Lion King Bara söngleikur í huga nýrrar kynslóðar?
Lion King Bara söngleikur í huga nýrrar kynslóðar?
Ég hef alveg rosalega gaman af Gettu betur. Ég held alltaf jafninnilega með mínum gamla skóla, sem sennilega er jafnóvinsæll og KR, af því bara.

Ég hef alveg rosalega gaman af Gettu betur. Ég held alltaf jafninnilega með mínum gamla skóla, sem sennilega er jafnóvinsæll og KR, af því bara. Spurningahöfundum hefur tekist að gera keppnina stórskemmtilega með spurningum sem meðallúði eins og ég ætti að geta svarað.

Ég áttaði mig hins vegar á því þegar ég hlustaði á keppnir helgarinnar að ég er orðinn gamall. Það sama á sennilega við um dómarana. Eða, allavega einni kynslóð eldri en keppendur í Gettu betur, sem eiga að vera þau bestu og beittustu í sínum skólum.

Þannig rak mig í rogastans þegar ég heyrði að það er ekki lengur almenn vitneskja (og með almenn vitneskja þá á ég við vitneskja eins og að anda inn eftir að maður andar út) að föðurbróðir Simba í Konungi ljónanna heitir Skari. Þessa stórmynd kann hvert mannsbarn, af minni kynslóð, utanbókar. Að sama skapi vakti það óhug þegar ég komst að því að æska þessa lands veit ekki að galdrakarlinn í Aladdin heitir Jafar, þekkir ekki R-Kelly og þekkir ekki stórleikinn Doom, þó svo að honum sé lýst í öratriðum. Svo fann ég eitt grátt hár í morgun. Andlega grátt hár.

Gunnar Dofri Ólafsson