Stál í stál Mótmæli stjórnarandstæðinga í Bangkok í gær.
Stál í stál Mótmæli stjórnarandstæðinga í Bangkok í gær. — EPA
Kristján Jónsson kjon@mbl.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Tugþúsundir stjórnarandstæðinga í Taílandi lögðu í gær undir sig mikilvægar götur í höfuðborginni Bangkok og hugðust þannig reyna að loka allri umferð til og frá borginni til að brjóta á bak aftur ríkisstjórn Yingluck Shinawatra forsætisráðherra. Einnig er fólk hvatt til að hundsa þingkosningar, sem eiga að fara fram 2. febrúar næstkomandi.

„Við munum ekki gera neinar málamiðlanir. Í þessum slag mun aðeins einn sigra,“ hrópaði helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Suthep Thaugsuban, á fjölmennum mótmælafundi í Bangkok.

Yingluck boðaði til kosninga til að reyna að koma í veg fyrir frekari átök stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Hinir síðarnefndu neita á hinn bóginn að taka þátt í kosningunum og segja að þær muni aðeins leiða til þess að ríkisstjórnin haldi þingmeirihluta sínum. Þeir vilja að einhvers konar þjóðarráð verði skipað og eigi það að hafa umsjón með umbótum á kosningalögum. Þessar hugmyndir eru þó afar óljósar.

Andstæðingar Yingluck eru einkum úr röðum efnaðra íbúa höfuðborgarinnar og suðlægra héraða, einnig eru þeir margir dyggir konungssinnar. Yingluck er sökuð um um að vera strengjabrúða bróður síns, milljarðamæringsins Thaksins Shinawatra. Hann var um hríð forsætisráðherra en herinn rak hann frá völdum og hann flúði land þegar hann var dæmdur sekur um fjármálasvindl.

Shinawatra-systkinin hafa m.a. aukið lýðhylli sína með gríðarlegum niðurgreiðslum á hrísgrjónum en einnig hafa kjósendur fengið ríkulega húsnæðisstyrki.