(Edda) Sigríður Erla Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 21. febrúar 1933. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 7. janúar 2014.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson, skipstjóri, f. 16. september 1917, d. 4. nóvember 1968 og Una Bára Ólafsdóttir, húsmóðir, f. 15. september 1911, d. 26. apríl 2007. Systkini Eddu eru Magnús Guðmundsson, f. 12. desember 1934 og Lára G. Nielsen, f. 7. febrúar 1937.

Edda giftist Ásgeiri Bjarna Ásgeirssyni, f. 31. október 1932, d. 11. maí 1992, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Katrín, f. 21. maí 1954, í sambúð með Guðmundi Ólasyni, f. 24. mars 1958. Börn þeirra eru Haukur, f. 31. júlí 1988, Guðmundur Óli, f. 16. apríl 1990 og Guðný Edda, f. 17. desember 1998. Katrín var áður gift Baldri Pálssyni frá Aðalbóli, þau skildu. Sonur þeirra er Ásgeir Páll, f. 6. apríl 1983, sonur hans og fyrrverandi sambýliskonu, Öldu Óskar Harðardóttur, f. 9. mars 1982, er Brynjar Pálmi, f. 27. febrúar 2008. 2) Lára, f. 8. júní 1956, gift Brandi Einarssyni, f. 24. febrúar 1955. Börn þeirra eru Bára, f. 26. október 1978, í sambúð með Kjartani Ara Jónssyni, f. 26. mars 1979, dóttir þeirra er Ísabella, f. 6. janúar 2011, Vigdís, f. 19. júní 1981, í sambúð með Ingibirni Valssyni, f. 22. maí 1979, Erla, f. 15. mars 1985 og Einar, f. 24. júní 1993. 3) Hólmfríður, f. 16. apríl 1964. Börn hennar eru Bjarni, f. 24. ágúst 1984, Edda Björk, f. 27. apríl 1998, Lára Rósa, f. 11. júní 2002 og Jóhanna Katrín, f. 11. júní 2002.

Edda vann á skrifstofu Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Útför Eddu fer fram frá Ríkissal Votta Jehóva að Hraunbæ 113 í dag, 14. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku amma okkar.

Við systkinin sitjum hér saman og fram streyma fjölmargar minningar um yndislegar stundir sem við áttum saman.

Þú varst svo falleg að innan sem og að utan, svo hjartahlý og yndisleg. Máttir ekkert aumt sjá og réttir hverjum þeim sem á þurfti að halda hjálparhönd. Eitt af því sem einkenndi þig var hversu opin þú varst og áttir auðvelt með að kynnast fólki, enda einstaklega vinmörg. Þú varst alltaf svo hress og orkumikil, þeyttist út um allan bæ í strætó til að sinna því sem sinna þurfti eða til að hitta vini og vandamenn. Einnig varstu dugleg að skella þér í rútuferðir út á land í hinar ýmsu skoðunarferðir sem oft voru ævintýri líkastar.

Þú hafðir alltaf frá svo mörgu skemmtilegu að segja og það var ávallt gaman að koma í heimsókn og spjalla yfir þínum víðfrægu pönnukökum, sem að okkar mati voru þær bestu í heimi. Ósjaldan var einnig gripið í spil og varð þá ólsen-ólsen iðulega fyrir valinu.

Okkur er ofarlega í huga Spánarferðin góða sem við fjölskyldan fórum saman í sumarið 2011. Það var frábær ferð í alla staði, mikið hlegið og við fjölskyldan nutum þess að vera saman í sólinni. Það var draumur þinn að fjölskyldan færi saman í ferð til útlanda og það var gaman að sá draumur skyldi verða að veruleika.

Þú áttir það til að senda okkur einstaklega skemmtileg bréf og póstkort, bæði frá útlöndum en einnig við ýmis önnur tækifæri, til dæmis eftir að hafa kíkt í heimsókn. Þá sendir þú bréf stuttu seinna þar sem þú þakkaðir fyrir heimboðið, og þannig varst þú einmitt, ávallt svo þakklát og lést það óspart í ljós með fallegum orðum. Elsku amma, við söknum þín meira en orð fá lýst en við erum þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Minningarnar munu ylja okkur um hjartarætur um ókomna framtíð.

Þín barnabörn,

Bára, Vigdís, Erla og Einar.