Gleði Framleiðendur og leikarar úr kvikmyndinni American Hustle stilla sér hæstánægðir upp fyrir ljósmyndara á Golden Globe-hátíðinni.
Gleði Framleiðendur og leikarar úr kvikmyndinni American Hustle stilla sér hæstánægðir upp fyrir ljósmyndara á Golden Globe-hátíðinni. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandarísku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin Golden Globe, eða Gullhnötturinn, voru afhent í fyrrakvöld í Los Angeles og hlaut kvikmynd leikstjórans Davids O.

Bandarísku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin Golden Globe, eða Gullhnötturinn, voru afhent í fyrrakvöld í Los Angeles og hlaut kvikmynd leikstjórans Davids O. Russells, American Hustle , flest verðlaun eða þrenn alls; sem besta kvikmyndin í flokki söngva- og gamanmynda og fyrir bestu leikkonur í aðal- og aukahlutverki, Amy Adams og Jennifer Lawrence. Verðlaun fyrir bestu mynd í flokki dramatískra kvikmynda hlaut 12 Years a Slave og verðlaun fyrir bestu leikstjórn Alfonso Cuarón, fyrir kvikmyndina Gravity . Matthew McConaughey hlaut verðlaun sem besti leikari í dramatískri kvikmynd, fyrir leik sinn í Dallas Buyers Club og Leonardo Di Caprio var valinn besti leikari í söngva- eða gamanmynd, fyrir leik sinn í The Wolf of Wall Street . Cate Blanchett var valin besta leikkona í dramatískri kvikmynd fyrir leik sinn í Blue Jasmine . Verðlaun fyrir besta kvikmyndahandrit hlaut Spike Jonze fyrir handrit kvikmyndar sinnar Her og La grande bellezza hlaut verðlaun sem besta kvikmyndin á erlendu tungumáli, þ.e. öðru en ensku.

Í flokki sjónvarpsefnis hlaut Breaking Bad verðlaun sem besta dramatíska þáttaröðin og aðalleikari hennar, Bryan Cranston, hlaut verðlaun sem besti leikari. Brooklyn Nine-Nine þótti best í flokki gamanþáttaraða og verðlaun fyrir bestu sjónvarpsmynd hlaut Behind the Candelabra eftir Steven Soderbergh. Verðlaun sem besta leikkona í dramatískri þáttaröð hlaut Robin Wright fyrir House of Cards og í flokki gamanþátta varð leikkonan Amy Poehler hlutskörpust, fyrir leik sinn í Parks and Recreation og leikarinn Andy Samberg fyrir Brooklyn Nine-Nine . Golden Globe-verðlaunin þykja jafnan gefa forsmekkinn að því sem koma skal á Óskarsverðlaununum.