[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2014 Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is „Fyrir EM fannst mér, eins og ég minntist á, strákarnir vera of aðgerðalausir í vörninni en gegn Noregi var annað uppi á teningnum.

EM 2014

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Fyrir EM fannst mér, eins og ég minntist á, strákarnir vera of aðgerðalausir í vörninni en gegn Noregi var annað uppi á teningnum. Vignir og Sverre stigu út í ákveðnar hreyfingar Norðmanna, náðu að mæta skyttunum inni á miðjunni, mjög framarlega, sem gerði það að verkum að þeir reyndu erfiðar og tæpar línusendingar sem við refsuðum fyrir með hraðaupphlaupum. Þetta er okkar leikur og svona spilum við best,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram í Olís-deildinni í handbolta, sem er mikill varnarsérfræðingur enda var hann frábær varnarmaður á sínum ferli.

Guðlaugur var einn þeirra sem höfðu áhyggjur af varnarleik strákanna okkar fyrir EM eins og hann greindi frá í EM-blaði Morgunblaðsins. Hann hrósar strákunum mikið fyrir sigurinn á Noregi á sunnudaginn og líst vel á framhaldið.

Norðmenn voru bara teknir

„Þegar við höfum náð árangri á stórmótum hefur vörnin virkað vel. Björgvin dettur líka í gír í markinu þegar vörnin er ákveðin og andstæðingurinn fær ekki of mikið af frjálsum skotum. Þegar við neyðum mótherjann til að skjóta með mann í sér verður verkefnið auðveldara fyrir markverðina og þá er Björgvin bestur,“ segir Guðlaugur, en hvað varð til þess að einn albesti línumaður heims, Bjarte Myrhol, átti svo slakan leik að hann sjálfur sagðist hafa átt sinn versta leik á ferlinum?

„Það er vegna þess að vörnin tók hann. Bakverðirnir unnu vel undir þristana sem gerði línumanninum erfitt fyrir. Inn á milli voru bakverðirnir ákveðnir og þristarnir flatir með línumanninum sem gerði honum erfitt fyrir. Strákarnir náðu alltaf að forvinna á Myrhol og leyfðu honum aldrei að ná sér í stöðu. Bjarte er mjög öflugur milli tveggja varnarmanna fái hann kannski góða „rússablokk“. Þá er hann erfiður. En þegar sendingin verður lengri frá skyttunni og hann er með mann í sér er hann ekki jafngóður. Bjarte var bara tekinn í þessum leik eins og allir Norðmennirnir,“ segir Guðlaugur.

Bjarki Már mun vaxa

Spurður um frammistöðu Vignis Svavarssonar og Sverres Jakobssonar sem standa í miðri vörn Íslands segir Guðlaugur: „Þeir bara svöruðu kallinu.“

Hann spyr sig þó hversu mikið þeir tveir geti beitt sér á fullu en báðir eru að stíga upp úr meiðslum. „Þeir eru ekkert fæddir í gær og vita hvað þarf til að spila á svona mótum en ég er pínu hræddur um hversu langan tíma það tekur þá að jafna sig. Það er stórt atriði því lykillinn að varnarleiknum er vinnslan á þeim tveimur.“

Bjarki Már Gunnarsson er á sínu fyrsta stórmóti og mun mínútunum hans eflaust fjölga í næstu leikjum. Guðlaugur vill sjá Bjarka grimmari í vörninni.

„Hann er framtíðarvarnarmaður landsliðsins og gríðarlega efnilegur sem slíkur. Ég vil samt sjá hann sýna aðeins meira sjálfstraust og mæta leikmönnum. Hann er aðeins of aðgerðalaus í vörninni. Kannski er það eitthvað sem Aron leggur upp með en ég vil sjá Bjarka ákveðnari því hann er naut að burðum. Mínúturnar hans verða mjög mikilvægar á mótinu og ég tel að hann muni vaxa þegar á líður.“

Ungverjar sakna Nagy

Ísland mætir Ungverjalandi í dag og býst Guðlaugur við sigri strákanna okkar verði varnarleikurinn jafngóður og gegn Noregi í fyrsta leiknum.

„Ég tel svo vera. Ég horfði á Ungverjana gegn Spáni og þeir sakna Nagy gríðarlega. Lykilatriðið er bara að leyfa þeim aldrei að skjóta án snertingar,“ segir Guðlaugur Arnarsson.