Ætli þeir sem með dómsvaldið fara í landinu hafi ekki áhyggjur af þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir? Ekki síst í sakamálum þar sem krafist er refsingar yfir sakborningi.

Ætli þeir sem með dómsvaldið fara í landinu hafi ekki áhyggjur af þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir? Ekki síst í sakamálum þar sem krafist er refsingar yfir sakborningi. Dómarar vita að ekki má dæma mann til refsingar nema uppfyllt séu skilyrði í lögum og stjórnarskrá. Þessi eru helst:

1. Ekki má dæma mann til refsingar nema fyrir háttsemi sem er refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma sem verknaður er framinn. Kröfurnar í þessu efni eru strangar. Það verður án vafa að vera hægt að heimfæra háttsemina undir verknaðarlýsingu viðkomandi lagaákvæðis.

2. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Þetta er enginn samkvæmisleikur. Ef til dæmis tveir menn bera mismunandi um sama hlutinn á dómarinn ekki val um að trúa öðrum en ekki hinum á þeirri forsendu að sér finnist sá fyrrnefndi trúverðugri en hinn.

Dómari má ekki láta vindana sem á hverjum tíma blása í samfélagi okkar hafa nokkur áhrif á sig þegar hann leysir úr máli sem fyrir honum liggur.

Það er refsivert samkvæmt 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga að svipta annan mann frelsi sínu auk þess sem það er sérstaklega gert refsivert í 130. gr. laganna ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls.

Það er því eins gott fyrir mennina með dómsvaldið að vanda sig.

Höfundur er fyrrverandi málflutningsmaður og dómari.