Varnarmaður Sverre Jakobsson er lykilmaður í vörn íslenska liðsins og hefur verið um langt skeið.
Varnarmaður Sverre Jakobsson er lykilmaður í vörn íslenska liðsins og hefur verið um langt skeið. — Morgunblaðið/Eva Björk
EM 2014 Ívar Benediktsson Álaborg „Ungverjar eru líkamlega stærri og sterkari en Norðmennirnir,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson, leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik og helsti varnarmaður liðsins, spurður í gær hver væri...

EM 2014

Ívar Benediktsson

Álaborg

„Ungverjar eru líkamlega stærri og sterkari en Norðmennirnir,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson, leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik og helsti varnarmaður liðsins, spurður í gær hver væri meginmunurinn á ungverska landsliðinu sem íslenska landsliðið mætir í dag og því norska sem leikið var gegn á sunnudaginn.

„Ungverjar hafa yfir að ráða meiri skyttum en Norðmenn sem eru betri maður gegn manni og eru jafnframt tæknilega betri. Það er margt líkt með liðunum en annað ekki. Við höfum farið vel yfir leiki ungverska landsliðsins og erum komnir með hernaðaráætlun sem verður fínstillt í kvöld og í fyrramálið [í dag] og svo að segja alveg fram að leik,“ sagði Sverre eftir æfingu íslenska landsliðsins í Gigantium rétt eftir miðjan dag í gær.

Æfingin fór ekki fram á aðalstaðnum þar sem leikið er heldur í minni hliðarsal. Þakið yfir salnum lak á einum stað og þurfti að setja fötur og handklæði á gólfið meðan æfingin stóð yfir.

Líkamlega erfiðari

Sverre segir að leikurinn við Ungverja í dag muni verða líkamlega erfiðari. „Við þekkjum Ungverjana ágætlega eftir að hafa leikið nokkrum sinnum við þá á síðustu árum, til dæmis á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012. Við vorum vel búnir undir þann leik og búum að því að einhverju leyti ennþá. Úrslit þess leiks verða til þess að hvetja okkur enn frekar til dáða á morgun,“ sagði Sverre ennfremur en eins og mörgum er eflaust í fersku minni unnu Ungverjar þann leik með einu marki eftir dramatískar lokasekúndur.

Með sigri eða jafntefli í leiknum við Ungverja tryggir íslenska landsliðið sé sæti í milliriðlakeppni Evrópumótsins og flytur sig þar með um set undir helgina.

„Við veltum framhaldinu í sjálfu sér ekki fyrir okkur. Nú kemur bara nýr dagur og með nýju verkefni. Ef maður ætlar að ná árangri á stórmóti í handknattleik má maður ekki dvelja of mikið við fortíðina, hvort sem upplifunin er jákvæð eða neikvæð. Það má taka ýmislegt með sér úr næsta leik á undan, menn verða hinsvegar að geta núllstillt sig og tekist á við nýtt verkefni. Við viljum samt ekki eyðileggja góðan árangur úr leiknum við Norðmenn með því að eiga slakan leik gegn Ungverjum. Það verður enginn meistari með því að vinna einn leik í móti,“ segir Sverre léttur í bragði að vanda.

„Við stöndum hvorki né föllum með sigrinum á Norðmönnum, sama má segja um næsta leik, gegn Ungverjum á morgun [í dag],“ segir Sverre. Hann segir ennfremur að það breyti ekki miklu í undirbúningi fyrir leikinn við Ungverja að hafa unnið leikinn við Noreg á sunnudaginn.

„Auðvitað er alltaf betra að hefja nýtt verkefni í lífinu á jákvæðum nótum en þeim neikvæðu. Þá komum við aftur að því sem ég sagði áðan að menn mega ekki láta fortíðina blinda sig. Leikurinn í dag er ekkert síður mikilvægur en viðureignin við Norðmenn á sunnudaginn,“ segir Sverre. iben@mbl.is