Síld Það sem fannst í Hvammsfirði var ekki úr veiðistofninum.
Síld Það sem fannst í Hvammsfirði var ekki úr veiðistofninum.
Síldin sem tilkynnt var um í Hvammsfirði reyndist vera smásíld. Hún er þar í umtalsverðu magni, samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar, en enn er verið að reikna út magnið. Hafrannsóknastofnun fékk fréttir af því að töluvert væri af síld í Hvammsfirði.

Síldin sem tilkynnt var um í Hvammsfirði reyndist vera smásíld. Hún er þar í umtalsverðu magni, samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar, en enn er verið að reikna út magnið.

Hafrannsóknastofnun fékk fréttir af því að töluvert væri af síld í Hvammsfirði. Var talið hugsanlegt að þangað hefði farið til vetrardvalar sá hluti veiðistofns síldar sem vísindamenn hafa ekki fundið í vetur. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnun, segir að það hafi ekki reynst vera rétt. Þarna hafi eingöngu verið ungsíld, af árgangi 2012.

Þótt vitað sé að smásíld hafi áður verið í Hvammsfirði segir Þorsteinn að komið hafi á óvart hversu mikið er þar í vetur. Verið er að reikna út mælingar sem gerðar voru með Dröfn RE fyrir helgi og liggja niðurstöður ekki fyrir.

Dröfnin kannaði einnig önnur svæði við sunnanverðan Breiðafjörð, m.a. Kolgrafafjörð. Þar reyndist vera svipað magn og mælst hefur undanfarnar vikur.

Leitað til sjómanna

Vísindamenn Hafró telja að aðallega vanti tvo árganga í veiðistofn síldar. „Við teljum líklegast að þessir árgangar hafi breytt um vetursetustöðvar og finnist ekki. Það er óþægilegt þegar slíkt gerist,“ segir Þorsteinn.

Verið er að meta framhaldið, hvernig staðið verði að leitinni. Leitað hefur verið eftir upplýsingum frá sjómönnum en þær fréttir sem hafa borist frá þeim hafa ekki skilað neinu, enn sem komið er. Þorsteinn vonast til að sjómenn sem verða varir við síld, ekki síst við vestanvert landið, láti Hafró vita. helgi@mbl.is