[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúmt ár er liðið frá því að Kia Sorento fékk andlitslyftingu. Árið 2013 voru 70 slíkir bílar skráðir hér á landi sem bendir til þess að breytingarnar hafi fallið vel í kramið hjá unnendum bílsins.

Rúmt ár er liðið frá því að Kia Sorento fékk andlitslyftingu. Árið 2013 voru 70 slíkir bílar skráðir hér á landi sem bendir til þess að breytingarnar hafi fallið vel í kramið hjá unnendum bílsins.

Auk andlitslyftingarinnar fékk hann nýjan undirvagn og splunkunýtt mælaborð. Vélin er sú sama og hefur áður verið, það er að segja 197 hestafla 2200 dísilvél með sex þrepa sjálfskiptingu. Verðið er frá 7.450.000 kr.

Stærstur í flotanum

Það er í raun margt sem skýrir vinsældir þessa jeppa. Hann er stærsti bíllinn frá Kia og er verðið á því róli að hann er sæmilega fær í samkeppni við aðra bíla í sama stærðarflokki. Þar ber helst að nefna Hyundai Santa Fe sem kostar það sama og Sorento, 7.450.000 kr. Chevrolet Captiva sem kostar 5.990.000 kr. og Subaru Forester á 5.790.000 kr. og BMW X3 á 7.490.000 kr.

Þess ber að geta að miðað er við lægsta verð hverrar tegundar en allir eru þeir dísil nema Foresterinn sem er bensínbíll. Hægt er að sérpanta hann með dísilvél.

Lágar eyðslutölur

Það jafnast fátt á við það að komast í gegnum hinar ýmsu torfærur, snjó og því um líkt án þess að bíllinn eyði eins og kaupóður karl.

Meðaleyðslan hjá mér, við stórskemmtilegar veðurfræðilegar aðstæður, var í kringum sjö lítrar á hundraðið. Hæglega er hægt að fara neðar í logni en á það reyndi lítið um miðbik desembermánaðar.

Hvað er góð andlitslyfting?

Það hlýtur að vera vanþakklátt starf að sjá um og skipuleggja andlitslyftingar bíla. Allir virðast hafa á þeim skoðanir og sjaldnast geta menn verið sammála um hvernig til tókst. Að mati undirritaðrar væri mjög til bóta að sjá samlita stuðara á þessum bíl en það er vissulega bara persónuleg skoðun.

Þetta er einna mest áberandi á ljósum litum en sést svo sem ekki mikið á þeim svarta.

Stuðarinn, grillið og LED-ljósin gefa bílnum reffilegt útlit og afturhlutinn hefur líka fengið sína lyftingu. Afturljósin eru gjörólík þeim sem fyrr voru og það er ekkert launungarmál að hann hefur tekið stakkaskiptum að innan og er virkilega vel búinn. LCD-mælaborðið er svalt, eins og krakkarnir segja, og kemur ákaflega vel út. Dauf rauð lýsing er innan í hurðum og gefur góðan tón án þess þó að trufla í myrkri. Þegar stigið er út úr bílnum lýsist Sorento-merki upp á gólfinu við dyrnar og það er eitthvað notalegt við það. Hvað það er veit ég ekki. Kannski einfeldni manns að kætast yfir því að fá staðfestingu á að bíllinn sé enn Sorento.

malin@mbl.is