Jón Dahlmann fæddist á Ísafirði 30. desember 1938. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 30. desember 2013.

Foreldrar Jóns voru hjónin Sigurður Dahlmann, símstöðvarstjóri á Ísafirði, f. á Seyðisfirði 31. mars 1899, d. 19. nóvember 1955, og Guðlaug Dahlmann, símamær og húsmóðir, f. á Tannstaðabakka í Hrútafirði 7. ágúst 1907, d. 24. júní 1993. Jón var næstyngstur fjögurra barna þeirra hjóna sem eru: 1) Ebba Dahlmann, f. 18. september 1932, maki Gunnar Kristjánsson, f. 21. september 1930, d. 4. ágúst 2006. 2) Jóhanna Dahlmann, f. 18. október 1933, maki Guðmundur Agnar Ásgeirsson, f. 29. ágúst 1927, d. 16. nóvember 2006. 4) Svanborg Dahlmann, f. 19. nóvember 1943, d. 18. maí 2001, maki Örn Arnþórsson, f. 5. febrúar 1945.

Hinn 10. mars 1983 kvæntist Jón eftirlifandi eiginkonu sinni, Dagnýju Kristjánsdóttur, f. 28. janúar 1942. Foreldrar hennar voru Kristján Bjarnason, f. 11. desember 1898, d. 26. desember 1977, og Solveig Bjarnason, f. 13. mars 1902, d. 4. maí 1987. Sonur þeirra er Davíð Kristján Anderson, f. 25. ágúst 1971. Börn Davíðs eru: Birgir Arnar, f. 8. febrúar 1992, Margrjet, f. 30. júlí 1996, og Embla Nótt, f. 25. júlí 1997.

Jón ólst upp á Ísafirði og flutti 17 ára gamall með móður sinni og tveimur systrun til Reykjavíkur eftir fráfall föður síns. Hann var við nám á Ísafirði og á Héraðsskólanum á Núpi, og var síðan í stuttan tíma við nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann starfaði í nokkur ár hjá Landsímanum og síðan hjá Dagblaðinu Vísi. Jón nam bifreiðavirkjun á árunum 1964-1969 hjá gömlum skólafélögum og vinum frá Ísafirði, þeim Jens P. Clausen og Kristjáni F. Tryggvasyni. Starfaði sem bifreiðavirki hjá Saab-umboðinu, Sveini Björnssyni hf. árin 1969-1975. Árið 1975 hóf Jón störf sem sölumaður hjá Velti hf. og starfaði þar fram til 1988 að það fyrirtæki hætti starfsemi. Frá árinu 1988 og fram til starfsloka 2005 var hann sölumaður hjá Brimborg hf.

Útför Jóns fer fram frá Neskirkju í dag, 14. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Vinur minn og mágur Jón Dahlmann er látinn. Hann lést 30. desember sl. á 75 ára afmælisdegi sínum eftir langvarandi veikindi.

Leiðir okkar Jóns, eða Onna eins og allir hans nánustu kölluð hann, hafa legið saman frá árinu 1968 er ég fór að vera með Svanborgu systur hans. Á þeim tima var Onni að koma sér upp íbúð að Eyjabakka í Breiðholti. Íbúðin var fullbúin um það leyti sem við Svanborg giftum okkur og vildi Onni að við tækjum íbúðina og hann yrði aðeins lengur heima hjá mömmu. Þetta fyrirkomulag var í rúm fjögur ár á meðan við vorum að byggja yfir okkur.

Onni var hraðmæltur svo vægt sé til orða tekið, og hafa margir átt í miklum erfiðleikum með að skilja hann. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar ég hitti hann í fyrsta sinn. Það var í kvöldverðarboði hjá Guðlaugu móður hans með honum og Svanborgu. Öll voru þau mjög hraðmælt og Onni hvað verstur. Umræður við borðið á milli þeirra þriggja fóru algjörlega fram hjá mér og það þurfti að tala beint til mín svo ég gæti fylgst með og skilið.

Bílar voru aðaláhugamál Onna. Hann lærði bifreiðavirkjun og vann sem bifreiðavirki fram til ársins 1975. Hann vann við viðgerðir á Saab og var sanntrúaður aðdáandi þeirra bíla. Enda fengum við ættingjar og vinir þessu að kynnast og önnur bílakaup en Saab voru ekki inni í myndinni á þessum árum. En það átti eftir að breytast. Þegar Onni gerðist sölumaður hjá Velti hf. á árinu 1995 og fór að selja Volvo datt Saabinn úr hásætinu og Volvoinn tók við. Ég hef ekki tölu á öllum þeim Volvo-um sem Onni fékk mig til að kaupa. Eftir að hann fór til Brimborgar var líka að hans mati orðið mjög gott að kaupa bæði Daihatsu og Ford og nokkrir slíkir bílar bættust við á kauplistann hjá mér. Í sölumennskunni var Onni í essinu sínu enda einstaklega samviskusamur og góður sölumaður.

Á árinu 1982 fórum við Svanborg ásamt dætrum okkar og Onna og Guðlaugu í heilmikið ferðalag um Noreg. Í þeirri ferð kom snemma í ljós að hugur Onna var heima á Íslandi. Dagný Kristjánsdóttir æskuvinkona Svanborgar og Onna og systir Gunnars Kristjánssonar mágs þeirra, var búin að hertaka hug hans. Dagný og Onni giftur sig árið eftir og komu sér upp myndarlegu heimili uppi í Torfufelli. Þetta var svona eins og endirinn á ævintýrinu þegar prinsessan og prinsinn náðu saman í lokin, en Svanborg hélt því alltaf fram að Onni væri búinn að vera skotinn í Dagnýju frá unglingsárum.

Í marga áratugi var Onni búinn að spila brids reglubundið einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina við þá frændur sína, Atla og Einar, og vinina Arilíus og Halldór. Fyrir kom að ég bættist í hópinn ef forföll urðu. Þessi hópur hélt sínu striki allt fram í miðjan desember sl. og mætti vikulega í spilamennskuna, og það fór síðan eftir ástandi Onna hversu lengi var spilað hverju sinni. Þessi spilakvöld gáfu honum mikið og hann lagði mikið á sig til að geta hitt þessa vini sína.

Veikindi Onna lögðu mikið á Dagnýju og Davíð son þeirra. Lengst af kom hann heim eins oft og heilsan leyfði, og fékk þar mikla og góða umönnun, en að því kom að það varð þeim um megn. Umhyggja Dagnýjar fyrir manni sínum hefur verið aðdánunarverð á þessum erfiða tíma.

Kæri Onni, hér að leiðarlokum vil ég þakka þér fyrir samveruna og allt það sem þú hefur gert fyrir mig og mína.

Örn Arnþórsson.

Jón Dahlmann, kær frændi og vinur okkar, hefur nú kvatt þetta jarðlíf. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Mörk að kvöldi 75. afmælisdags síns.

Við viljum hér með nokkrum orðum minnast Onna frænda, sem alltaf var kallaður svo í okkar fjölskyldu. Sakir frændsemi okkar hef ég þekkt hann alla tíð og fyrir sömu sakir sagði hann gjarnan „frændur eru frændum verstir“. Þegar við Halla, kornung, hófum okkar búskap varð hann þar strax heimilisvinur. Þegar ég segi heimilisvinur þá er það í bestu merkingu þess orðs. Hann var alla tíð aufúsugestur og félagi minnar fjölskyldu og heimsóknir okkar á milli margar og góðar. Það eru ómetanleg hlunnindi fyrir ungt, auralítið fólk á lélegum bíl að þekkja bílaviðgerðamann. Þetta bitnaði hart á Onna sem tók því með bros á vör að aðstoða frænda sinn.

Lengi vel var Onni ógiftur, jafnvel talinn piparsveinn, en svo gerðist eitthvað. Skemmtileg minning lifir með okkur hjónum þegar Onni einn sumardag kom til okkar, var venju fremur kátur og brosandi, þótt alltaf væri nú stutt í brosið hjá honum blessuðum. Í þetta sinnið sagði hann okkur frá því að hann ætti sér vinkonu, hana Dagnýju sína sem seinna varð hans eiginkona. Ekki nóg með það að þarna eignaðist hann eiginkonu, heldur líka soninn Davíð sem seinna gerði Onna að þreföldum afa.

Margt höfum við brallað saman í gegnum tíðina. Stundum var skroppið í sumarbústað, jafnt að vetri sem sumri. Veiðiferðir t.d. upp að Reyðarvatni hvort sem var að vetri og þá veitt niður um ís eða að sumri, Arnarvatnsheiðin eða einhverjar ár sem áttu að gefa lax. Veiðin var ekki alltaf mikil en gleðin þess meiri. Spilakvöldin, óteljandi þar sem staðnar voru stórar slemmur, sagðar sögur og mikið hlegið. Eins voru mál rædd og krufin, það var ekki endilega eining um málefnin en alltaf virðing fyrir skoðunum hvert annars. Stundum heyrðist hátt í okkur og talað hratt og mikið en ætíð skilið í bróðerni. Okkur hjónunum er í fersku minni þegar drengir okkar spurðu eitt sinn: „Af hverju eruð þið alltaf að rífast þegar þið hittist?“ Málið var útskýrt: „Við erum ekki að rífast heldur ræða málin.“ En það sem upp úr öllu þessu stendur er að það var alltaf svo gaman hjá okkur. Onna fylgdi alltaf gleði og kátína, hlátur og grín.

Onni var fróður, vel lesinn og þótti gaman að segja frá og stundum hló hann manna hæst að sinni frásögn. Onni var frændrækinn, hjálpsamur, trúr og tryggur, bílakarl. Hann var stöðugur í trúnni, fyrst trúði hann á Saab í mörg, mörg ár, síðan á Volvo en á seinni árum vék hann aðeins frá sænska gæðastálinu.

Haustið 2005 fékk Onni heilablóðfall og eftir það fór hann ekki til starfa þótt hugur hans hafi staðið til slíks. Síðustu rúm þrjú árin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Mörk. Þangað höfum við komið spilafélagarnir, ég undirritaður, Alli, Einar, Dóri og oft hefur Örn hlaupið í skarðið fyrir einhvern okkar. Þá hafa gamlir taktar verið rifjaðir upp. Síðasta spilakvöldið var nú í byrjun desember. Þá var verulega af frænda mínum dregið.

Í dag kveðjum við góðan frænda og vin. Hafðu hjartans þakkir fyrir samferð alla. Við fjölskyldan vottum eftirlifandi eiginkonu og vinkonu okkar, Dagnýju, Davíð og afabörnum okkar dýpstu samúð og biðjum þeim Guðs blessunar.

Atli og Halla.

Jón Dahlmann móðurbróðir okkar er látinn. Hann hafði átt við langvarandi veikindi að stríða í kjölfar heilablóðfalls og fannst okkur systrum Onni velja góðan dag til að kveðja, í árslok, á 75 ára afmælisdeginum eftir að hafa verið umvafinn ástvinum.

Onni frændi var stór hluti af lífi okkar systra þegar við vorum að alast upp. Hann og móðir okkar Svanborg, eða Bogga eins og hún var ávallt kölluð, voru yngst fjögurra systkina og þau einu sem bjuggu í Reykjavík en þar bjó einnig Guðlaug amma á Birkimel. Eldri systur þeirra, Ebba og Jóhanna, bjuggu á Ísafirði og Neskaupstað með sínum fjölskyldum. Samband mömmu og Onna var alla tíð mikið og gott, enda áttu þau ásamt ömmu svo margt sameiginlegt. Þau töluðu hratt og óskýrt, kímni skein úr augum þeirra og hlátur þeirra svo innilegur að tár streymdu úr augum.

Mikill vinskapur ríkti einnig á milli Onna og pabba, og þegar við horfum til æskuáranna þá vorum við alltaf sex saman; fjölskyldan, amma og Onni. Þau voru með okkur öll jól og áramót, í sumarfríum og veiðiferðum og þau borðuðu með okkur lærið eða hrygginn á sunnudögum. Skýrasta minningin um bernskujól er af okkur systrum sitjandi í stofunni og bíðandi óþreyjufullar eftir pökkunum. Onni tók okkur systur þá stundum í fangið og las fyrir okkur til að stytta okkur stundir meðan mamma og amma tóku alltof langan tíma í uppvask og frágang eftir jólamáltíðina. Skýrasta minningin um áramót er án efa stóri fjölskylduflugeldapakkinn sem Onni kom alltaf með færandi hendi á gamlársdag. Pakkinn var af stærstu gerð og hafði að geyma ýmiss konar blys, rakettur, sólir, kínverja og jafnvel hurðasprengjur sem biðu kvöldsins. Einnig er okkur minnisstætt hversu opið heimili Onna var okkur systrum. Á tímabili bjó hann í Hólunum, aðeins spölkorn frá heimili okkar. Íbúar blokkarinnar voru mjög nútímavæddir og fengu sér snemma, um 1980, sameiginlegt myndbandstæki. Frá þeim degi voru ófáar heimsóknir til Onna á laugardagsmorgnum til að fá að njóta barnamynda sem sýndar voru á þeim tíma og alltaf var okkur tekið opnum örmum.

Í kringum 1982 byrjuðu Onni og Dagný Kristjánsdóttir að rugla saman reytum, en þau áttu 30 ára brúðkaupsafmæli á síðasta ári. Dagnýju höfum við þekkt allt okkar líf, en hún er bernskuvinkona mömmu frá Ísafirði og Gunnar bróðir hennar var giftur Ebbu móðursystur okkar. Onni gekk Davíð, syni Dagnýjar, í föðurstað og reyndist honum ávallt vel. Þá veitti afahlutverkið Onna einnig mikið og börn Davíðs áttu alltaf öruggt skjól í Torfufellinu hjá ömmu og afa. Í langvarandi veikindum Onna hefur Dagný staðið sem klettur við hlið hans og sýnt honum mikla ástúð og umhyggju. Davíð launaði einnig Onna kærleikann með því að standa við hlið hans og móður sinnar á þessari þrautagöngu. Við systur teljum það mestu lífsgæfu Onna frænda að eignast Dagnýju sem lífsförunaut. Þau voru samrýnd hjón, samband þeirra var alla tíð traust og vinátta mikil.

Við vottum Dagnýju og fjölskyldunni okkar innilegustu samúð. Blessuð sé minning okkar kæra frænda.

Auður Arna og Dagmar.