[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Á þriggja ára fresti fer samfélagið nánast á annan endann í nokkra daga.

Fréttaskýring

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Á þriggja ára fresti fer samfélagið nánast á annan endann í nokkra daga. Ástæðan er birting niðurstaðna Pisa-könnunarinnar, sem stundum hafa verið á þann veginn að íslensk ungmenni kunna og vita minna en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum. Þetta gerðist síðast fyrir um mánuði, og heilmikil umræða skapaðist víða í kjölfarið. Margir höfðu skoðun á málinu, umræða um starfshætti grunnskóla var mikil og ýmsir dregnir til ábyrgðar í þessum efnum. Lítið fer fyrir þessari umræðu núna, nokkrum vikum síðar. En hvað er þetta Pisa?

Pisa stendur fyrir Programme for International Student Assessment sem eru kannanir gerðar eru í 65 löndum víða um heim á þriggja ára fresti. Þær voru fyrst lagðar fyrir árið 2000 og þetta er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á gæðum og árangri grunnskóla sem gerð er hér á landi. Niðurstöðurnar gefa til kynna hvernig 15 ára nemendur á Íslandi standa í læsi, stærðfræði og náttúrufræði við lok grunnskóla í samanburði við nemendur í öðrum löndum og í sumum löndum er frammistaða í þrautalausnum og fjármálalæsi líka mæld.

Sumt slæmt, annað gott

Niðurstöður nýjustu könnunarinnar, sem lögð var fyrir árið 2012, birtust fyrir rúmum mánuði og voru í stuttu máli á þá leið að námsframmistaða íslenskra grunnskólanemenda hefði versnað frá síðustu könnun en líðan þeirra í skóla hefur aftur á móti batnað. Piltum hefur farið verulega aftur í bæði lesskilningi og stærðfræði, um 30% þeirra eru á neðstu þrepum lesskilnings og um 20% á neðstu þrepum stærðfræðilæsis. Um 14% stúlkna eru á neðstu þrepum lesskilnings. Náttúrufræðilæsi er slakast hér á landi af öllum norrænu þjóðunum og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega frá því sem áður var. Í stuttu máli: sumt er gott og annað slæmt. Könnunin hefur verið nokkuð gagnrýnd og hún sögð vera úr takti við þá þróun sem hefur verið í menntamálum hér á landi.

Reynt á flókið læsi

„Það reynir mikið á upplýsingalæsi í Pisa,“ segir Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ. „Þar reynir á flókið læsi, að lesa úr töflum og gröfum og að skilja texta. Ég hef setið í þúsundum kennslustunda, þar sem margt er afskaplega vel gert. En það er ekki mikið um að verið sé að skoða svona gögn með börnum, t.d. láta nemendur lesa góðar blaðagreinar eða rýna í töflur. Ég myndi halda að við gætum bætt okkur verulega hvað þetta varðar.“ Er þá verið að prófa nemendur í efni sem þeir hafa ekki lært? „Já, stundum er það þannig.“

Ingvar segir að taka þurfi niðurstöður um lítið náttúrufræðilæsi alvarlega. „Við eigum allt of fáa kennara í náttúrufræðum og tíminn sem slíkar greinar fá á unglingastigi er ekki mikill.“

„Það getur ekki verið ásættanlega fyrir okkur sem þjóð að um 30% drengja og 14% stúlkna geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla eins og niðurstöður síðustu Pisa-rannsóknar sýna,“ segir Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. „Við erum tiltölulega einsleit þjóð, við erum efnað samfélag og erum það fá að við getum horft á hvern og einn nemanda. Við lítum á okkur sjálf sem bókaþjóð, það er hluti af okkar sjálfsmynd. Við höfum allt til að bera til að geta verið meðal fremstu þjóða í heimi og það er augljóst að okkar bíður verkefni sem mun taka tíma að leysa úr.“

Illugi segir að þessar niðurstöður kalli m.a. á að skoða þurfi hvernig staðið sé að námsmati. „Hvernig stendur á því að nemendur komast í gegnum tíu ára grunnskólanám án þess að kunna nægilega vel að lesa? Af hverju blikka rauðu ljósin ekki miklu fyrr?“

Fleiri í neðstu þrepunum

Eitt af því sem kom fram í nýjustu Pisa-könnuninni er að lesskilningur 10. bekkinga hefur minnkað frá árinu 2000, þegar fyrsta könnunin var gerð. Niðurstöðum er skipt í sex hæfniþrep, þar sem 1 stendur fyrir litla hæfni og 6 fyrir afburðahæfni. Undir hæfniþrep 2 flokkast mjög slakir nemendur sem lítið geta lesið sér til gagns. Nemendur sem eru yfir hæfniþrepi 4 búa hins vegar yfir afburðalesskilningi. Mikil fjölgun hefur orðið hér á landi í neðsta hópnum, eins og sjá má á meðfylgjandi töflum. T.d. var sjöundi hver nemandi á Íslandi undir hæfniþrepi 2 árið 2000, en 2012 var þar fimmti hver.

„Spurningin hvers vegna nemendum sem ná efstu hæfniþrepum Pisa fer fækkandi hér á landi og hvers vegna þeir hafa jafnan verið hlutfallslega færri hér en víða annars staðar er ekki síður áleitin en spurningin um lakan heildarárangur íslenskra unglinga í almennu læsi, vísindalæsi og stærðfræðilæsi,“ segir Meyvant Þórólfsson, lektor við Menntavísindasvið HÍ. „Og reyndar er margt við umræðuna um meintan slakan árangur íslenskra unglinga í Pisa að athuga. Í fyrsta lagi eru öll viðmið afstæð og umhugsunarverð. Höfum til dæmis í huga hvaða lönd skipa sér á bekk með okkur í niðurstöðum Pisa 2012. Í stærðfræðilæsi má nefna þar til sögunnar Bretland, Frakkland og Danmörku. Marktækt lægri en Ísland eru lönd eins og Svíþjóð, Spánn og Bandaríkin. Í öðru lagi er það umhugsunarvert að Ísland er annað af tveimur meðal 65 þátttökulanda Pisa 2012, sem láta alla 15 ára nemendur landsins taka þátt. Hjá öðrum löndum er um að ræða úrtök.“

Geta hvorki sinnt þeim bestu né slökustu

„Við sjáum það á nýjustu Pisa-niðurstöðunum að nemendum í lægsta þrepi fjölgar og þeim fækkar í efsta þrepi. Hvað þýðir það? Jú, að ef kennarar hafa ekki tíma til að sinna þeim bestu þá fækkar þeim og ef þeir hafa ekki tíma til að sinna þeim slökustu, þá fjölgar þeim,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. „Við stöndum best í þáttum sem lúta að vellíðan og samskiptum barnanna. Þetta eru þættir sem falla ekki undir eiginlegt nám, það er einfaldlega stöðugt verið að bæta verkefnum á skólann og kennarar hafa alltaf minni og minni tíma til að sinna kennslu. Ef við ætlum að hafa þetta þannig að í hverjum bekk á Íslandi sé öll nemendaflóran, sem í sjálfu sér getur verið bæði hollt og gott, þá verða menn að gæta að því að hægt sé að sinna þeim öllum. Ég les það út úr Pisa-niðurstöðunum að þarna hefur okkur ekki tekist vel til,“ segir Ólafur.

Mikill munur á milli landshluta

„Auðvitað eigum við að taka mark á þessum niðurstöðum og skoða hvernig við getum notað þær til að bæta skólakerfið,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla. „Við eigum aftur á móti ekki að láta allt snúast um að mæta þessum stöðlum. Pisa er góður þjónn en harður húsbóndi. Á hinn bóginn má ekki gera lítið úr Pisa, þetta eru ekki bara einhver gamaldags stærðfræðidæmi, heldur er verið að spyrja um þætti sem fólk þarf að kunna í daglegu lífi. Margir eru uppteknir af alþjóðlegum samanburði, en það sem ég hef mestar áhyggjur er munurinn sem kemur fram á milli landshluta. Þurfum við ekki að skoða það betur, er þetta eitthvað sem við getum sætt okkur við? “

Hvað þarf að kunna og geta?

Í skýrslu Námsmatsstofnunar um PISA-könnunina 2012 segir að spurningin á bak við könnunina sé hvað sé mikilvægt fyrir fólk að vita og geta gert.

Í könnuninni er sjónum beint að nemendum sem eru á aldrinum 15 ára og þriggja mánaða til 16 ára og tveggja mánaða þegar prófið er tekið. Þar sem skipulag menntakerfa er mismunandi eftir löndum geta þeir verið í margskonar skólum. Prófað er í einu aðalefni, sem tekur um það bil 2/3 próftímans. Í könnuninni 2012 var aðalefnið stærðfræði, en í könnuninni 2009 var lögð áhersla á lesskilning.

Mjög strangar reglur gilda um próftöku í PISA-könnuninni og er reiknað með því að einungis þeir nemendur geti ekki tekið þátt í henni sem eiga við heilsufarsvanda að stríða. Innan við 5% nemenda á próftökualdrinum féllu undir þann hóp.

Hvernig er verið að kenna krökkunum í skólunum?

• Bein kennsla frá töflu er algengasta kennsluaðferðin „Kennsluaðferðir í íslenskum grunnskólum eru um margt fjölbreyttar og kennarar eru almennt tilbúnir að prófa nýjar aðferðir. Þrátt fyrir það er bein kennsla kennara frá töflu, sem fylgt er eftir með skriflegum verkefnum, langalgengasta kennsluaðferðin í bóknámsgreinum,“ segir Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ingvar hefur rannsakað íslenskt grunnskólastarf, einkum kennsluhætti og námsmat í á fimmta áratug og segir athyglivert hversu lítið hafi breyst í kennsluaðferðum.

Sterkar hefðir í skólastarfi

„Ég hef tekið þátt í tveimur umfangsmiklum rannsóknum á kennsluháttum íslenskra grunnskólakennara. Önnur var gerð 1987-´88. Þá fylgdist ég með kennslu á miðstigi og sat í á annað þúsund kennslustundum hjá rúmlega 100 kennurum. Nýverið tók ég svo þátt í verkefni sem heitir Starfshættir í grunnskólum sem nær til 20 grunnskóla þar sem við sátum í 500-600 kennslustundum í öllum námsgreinum og öllum aldurshópum. Þó að það hafi auðvitað orðið alls konar breytingar á þessum árum, komin ný skólastefna, þá er þessi sama aðferð ennþá algengasta kennsluaðferðin. Kennsluaðferðir hafa nefnilega ekki breyst jafn mikið og margir halda,“ segir Ingvar. „En í verklegum greinum og íþróttum eru auðvitað allt öðruvísi kennsluaðferðir. Við erum líklega með öflugri kennslu í þeim greinum en flestar aðrar þjóðir.“

Hvernig stendur á að svona lítið hefur í rauninni breyst hvað varðar kennsluaðferðir? „Það eru ótal skýringar á því hvers vegna þessar ríkjandi kennsluaðferðir eru jafn lífseigar og raun ber vitni og þyrfti langt mál til að gera grein fyrir þeim öllum,“ segir Ingvar. „Skólastarf byggist oft á sterkum hefðum. Hitt er jafnljóst að rannsóknir sýna einnig mikinn og að því er virðist vaxandi áhuga kennara á að auka fjölbreytni í námi, t.d. með samvinnunámi, sjálfstæðum verkefnum og notkun upplýsingatækni.“

Gæti þessi áhersla á eina kennsluaðferð verið ein af ástæðunum fyrir minnkandi læsisfærni, sem m.a. birtist í niðurstöðum nýjustu PISA-rannsóknarinnar? Að verið sé að nota rangar aðferðir við að kenna börnunum? „Það gæti verið,“ segir Ingvar. „En vandinn við PISA er að okkur skortir skýringar.“

Nemandinn kostar 1.333.000 krónur

Kostnaðurinn við íslenska grunnskólakerfið er 54% hærri en meðaltal OECD-landa og er hlutfallslegur kostnaður þess meðal þess hæsta sem gerist meðal þeirra ríkja. Heildarrekstrarkostnaður við skólana árið 2012 var rúmlega 61 milljarður, sem var um 3,6% vergrar landsframleiðslu það árið. Sé tekið tillit til hlutfalls barna af heildarmannfjölda og horft á kostnað á hvern grunnskólanemenda þá er Ísland í fjórða sæti.

Hver grunnskólanemandi kostaði 1.333 þúsund krónur árið 2012 og hefur kostnaður minnkað nokkuð undanfarin ár. „Ódýrustu“ nemendurnir eru á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan Reykjavík, kosta 1.193. þús. kr. hver. Þeir „dýrustu“ eru á Austurlandi, þar sem hver nemandi kostar 1.743 þúsund krónur og eru fámennir skólar og dreifð byggð líklega helsta skýring þess.

Engin sundurliðun

Þessi kostnaður er ekki einungis tilkominn vegna beinnar kennslu. Margt annað telst til, t.d. niðurgreiðsla skólamáltíða, húsnæðiskostnaður og kostnaður við ýmsa sérfræðiaðstoð. Þessu til viðbótar má nefna rekstur skólaskrifstofa. „Erfiðlega hefur aftur á móti gengið að fá sundurliðun á ýmsum kostnaði sem fellur ekki undir hefðbundna starfsemi grunnskóla s.s. frístundaheimili að afloknum skóladegi,“ að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem hefur ítrekað kallað eftir því að fá sundurliðun frá sveitarfélögunum á þeim kostnaði grunnskólanna sem ekki snýr beint að kennslunni. „Það hefur ekki gengið nógu vel að fá þær upplýsingar,“ segir Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi hjá sambandinu. „Einnig má benda á að í æ fleiri tilvikum er farið að samreka leikskóla og grunnskóla og þá getur verið erfitt að fá yfirlit um sundurgreiningu kostnaðar milli þessara liða. Við þurfum að fara að greina þennan kostnað, ekki skýra launin hann, en þessi mikli fjöldi starfsfólks sem kemur að starfsemi skóla skýrir væntanlega hluta þess kostnaðar engu að síður. Kannski er þetta vegna þess að við erum með skólana okkar svo dreifða og fámenna. Svo er það húsnæðið, við höfum sett miklu meiri fjármuni í húsnæði en mörg samanburðarlöndin í kjölfar einsetningar grunnskólanna,“ segir Svandís.

Ýmsar skýringar á kostnaðinum

´

„Það er í sjálfu sér ágætt að verja miklu fé til hvers og eins nemanda. En niðurstaðan, að við náum ekki betri árangri í alþjóðlegum samanburði, er óásættanleg,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. „Það eru ýmsar skýringar á þessum kostnaði. Færri nemendur á hvern kennara en víðast hvar, mikið af aðstoðarfólki sem starfar í skólunum, dýrt skólahúsnæði og landið er tiltölulega dreifbýlt sem gerir það að verkum að við erum með marga minni skóla.“ Að sögn Illuga hefur undanfarið verið unnið við að greina hvernig kostnaðurinn er tilkominn og er það hluti af vinnu við hvítbók ráðherra sem kynnt verður síðar í mánuðinum.„Við erum m.a. að skoða hvort við getum gert hlutina með hagkvæmari hætti, ekki endilega til þess að draga úr útgjöldum heldur til þess að nýta betur þá fjármuni sem við setjum í þennan málaflokk.“

Samtök foreldra og skóla

Heimili og skóli eru frjáls félagasamtök foreldra sem starfa óháð trúfélögum og stjórnmálaflokkum og er markmið samtakanna að stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna. Samtökin veita ráðgjöf til foreldra og samtaka þeirra og gefa út fræðsluefni um foreldrastarf.

Heimili og skóli hafa gert samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um að sinna tilteknum verkefnum. T.d. hafa samtökin kynnt nýja aðalnámskrá grunnskóla fyrir foreldrum um land allt á undanförnum mánuðum. Samtökin leiðbeina einnig um gerð Foreldrasamningsins í bekkjum, en það er samningur um tiltekin atriði sem foreldrar sammælast um. Þau eru mismunandi eftir aldri barna, en geta t.d. varðað útivistartíma og tölvunotkun.

Fágæti og furðuverk

Mikið hefur verið rætt og ritað um mun á lestrarfærni stúlkna og pilta, en niðurstöður ýmissa kannana og rannsókna hafa sýnt að færri drengir en stúlkur geta lesið sér til gagns. Með því er átt við að geta aflað sér upplýsinga með lestri og þannig verið virkur þátttakandi í samfélaginu. Ýmislegt hefur verið gert til að sporna við þessari þróun, þar á meðal er þróunarverkefni á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskóla nn á Akureyri sem heitir Fágæti og furðuverk. Það á m.a. að efla lestraráhuga 9-11 ára barna og virkja foreldra þeirra, einkum feður, til að lesa með börnum sínum og skapa þannig jákvæða lestrarfyrirmynd.

Fjölmargir skólar hafa tekið þátt í verkefninu með góðum árangri, samkvæmt vefsíðu verkefnisins.

Endurskoða þurfi aðferðir

Við útskrift frá Háskóla Íslands síðastliðið sumar sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor skólans, m.a. mikilvægt að öll skólastig hér á landi væru samkeppnisfær við þau bestu í heiminum. Kveikja þyrfti áhuga á raungreinum og tæknitengdum greinum fyrr hjá nemendum og hún ræddi nauðsyn þess að búa skólakerfið undir nýja kynslóð.

Kristín talaði um örar breytingar á tækniþróun á heimsvísu og að tryggja þyrfti að kennarar hefðu getu til að vinna með nýja upplýsingatækni. Í því sambandi þyrfti að endurskoða kennsluaðferðir á öllum skólastigum. Ef skólakerfið undirbyggi sig ekki kæmu börn inn í skólakerfið með meiri getu og meiri tækniþekkingu á sumum sviðum en margir kennararnir sem ættu að kenna þeim.

Er spjaldtölvan lausnin?

Nokkrir grunnskólar hafa tekið spjaldtölvur í notkun, en ekki hefur verið tekið saman hversu margir þeir eru eða hve margir nemendur nota þær í daglegu námi sínu.

Í skýrslu um notkun spjaldtölva í skólastarfi, sem Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla, vann nýlega fyrir Reykjavíkurborg, segir m.a. að spjaldtölvur henti einkar vel í skólastarfi því þær séu einfaldar og aðgengilegar. Þær þjálfi hæfni nemenda á mikilvægum sviðum eins og flóknum samskiptum, nýmiðlalæsi og sköpun. Skýra sýn þurfi á það hvers vegna og hvernig eigi að nota tækin og ákvörðunin eigi fyrst og síðast að fjalla um kennslufræði en ekki tækni. Einu hindranirnar liggi í raun hjá skólafólkinu, segir í skýrslu Ómars.

Flippuð og spegluð

Spegluð kennsla, einnig kölluð flippuð kennsla eða vendikennsla, hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu og hefur verið tekin upp á bæði grunn- og framhaldsskólastigi. Spegluð kennsla er þýðing á hugtakinu Flipped Classroom, aðferðin á rætur að rekja til Bandaríkjanna og er í stuttu máli á þann veg að hefðbundinni kennslu og hlutverki kennarans er snúið við og fyrirlestrar eða kynningar kennara vistaðar sem myndskeið á netinu. Nemendur horfa á þessar kynningar á þeim tíma sem þeim hentar best og viða að sér meira efni.

Fyrir vikið verða kennslustundir talsvert frábrugðnar því sem hefðin býður. Markmiðið er að námið verði meira á ábyrgð nemenda og þess er krafist að þeir mæti vel undirbúnir.