Svampburstastöðin að Fiskislóð er eina mannaða stöð Löðurs og geta 120 bílar ekið þar í gegn á klukkustund.
Svampburstastöðin að Fiskislóð er eina mannaða stöð Löðurs og geta 120 bílar ekið þar í gegn á klukkustund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjaldan er meira að gera á bílaþvottastöðvum landsins en þegar tjaran og saltið leikur bílskrokkana grátt. Bílaþvottastöðvar Löðurs eru víða um bæinn og bjóða nú upp á nýjung í bílaþvotti.

Sjaldan er meira að gera á bílaþvottastöðvum landsins en þegar tjaran og saltið leikur bílskrokkana grátt. Bílaþvottastöðvar Löðurs eru víða um bæinn og bjóða nú upp á nýjung í bílaþvotti. Nýjungin er sú að úða undraefninu Rain-X yfir bílana að þvotti loknum til að þeir hrindi óhreinindunum frá sér.

Hvað er Rain-X?

Vörurnar frá Rain-X þekkja margir bílaunnendur en þær hafa þann eiginleika að hrinda frá sér vökva. Algengast er að nota efnið á rúður og var einkaleyfi fengið fyrir efninu árið 1972.

Árið 2005 var farið að nota Rain-X á þvottastöðvum í Bandaríkjunum og efninu sem fyrr segir úðað yfir allan bílinn. Efnið hefur á síðustu árum fengið þrenn verðlaun þar á meðal verðlaunin Most Innovative New Product á Car Care World Expo 2006.

Viðskiptavinir sáttir

Þó svo að efnið hafi verið notað á ótal bílaþvottastöðvum í Bandaríkjunum er það fyrst núna sem það er reynt hér á landi og að sögn rekstrarstjóra Löðurs, Páls Mars Magnússonar, hafa viðskiptavinir látið sér þessa nýjung vel líka.

„Ég gerði leigubílstjórum sérstakt tilboð því þetta eru menn sem þrífa bílana sína oft í viku og það er frekar dýrt fyrir þá að vera alltaf að fara í gegnum svona stöðvar. Þeir eru að tala um að þetta endist svo miklu lengur heldur en allt annað vatnsbón og eru mjög ánægðir með þetta,“ segir Páll Mar um þá reynslu sem komin er á Rain-X þvottinn.

Efninu hefur verið bætt inn í þvottinn á öllum snertilausu stöðvum Löðurs sem og á mönnuðu svampþvottastöðinni á Fiskislóð 29.

Verðið óbreytt

Neytandinn skyldi ætla að verðið á þvottinum hefði hækkað því Rain-X er dýrt efni.

„Þetta er dýrt en það er sennilega þess virði. Ég er nú ekki með nákvæmar tölur á því en hreinsiefnakostnaðurinn okkar hefur alveg farið upp um 60% út af þessu,“ segir Páll Mar.

Þrátt fyrir aukinn kostnað greiðir viðskiptavinurinn enn sama verð og áður því Löður bætti efninu einfaldlega inn í línuna hjá sér. Aðspurður hvers vegna verðið hækkaði ekki svarar hann: „Við vildum selja viðskiptavininum enn betri vöru,“ segir hann.

Páll Mar segir að til að byrja með hafi verið gerð dálítil tilraun með efnið. „Við settum Rain-X á hjá okkur á Fiskislóð og Vesturlandsvegi fyrir þremur mánuðum og auglýstum það. Á sama tíma settum við Rain-X á Skúlagötuna en auglýstum það ekki en fólk sér bílana koma út með efninu og salan jókst hjá okkur bara út frá þessu. Það er nefnilega svo rosalegur munur,“ segir hann.

Aðrar nýjungar

Dekkjasvertuvél er önnur nýjung sem er í notkun á Fiskislóð. Hún var reyndar til staðar en var í ólagi. „Þegar við settum Rain-X inn þá komum við þeirri vél í lag líka þannig að nú kemur bíllinn út bónaður með Rain-X og svert dekk. Það tekur viðskiptavininn ekki nema fimm mínútur að fara þarna í gegn,“ segir Páll um svampburstastöðina sem getur skilað býsna mörgum hreinum bílum á klukkustund.

„Stöðin annar yfir 120 bílum á klukkutíma og þegar það er röð hjá okkur er sá sem er aftastur kominn út eftir tíu mínútur,“ segir Páll Mar, rekstrarstjóri Löðurs.

malin@mbl.is