Mæðgur Bergrún Arna Óladóttir jarðfræðingur kennir á námskeiði sem Katla jarðvangur heldur í febrúar.
Mæðgur Bergrún Arna Óladóttir jarðfræðingur kennir á námskeiði sem Katla jarðvangur heldur í febrúar. — Ljósmynd/Stefan Wastegard
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óhætt er að segja að Íslendingar hafi upp til hópa töluverðan áhuga á jarðfræði og jafnvel meiri áhuga en gengur og gerist. Það er kannski ekki furðulegt því landið okkar er mjög virkt og jarðskorpan á sífelldri hreyfingu.

Óhætt er að segja að Íslendingar hafi upp til hópa töluverðan áhuga á jarðfræði og jafnvel meiri áhuga en gengur og gerist. Það er kannski ekki furðulegt því landið okkar er mjög virkt og jarðskorpan á sífelldri hreyfingu. Fræðslunetið og Katla jarðvangur bjóða upp á áhugaverð námskeið í vetur, vor og sumar. Eitt þeirra er í öskulagagreiningu og þar kennir jarðfræðingurinn Bergrún Arna Óladóttir.

Malín Brand

malin@mbl.is

Nokkrar af helstu eldstöðvum Íslands eru innan marka Kötlu jarðvangs. Í gegnum tíðina hefur gjóskufall orðið á svæðinu og því finnst þar fjöldi gjóskulaga.

Jarðfræðingurinn Bergrún Arna Óladóttir þekkir vel til á svæðinu en hún er frá Kirkjubæjarklaustri og hefur í gegnum tíðina stundað rannsóknir á svæði Kötlu jarðvangs.

Það er því vel við hæfi að námskeiðið sem Bergrún kennir í öskulagagreiningu sé haldið á Kirkjubæjarklaustri. Raunar verður það einnig kennt gegnum fjarfundarbúnað og því ekki nauðsynlegt að vera á Klaustri.

Íslendingar jarðfróðir

Námskeiðið, sem verður eina kvöldstund í næsta mánuði, auk dagsferðar þegar nær dregur sumri, er vissulega nokkuð sérhæft en Íslendingar hafa margir hverjir mikinn áhuga á jarðvísindum og segist Bergrún oft hitta fólk sem er einstaklega vel að sér þó það hafi ekki hlotið menntun í faginu.

„Íslendingar eru í rauninni allir svolitlir jarðfræðingar og margir sem hafa ótrúlega mikinn áhuga á þessu,“ segir Bergrún sem fagnar þessum áhuga.

Gjóskulagagreining

Þegar rofabörð eru skoðuð og hreinsuð má glöggt sjá að aragrúi öskulaga er í jarðveginum og mismunandi eftir stöðum á landinu hve mikið er um þau.

Bergrún hefur sjálf rannsakað svæðið í kringum Kötlu. „Það sem ég geri er að mæla gjóskulög og svo reyni ég að finna uppruna þeirra, úr hvaða eldfjalli þau eru og svo reynir maður að finna aldurinn. Þegar það er komið getur maður farið að sjá hvað hvert eldfjall er að gera og hversu oft þessi eldfjöll gjósa,“ segir hún.

Einfaldasta gjóskulagagreiningin segir þó ekkert til um hversu stór gosin hafa verið né hversu útbreidd þau eru.

„Til þess að fá það þarf maður að fara yfir stærri landsvæði og tengja gjóskulög á milli jarðvegssniða.“

Margslungin gos

Þykkt gjóskulaganna í rofabörðunum gefur vissulega til kynna hversu stórt gosið hefur verið en það segir þó ekki alla söguna.

„Það getur verið að þú sért með þykkt gjóskulag í einu jarðvegssniði en þetta hefur kannski verið gos sem varði í einn eða tvo daga og vindáttin var þannig að allt öskulagið fór bara í þetta jarðvegssnið. En fari maður alveg hringinn í kring fer að sjást hvað vindurinn hefur gert við gjóskuna. Svo fer það líka eftir stærð gosanna hvort vindurinn hefur áhrif eða ekki. Vindurinn hefur alltaf áhrif en þau eru ekki eins sterk ef maður er með það stóran gosmökk að gjóska dreifist allt í kring,“ segir Bergrún.

Allt gefur því einhverja vísbendingu um gosið en lokasvar fæst ekki fyrr en stærri landsvæði og jarðvegssnið hafa verið skoðuð.

Nám fyrir byrjendur

Þó svo að jarðvísindin séu margslungin og ekki hlaupið að því að komast að kjarna málsins þegar eldgos eru annars vegar er námskeiðið í öskulagagreiningu ætlað öllum sem áhuga hafa og engin krafa gerð um grunnþekkingu á jarðfræði.

„Þar sem námskeiðið er innan Kötlu jarðvangs verða eldfjöllin á því svæði skoðuð sérstaklega. Hekla verður líka rædd þó svo að hún sé ekki inni á svæðinu en það er fullt af Heklulögum innan svæðisins samt sem áður. Það er svo mikið af gjóskuleiðarlögum sem koma frá Heklu þannig að það er í raun ekki hægt að hafa svona námskeið án þess að hafa Heklu með,“ segir Bergrún.

Þeir sem námskeiðið sækja munu læra að þekkja hvaða eldfjöll það eru sem mynda mesta gjósku. Grímsvötn, Veiðivötn, Hekla og Katla verða rædd auk öskulaga frá Torfajökli og Öskju.

Nemendum verður kennt að bera kennsl á mismunandi gjóskulög eins og súr gjóskulög úr Kötlugosum frá því fyrir landnám. Farið verður í gegnum grunnjarðfræðina, eldfjöllin, eldstöðvakerfi, gjóskulög frá hverju kerfi og hvað það er sem er einkennandi fyrir hvert kerfi.

Því ættu nemendur að vera nokkru nær um gossögu og goshegðun eftir námskeiðið og geta skoðað öskulög á mismunandi svæðum sér til gagns.

Ýmis námskeið

Ýmis námskeið eru haldin á vegum Kötlu jarðvangs en Fræðslunetið, símenntun á Suðurlandi, sér um kynningu og annað. Öskulagagreiningin er eitt margra námskeiða sem boðið er upp á þessa önnina. Staðarleiðsögn á jarðvangi, Klifur fyrir börn og unglinga og Menningarlæsi í ferðaþjónustu eru önnur námskeið. Upplýsingar er að finna á www.fraedslunet.is