Það var gaman að vera Íslendingur í því mikla mannvirki Gigantium í Álaborg á sunnudag og sjá íslenska landsliðið vinna það norska í fjórða sinn í röð á stórmóti.
Það var gaman að vera Íslendingur í því mikla mannvirki Gigantium í Álaborg á sunnudag og sjá íslenska landsliðið vinna það norska í fjórða sinn í röð á stórmóti. Eftirvæntingin fyrir leikinn var mikil og margir voru brattir, jafnt Íslendingar sem Norðmenn.

Fljótlega rann þó mesta gleðin og bjartsýnin af þeim norsku. Þeir lögðu frá sér kúabjöllurnar og sátu eins og hnípnir skólakrakkar yfir þeirri kennslustund sem íslensku landsliðsmennirnir tóku þá norsku í úti á leikvellinum.

Undir leikslok máttu þeir sætta sig við sjá og heyra fáein hundruð bláklæddra Íslendinga rísa á fætur og syngja sigursöngva.

Engin innistæða var fyrir norsku bjartsýninni. Ummæli fyrrverandi landsliðsmanns Noregs og sérfræðings TV2, Frodes Scheies, komu eins og búmerang til baka og sögðu e.t.v. meira um norska landsliðið en það íslenska.

Norskir kollegar mínir voru margir hverjir í hópi þeirra bjartsýnu fyrir leikinn. Einn þeirra rabbaði ég við á föstudaginn. Eftir að hann hafði þulið upp fyrir mér, alveg óumbeðið, hverjir væru meiddir og hættir í íslenska liðinu glotti hann við tönn og sagði: „Nú vinnum við.“ Ég svaraði: „Já, kannski.“

Ég hitti þennan sómadreng við kaffikönnuna í vinnuaðstöðu okkar í íþróttahöllinni klukkustund eftir leikinn. Mér datt ekkert gáfulegra í hug en að segja „jæja“ upp á íslensku. Hann leit á mig, brosti og sagði: „Ég veit,“ sneri sér undan og gekk í burtu með kaffimálið sitt. Af kurteisi læt ég þess ógetið á hvern hann minnti mig.