[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
...Maður rekst á fallegt mótíf og vill eiga mynd af því. Varðveita það ...

AF LISTUM

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Þetta er andrúmsloftið og hversdagsmenningin sem ég þekkti svo vel á seinni hluta tuttugustu aldar,“ sagði Leifur Þorsteinsson ljósmyndari þegar við hittumst í Ljósmyndasafni Reykjavíkur einn kaldan febrúardag árið 2007. Hann var þar að setja upp sýninguna „Fólk og borg“, með fjölda áhugaverðra svarthvítra ljósmynda sem sýndu hliðar á Reykjavík sem margar voru horfnar.

„Þetta er menning og andrúmsloft þeirrar kynslóðar sem er nú um það bil að hætta þátttöku í lífinu. Nýju kynslóðirnar eru allt öðruvísi – þessi borg er ekki lengur til, þótt það sé hægt að finna þessa staði alla saman sem myndirnar sýna. Þetta er samt ekki sama borgin... Það er ekkert líf í miðbænum lengur,“ sagði Leifur, þessi hávaxni hvíthærði maður og kunnuglegt glottið birtist í skegginu. Síðan við ræddum saman þennan dag hefur borgin breyst enn meira og nú er Leifur sjálfur horfinn af sjónarsviðinu, áttræður að aldri. Hann var einn merkasti ljósmyndari þjóðarinnar undanfarna hálfa öld, virkur þátttakandi í mannlífinu, og mikilvægur skrásetjari þess; hann var jarðsunginn í gær.

Um tíma átti Leifur beina og gefandi samleið með okkur ljósmyndurum Morgunblaðsins. Þegar litmyndum tók að fjölga á síðum blaðsins voru þær teknar í lit og við fórum með filmurnar í framköllun til Leifs í Myndiðn, fyrirtækinu sem hann starfrækti í gamla bænum við Eskihlíð þar sem þau Friðrika Geirsdóttir, eiginkona hans, voru einnig búsett. Þá kynntumst við fyrst, og ég kynntist einnig þeirri djúpu þekkingu sem hann bjó yfir á öllu því sem varðaði ljósmyndun, efnafræði sem fagurfræði, og líka kersknislegu glottinu.

Leifur var merkur brautryðjandi í ljósmyndun hér á landi; ferill hans hófst þegar hann sneri heim úr námi í Kaupmannahöfn árið 1962. Fyrst las hann reyndar eðlis- og efnafræði við Kaupmannahafnarháskóla í þrjú ár en söðlaði svo um. „Ég fór að efast um að ég nennti að verða kennari það sem eftir væri lífsins og svissaði yfir. Fór að læra ljósmyndaiðnina. Ég hafði ekki trú á því að ég væri séní – eða hafði einfaldlega ekki nógu mikinn áhuga,“ sagði hann, og fyrir vikið flutti hann heim nokkrum árum síðar sem fyrsti sérhæfði iðnaðar- og auglýsingaljósmyndari þjóðarinnar. Maður sem setti viðmið fyrir aðra á því sviði en varð líka strax virkur sem skapandi listamaður með myndavélina, eins og við höfum fengið að rifja upp með röð merkra sýninga í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á undanförnum árum. Leifur var líka mikilvirkur kennari, fyrst á vegum Ljósmyndarafélagsins, þá í Iðnskólanum og loks leiddi hann nemendur Listaháskólans inn í hina stafrænu tíma í Listaháskólanum.

Leifur þekkti Reykjavík betur en flestir og hélt merkar frumkvöðlasýningar með myndum af borgarlífinu í Bogasalnum. Hann átti sér önnur persónuleg viðfangsefni; tók til að mynda fagrar kyrralífsmyndir og eftirminnileg eru mörg formhrein portrett hans, meðal annars af listamönnum.

„Ég hef aldrei verið í formlegu listnámi,“ sagði Leifur, „nema þegar ég var í barnaskóla. Þá var ég hjá Kurt Zier í teikningu. Og það var teiknikennsla í lagi. Þá fékk ég fyrst áhuga á myndum...

Þetta er bara frásögn af þessum andblæ tímans,“ sagði hann svo þegar við litum yfir myndir hans af þessum nær horfna heimi Reykjavíkur. „Ég held ég hafi ekki verið að skrá heimildir, þótt það hafi verið einhvers staðar í undirmeðvitundinni að þetta gæti orðið sagnfræðilegt. Þetta er söfnunarárátta. Maður rekst á fallegt mótíf og vill eiga mynd af því. Varðveita það fyrir sjálfan sig.“