Bræðir Gísli Hjartarson að störfum á tankbílnum í gær, þar sem hann bræddi klaka á bílastæði Morgunblaðsins.
Bræðir Gísli Hjartarson að störfum á tankbílnum í gær, þar sem hann bræddi klaka á bílastæði Morgunblaðsins. — Morgunblaðið/Ómar
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Ein af þeim lausnum sem íbúum á höfuðborgarsvæðinu standa til boða gegn hvimleiðri hálkunni er að fá til sín tankbíl með heitu vatni til þess að bræða klakann. Að sögn Gísla Hjartarsonar, verktaka og eiganda Neshamars ehf.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Ein af þeim lausnum sem íbúum á höfuðborgarsvæðinu standa til boða gegn hvimleiðri hálkunni er að fá til sín tankbíl með heitu vatni til þess að bræða klakann. Að sögn Gísla Hjartarsonar, verktaka og eiganda Neshamars ehf., hefur bíllinn til þessa að mestu verið nýttur til að hita steypuplötur og -mót. „Ég fór að bræða klaka heima hjá mér um daginn. Þá sagði konan mín að ég ætti að bjóða þessa þjónustu víðar,“ segir Gísli sem tók hana á orðinu.

Grípa fljótt inn í

Til þessa hefur Gísli brætt klaka fyrir einkaaðila á byggingarsvæðum í mörg ár. Þegar mest lét fyrir hrun var hann með fjóra tankbíla sem þjónustuðu byggingarsvæði með þessum hætti. Nú er einn bíll eftir og segir hann að umsvifin hafi minnkað svo mikið að það sé „meira en nóg.“

Tankurinn á bíl hans tekur 16 þúsund lítra og er greitt fyrir notkun bílsins auk þess vatnsmagns sem til þarf. Að sögn Gísla kostar hver ferð um 50 þúsund krónur og að það tekur um 40 mínútur að tæma bílinn. Vinna við að fylla á tankinn og koma sér á áfangastað er um þrjár klukkustundir í heild. „Það skiptir máli að hafa vatnið sem heitast og ég tek það beint af stút inn í tankinn,“ segir Gísli. Hann segir að tímabil þar sem þörf er á þjónustunni nái frá nóvember og fram í mars. „Það skiptir miklu máli hvenær þetta er gert. Best er að grípa inn í áður en klakinn verður of þykkur,“ segir Gísli.