðanám við Listaháskóla íslands og Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hann er enn í námi. Verk hans hafa verið flutt á fjölda tónlistarhátíða og hann hefur tekið þátt í skipulagningu tónleika með nýrri samtímatónlist, hér á landi sem erlendis, stofnaði m.a. hátíðina Sonic í Kaupmannahöfn ásamt bekkjarfélaga sínum, Filip C. de Melo, og er einn listrænna stjórnenda tónleikaraðarinnar Jaðarber. Sem tónskáld hefur hann komið að nokkrum leiksýningum og verið tónskáld leikhópsins 16 elskendur frá árinu 2009.

„Til þess að verða einn þeirra sem skrifa tónlistina fyrir The Improvised History of the world var umsóknarferli. Ég fékk tilkynningu um þetta tækifæri frá skólanum mínum úti og ákvað að senda inn portfolio til þess að sjá hvort þeir vildu hafa mig með. Það gekk ekki verr en svo að ég var „short-listaður“ samdægurs og boðaður í skype-viðtal. Ég fékk svo stuttu seinna að vita að ég væri orðinn hluti af teymi sýningarinnar. Þetta ferli fór allt fram fyrir jól, en við höfum nú verið á fullu að semja fyrstu drög að tónlistinni fyrir vinnustofur sem fara fram núna í lok mánaðarins,“ segir Gunnar.

„Mitt hlutverk sem tónskáld við sýninguna er að ég fæ í hendurnar texta eftir ljóðskáldin fjögur sem eru viðriðin hana og sem tónlist við þá texta sem mér líst best á. Einu skilyrðin sem mér voru sett var að það ætti að heyrast einhvers konar rauður þráður milli verkanna og að ég yrði að að velja einn texta úr öllum flokkum. Þessir flokkar eru s.s. meginhugmynd sýningarinnar, en það er að segja sögu mannkyns upp á nýtt með brotakenndum hætti – ljúga sig í gegnum söguna ef svo mætti segja,“ útskýrir Gunnar. „Það voru textar sem byggðust á hugmyndum okkar um fornöld, miðaldir, samtímann og framtíðina. Síðan voru nokkrir textar sem féllu utan þessara flokka. Eins og er þá er ég önnum kafinn við það að semja fyrstu drögin – skilafrestur er núna á mánudaginn [í gær, innsk. blm.] – og ég veit ekki í raun alveg hvernig þetta á allt eftir að hanga saman. Fyrir mig er þetta gífurlega spennandi verkefni þar sem vinnuaðferðirnar minna að sumu leyti á „devised“ leikhús sem ég hef fengist mikið við, 16 elskendur eru til að mynda nánast eingöngu í þeim endanum af leiklistinni,“ segir Gunnar.