14. janúar 1854 Leikritið Pak eftir Thomas Overskou var sýnt í Nýja klúbbnum í Reykjavík á fyrstu opinberu leiksýningu á Íslandi sem aðgöngumiðar voru seldir á. Miðar í sæti kostuðu þrjú mörk en tvö mörk í „standandi pláss“ og þótti dýrt....

14. janúar 1854

Leikritið Pak eftir Thomas Overskou var sýnt í Nýja klúbbnum í Reykjavík á fyrstu opinberu leiksýningu á Íslandi sem aðgöngumiðar voru seldir á. Miðar í sæti kostuðu þrjú mörk en tvö mörk í „standandi pláss“ og þótti dýrt.

14. janúar 1923

Ofsaveður var á útsunnan. Örfiriseyjargarðurinn í Reykjavík hrundi á 150 metra löngu svæði (gert var við hann um sumarið). Brimbrjótur á Hellissandi hrundi einnig í veðrinu. Tjón varð á bátum og ellefu manns fórust.

14. janúar 1976

Ólafur Jóhann Sigurðsson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, fyrstur Íslendinga. „Íslendingum öllum er mikill heiður sýndur,“ sagði Þjóðviljinn.

14. janúar 1982

Stórviðri gekk yfir Austurland. Harðast var það á Borgarfirði eystra en þar brotnuðu rúður í nær öllum húsum, meðal annars 22 rúður í félagsheimilinu.

14. janúar 1984

Páfi staðfesti helgi Þorláks biskups Þórhallssonar (f. 1133, d. 1193) og viðurkenndi hann sem verndardýrling íslensku þjóðarinnar. Messur hans eru 20. júlí og 23. desember.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson