Skoda Octavia VRS er ekki bara sportlegur að sjá heldur einstaklega skemmtilegur að keyra.
Skoda Octavia VRS er ekki bara sportlegur að sjá heldur einstaklega skemmtilegur að keyra. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skoda Octavia VRS valdi sér óvenjulegan stað til að sýna sig fyrst, en það var í Bretlandi á sýningu sem kallast Goodwall Festival of Speed. Áður hafði ný Octavia komið, séð og sigrað, og meðal annars hlotið sæmdarheitið Bíll ársins á Íslandi 2014.

Skoda Octavia VRS valdi sér óvenjulegan stað til að sýna sig fyrst, en það var í Bretlandi á sýningu sem kallast Goodwall Festival of Speed. Áður hafði ný Octavia komið, séð og sigrað, og meðal annars hlotið sæmdarheitið Bíll ársins á Íslandi 2014. VRS er sami bíllinn í grunninn og nýtir sér langflesta kosti hans en í kraftmiklum pakka sem er á færi flestra að kaupa. Blaðamaður Morgunblaðsins óskaði sér þó að veðrið væri aðeins betra um helgina meðan á reynsluakstrinum stóð en varð að gera sér vetrarfærðina að góðu meðan hann prófaði bensínútgáfu bílsins. Kannski verður veðrið orðið aðeins skaplegra þegar okkur gefst tækifæri á að prófa dísilútgáfuna, sem einnig er fáanleg í VRS-útgáfu.

Lægri en systurbíllinn

Útlitslega er bíllinn mjög svipaður systurbíl sínum en með örlítið sportlegra yfirbragði. Til að byrja með er VRS 12 mm lægri en venjuleg Octavia enda fjöðrunin talsvert öðruvísi en í honum. Að aftan er fjölliða fjöðrun og MacPherson að framan en framdrifið er með rafstýrðri mismunadrifslæsingu. Felgurnar eru 18 tommu og stærri bremsur eru vel sýnilegar enda dælurnar sprautaðar í eldrauðu. Bíllinn er líka svipmeiri að framan og er með stærri loftinntökum fyrir vatnskassa í yfirstærð. Stór vindskeið og endurhannaðir stuðaðar setja svo punktinn yfir i-ið. Innandyra er allt eins og í Octavia nema meira er af búnaði og innréttingin er mun sportlegri. Í prófunarbílnum var leðurinnrétting með rauðum ísaumi og höfuðpúðum. Framsætin eru með góðum hliðarstuðningi og virka ekki þröng eins og slík sæti gera oftast. Einn af helstu kostum Octavia er fótapláss í aftursætum og gott farangursrými og þar hefur engu verið breytt.

Skemmtilegir aksturseiginleikar

Þegar kemur að akstri bílsins er hann einfaldlega einstaklega skemmtilegur að keyra. Með 220 hestafla túrbínuvæddri vélinni er orkan eins og á krana sem búið er að skrúfa frá til fulls og hann er laus við hik sem oft vill koma til að byrja með í vélum með túrbínu. Nýja vélin er 17% hagkvæmari í rekstri en sú sem hún leysir af hólmi og minnkar eyðslu um 1,3 lítra á hundraðið. Eins er mengun hennar töluvert minni eða sem munar 33 g/km sem er bæting um 19% frá eldri vélinni. Bíllinn svarar mjög vel í stýri enda er það vel dobblað, aðeins þarf að snúa hjólinu tvo hringi til að fara borð í borð. Eins og búast má við í öflugum framhjóladrifsbíl með næmt stýri er togstýring fyrir hendi en þó ekki þannig að hún trufli aksturinn eitthvað ef ökumaður veit hvað hann er að gera. Togstýringin finnst aðeins þegar bílnum er gefið vel inn á jöfnum hraða en þá leitar hann aðeins til hægri. Undirritaður fékk bílinn með DSG-sjálfskiptingunni sem er sérlega þýð og skemmtileg og þótt verið sé að taka á bílnum finnst varla þegar hann skiptir sér. Kannski er eini galli hans í akstri hversu hastur hann er en það er vegna stífari dempara og stærri dekkja á 18 tommu álfelgum. Finnast allar ójöfnur vel í gegnum undirvagninn og akstur á ósléttum íslenskum götum og vegum getur þannig verið þreytandi. Eins mætti hljóðeinangrun vera betri, til dæmis er lítil hljóðeinangrun frá vélinni sýnileg og kannski einfaldlega svo að ökumaður geti betur notið vélarhljóðsins. Veghljóð er hins vegar nokkurt enda undirvagninn stífur en einnig má kenna um lélegum heilsársdekkjum sem bíllinn kom á frá umboðinu, en dekkin voru grjóthörð og leiðinleg.

Fáir keppinautar

En hverjir eru keppinautar Octavia VRS á Íslandi ef nokkrir? Honda Accord Type-S hefur ekki verið í boði hérlendis lengi. Ford Mondeo er dæmigerður keppinautur við Octavia en er ekki í boði sem ST-bíll líkt og Ford Focus, sem verður þá frekar til samanburðar þótt hann sé númeri minni. Sá bíll er þó ekki kominn á markað hérlendis enda umboðin verið treg til að flytja inn bíla í þessum sportlegri útgáfum undanfarin ár. Kannski er sá bíll sem kemst næst Octavia VRS á Íslandi Mazda 6 Station með 2,5 lítra vélinni, en hann kostar 5.790.000 kr. í dýrari Optimum-útfærslu. Grunnverð á Skoda Octavia VRS er hins vegar örlitlu lægra eða 5.690.000 kr. Prófunarbíllinn var með aukabúnað; sjálfskiptingu, sóllúgu, leðurinnréttingu og öflugri hljómtæki, og bætir þannig við sig 790.000 kr. og fer í 6.480.000 kr. sem verður að teljast gott verð fyrir vel búinn og öflugan bíl í þessum stærðarflokki.