Álaborg Vignir Svavarsson fagnar Björgvini Páli Gústavssyni eftir að sá síðarnefndi var útnefndur maður leiksins í viðureign Íslands og Noregs á sunnudaginn. Í dag klukkan 17.00 mætast Ísland og Ungverjaland í Gigantium-höllinni í Álaborg og þar er farseðillinn í milliriðilinn í húfi hjá báðum liðum.
Álaborg Vignir Svavarsson fagnar Björgvini Páli Gústavssyni eftir að sá síðarnefndi var útnefndur maður leiksins í viðureign Íslands og Noregs á sunnudaginn. Í dag klukkan 17.00 mætast Ísland og Ungverjaland í Gigantium-höllinni í Álaborg og þar er farseðillinn í milliriðilinn í húfi hjá báðum liðum. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2014 Ívar Benediktsson Álaborg Enginn skyldi vanmeta landslið Ungverjalands um þessar mundir þrátt fyrir að það hafi tapað með sjö marka mun fyrir heimsmeisturum Spánverja í upphafsleik B-riðils Evrópumótsins í handknattleik á sunnudagskvöldið og þar...

EM 2014

Ívar Benediktsson

Álaborg

Enginn skyldi vanmeta landslið Ungverjalands um þessar mundir þrátt fyrir að það hafi tapað með sjö marka mun fyrir heimsmeisturum Spánverja í upphafsleik B-riðils Evrópumótsins í handknattleik á sunnudagskvöldið og þar áður legið fyrir Tékkum á heimavelli í vináttuleik. Skemmst er minnast þess að það voru Ungverjar sem lögðu Íslendinga á síðustu Ólympíuleikum. Aðeins hálfu ári áður hafði íslenska liðið unnið það ungverska örugglega á EM í Serbíu.

Ungverjar hafa í gegnum tíðina reynst íslenska landsliðinu óþægur ljár í þúfu. Ekkert bendir til annars en svo verði áfram enda er ungverska landsliðið sterkt þótt í það vanti besta handknattleiksmann landsins, Lázló Nagy. Gleymum því ekki að einnig vantar Alexander Petersson í íslenska landsliðið svo dæmi sé tekið.

Fyrir Evrópumótið stillti Lajos Mocsai, landsliðsþjálfari Ungverja, taflinu upp þannig að gegn Spánverjum ættu Ungverjar enga möguleika á sigri en gegn Íslendingum og Norðmönnum helmings möguleika. Ungverskur blaðamaður sem ég ræddi við eftir viðureign Spánverja og Ungverja sagði að ungverska liðið myndi leggja allt í sölurnar gegn Íslendingum. Hann var að vísu ekki bjartsýnn á sigur og sagði lið Ungverja eins og slegið út af laginu eftir að ljóst varð að leiðtogi þess og besti leikmaður, Nagy, gæti ekki tekið þátt í mótinu vegna meiðsla. „Ef við töpum fyrir Íslendingum er ég hræddur um að okkar bíði sömu örlög gegn Noregi. Einfaldlega vegna þess að þegar ungverskir íþróttamenn sjá vonina minnka þá gefa þeir oft eftir. Við erum ólíkir ykkur frá Norðurlöndunum, sem gefist aldrei upp fyrr en í fulla hnefana.“

Tíu leikmenn frá tveimur liðum

Ekki skal ég fullyrða að staðan sé svo einföld varðandi ungverska liðið, sem er vel skipað þrátt fyrir að Nagy vanti. Í 16-manna hópnum eru tíu leikmenn sem leika annaðhvort með Pick Szeged eða Veszprém, tveimur bestum liðum Ungverjalands, en bæði leika þau í Meistaradeild Evrópu. Þjálfarinn er eldri en tvævetur í faginu og undirbýr lið sitt af kostgæfni.

Helstu leikmenn liðsins eru: Roland Mikler, sem átti á tíðum frábæra leiki á HM á Spáni fyrir ári. Tamás Mocsai, sonur þjálfarans, örvhent skytta, 196 cm á hæð, og þótt hann sé ekki eins sterkur og Nagy ber að taka hann alvarlega. Mocsai yngri er reyndar farinn að eldast, verður 36 ára þessu ári. Hann er hins vegar reyndur eftir langa veru hjá þýskum liðum. Hann fluttist heim um áramótin eftir að hafa fengið sig lausan frá Burgdorf. Mocsai hefur gengið til liðs við Veszprém. Gábor Czászár er snöggur og skemmtilegur leikmaður sem getur leikið sem leikstjórnandi og skytta hægra megin. Hann er liðsfélagi Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar og Róberts Gunnarssonar hjá franska meistaraliðinu París SG. Czászár hefur oft reynst Íslendingum erfiður. Línumaðurinn Szabolocs Zubai er háll sem áll og þarf lítið rými til þess að vinna á. Tveir leikmenn ungverska liðsins leika í Frakklandi og einn í Þýskalandi.

Mocsai ekki ósáttur við tap

Eftir tapleikinn á móti Spánverjum í fyrrakvöld sagðist Lajos Mocsai þjálfari ekki vera svo ósáttur við úrslitin, sem er skiljanlegt í ljósi þess sem hann sagði fyrir mótið. „Við erum með nokkra unga leikmenn sem hafa litla sem enga reynslu af stórmótum,“ sagði Mocsai og benti m.a. á að þrátt fyrir sjö marka tap hefði lið hans haldið jöfnu í síðari hálfleik þar sem það þegar verið orðinn sjö marka munur í hálfleik.

„Síðari hálfleikur gegn Spáni var mun betri en sá fyrri. Við vorum ákveðnari og frjórri í sóknarleiknum,“ sagði Mocsai, sem auk þess að vera landsliðsþjálfari er prófessor við íþróttafræðideild háskóla í Búdapest.

Ungverska landsliðið leikur öðru vísi handknattleik en það norska, sem íslenska landsliðið mætti í fyrradag. Hins vegar munu að mörgu leyti gilda sömu lögmál og áður. Liðið sem nær upp góðri markvörslu og vörn fer með sigur af hólmi.

Ungverjar þurfa stig til þess að auðvelda sér leið í milliriðil. Stig til íslenska landsliðsins mun tryggja því keppnisrétt í milliriðli. iben@mbl.is