Aron Jóhannsson
Aron Jóhannsson
Liðin sem taka þátt í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í Brasilíu í sumar þurfa heldur betur að vera á faraldsfæti innan þessa víðfeðma lands.

Liðin sem taka þátt í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í Brasilíu í sumar þurfa heldur betur að vera á faraldsfæti innan þessa víðfeðma lands. Bandaríkin, Ítalía og Mexíkó þurfa að ferðast mest vegna leikja, samtals rúmlega 14 þúsund kílómetra hvert lið.

Samkvæmt útreikningum brasilíska dagblaðsins Estado de SP þurfa Aron Jóhannsson og samherjar í bandaríska landsliðinu að ferðast mest allra þeirra 32 liða sem taka þátt í lokakeppninni. Þeir dvelja í Sao Paulo og þurfa að ferðast þaðan með flugi til Natal, Manaus og Receife, þar sem leikir þeirra gegn Gana, Portúgal og Þýskalandi fara fram. Samtals gera það 14.326 kílómetrar. Ítalir koma næstir en þeir munu hafa aðsetur í Ríó de Janeiro, og ferðast samtals 14.126 kílómetra til að komast í leiki í sömu borgum. Mexíkóar koma síðan skammt undan.

Belgar eru hinsvegar best settir. Þeir búa skammt frá Sao Paulo og geta farið þangað í rútu til að spila gegn Suður-Kóreu, og þurfa aðeins að fljúga tæplega 2.000 kílómetra vegna leikja gegn Alsír og Rússlandi sem fara fram í Belo Horizonte og Ríó.

Meðalvegalengd hjá liðunum er 7.525 kílómetrar og gestgjafarnir, Brasilíumenn, eru það lið sem er næst þeirri tölu.

Leikirnir á HM fara fram í tólf borgum og í sumum tilvikum tekur það liðin fjóra tíma að fljúga frá dvalarstað sínum til keppnisstaðar. vs@mbl.is