Guðmundur Magnússon fæddist 19. september 1934 í Vestmannaeyjum. Hann lést á Landspítalanum 4. janúar 2014.

Foreldrar hans voru Gíslína Jónsdóttir, f. í Bakkakoti undir Eyjafjöllum 16. nóvember 1888, d. 22. mars 1984, og Magnús Þórðarson, f. á Ormskoti í Fljótshlíð 24. desember 1876, d. 1. apríl 1955. Börn þeirra voru: Halldóra G., f. 1917, d. 2004, Sigríður G., f. 1921, d. 2013, Ívar, f. 1923, d. 2005, Gísli G., f. 1924, d. 2000, Óskar, f. 1927, d. 1950, Guðrún, f. 1928, d. 2012, Magnús, f. 1930, d. 2009, Klara, f. 1931, d. 1987, Þórður, f. 1933. Samfeðra voru: Þórarinn Sigurður Thorlacius, f. 1906, d. 1940, Magnús Sigurður Hlíðdal, f. 1910, d. 1995, Anna Sigrid, f. 1913, d. 1991, Hafsteinn, f. 1913, d. 2002, Axel H., f. 1914, d. 2000, Ólafur Þorbjörn Maríus, f. 1916, d. 1943. Fjölskyldan bjó meðal annars í Hvammi, Miðhúsum og síðast á Skansinum í Vestmannaeyjum.

Guðmundur gekk að eiga Hjördísi Þórhallsdóttur, f. 15. nóvember 1933. Foreldrar hennar voru Þórhallur Jónsson, f. 19. desember 1888, d. 18. maí 1967, og Aðalheiður Í. Albertsdóttir, f. 7. desember 1900, d. 3. desember 1983. Börn þeirra eru: 1) Aðalheiður, f. 27. október 1954, maki Sigurjón Guðmundsson. 2) Guðrún Lilja, f. 13. ágúst 1962. Börn hennar eru Halldór Már Aðalsteinsson, Hjördís Líney Aðalsteinsdóttir, Ásta Kristinsdóttir og Heiða Kristinsdóttir. 3) Þórhallur, f. 29 maí 1967, maki Valgerður Margrét Þorgilsdóttir. Börn þeirra eru Guðmundur Þórhallsson og Sæbjörg Ásmundsdóttir. Barnabörn Guðmundar og Hjördísar eru fimm og eitt barnabarnabarn, Lilja Dís, dóttir Hjördísar Líneyjar.

Guðmundur og Hjördís kynntust í Vestmannaeyjum árið 1954 og hófu búskap þar en fluttu árið 1957 til Reykjavíkur. Þau byggðu tvö hús með foreldrum Hjördísar í Glaðheimum og bjuggu þar til ársins 2006 er þau fluttu á Kleppsveg 62, þar sem þau bjuggu síðan.

Guðmundur hafði yndi af blikksmíði sem hann lærði og vann við öll sín starfsár og einnig ýmiskonar málmvinnslu. Guðmundur var fjölhæfur maður og dundaði einnig mikið við alls konar smíði, byggði meðal annars hús í Vestmannaeyjum og í Glaðheimum í Reykjavík. Hann sinnti alltaf viðhaldi af ýmsu tagi og var mjög handlaginn við það og hugmyndaríkur.

Guðmundur verður jarðsunginn í Langholtskirkju í dag, 14. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið

smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún)

Nú er elskulegur faðir, tengdafaðir og afi farinn frá okkur á bjartari stað og við kveðjum hann með söknuði. Guðmundur hafði mikið gaman af veiðum og á ég margar góða minningar þar sem við fórum á Þingvöll að veiða en þar undi hann sér best úti í náttúrunni að veiða. Man ég þá sérstaklega eftir útilegunum þar sem helst var farið til Þingvalla og í Þjórsárdal þegar ég var barn að aldri og man vel þegar það mátti tjalda nánast hvar sem er á Þingvöllum og var alltaf valinn staður í Vatnsvík þar sem við fórum ávallt út á tangann að veiða murtu og bleikju sem við grilluðum síðar um kvöldið. Í Vatnsvíkinni náðum við í vatn sem kom upp úr uppsprettu þar og ekki er hægt að fá neitt betra vatn þó víða væri leitað. Síðasta veiðiferðin sem við fórum var fyrir tveimur árum en þá fórum við í vatnskot á bryggjuna þar sem við komum þér fyrir í stól og aftur tókst gamla manninum að vera meiri aflakló en sonurinn.

Oft komu þau hjónin Guðmundur og Hjördís í mat til okkar á seinni árum og þá sérstaklega um hver jól og áramót en því miður var það ekki þessi jól og áramót þar sem heilsan var að gefa sig.

Ég og mín fjölskylda söknum þín og þær góðu stundir sem við áttum með þér geymum við með okkur ávallt í hjarta okkar. Megi guð varðveita þig og blessa.

Þórhallur Guðmundsson, Valgerður Margrét Þorgilsdóttir, Guðmundur Þórhallsson og Sæbjörg Ásmundsdóttir.