Gunnar Baldvinsson
Gunnar Baldvinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar Baldvinsson: "Nýleg samantekt OECD sýnir að lífeyrissparnaður er næstmestur og hlutfall lífeyrissjóða í ellilífeyrisgreiðslum hæst hér á landi"

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í lok árs 2013 skýrslu sem byggist á gögnum frá árinu 2012 með samantekt um lífeyrisgreiðslur og lífeyrissparnað í aðildarlöndum stofnunarinnar. Á vegum OECD hefur upplýsingum verið safnað um lífeyriskerfi þjóða frá árinu 2002. Þessar upplýsingar er fróðlegt að skoða, m.a. til að bera saman með hvaða hætti þjóðir greiða öldruðum lífeyri.

Þjóðir hafa lagt mismikið fyrir

Ein helsta vísbending um vægi lífeyrissjóða í hagkerfum þjóða er verðmæti lífeyrissparnaðar í samanburði við stærð hagkerfisins, mælt með landsframleiðslu. Því hærra sem hlutfallið er því meiri getu hafa lífeyrissjóðir til að greiða lífeyri. Á þennan mælikvarða eru Íslendingar í öðru sæti í heiminum á eftir Hollendingum sem hafa lagt mest fyrir til að greiða öldruðum lífeyri.

Í árslok 2012 voru aðeins þrjár þjóðir með lífeyrissparnað yfir 100% af landsframleiðslu: Hollendingar (160%), Íslendingar (141%) og Svisslendingar (114%). Þrjár aðrar þjóðir, Bretar (96%), Ástralir (92%) og Finnar (79%), voru yfir vegnu meðaltali OECD ríkjanna sem nam 77% af landsframleiðslu. Hjá flestum þjóðum OECD var verðmæti lífeyrissparnaðar undir 20% af landsframleiðslu. Á síðasta áratug óx lífeyrissparnaður mest í prósentustigum í Hollandi (úr 103% af landsframleiðslu árið 2001 í 160% árið 2012) og á Íslandi (úr 84% árið 2001 í 141% árið 2012).

Hver greiðir eftirlaunin?

Í flestum OECD-löndum eiga einstaklingar á lífeyrisaldri (67 ára á Íslandi) rétt á opinberum lífeyri, sem er oftast fjármagnaður með samtímasköttum, og lífeyri frá lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar (hér eftir nefnt einu nafni lífeyrissjóðir).

Ef ellilífeyrisgreiðslur eru skoðaðar sem hlutfall af landsframleiðslu kemur í ljós að meðaltal opinberra ellilífeyrisgreiðslna í OECD löndunum var 7,8% af landsframleiðslu árið 2012 í samanburði við 1,7% frá lífeyrissjóðum. Aðeins í tveimur löndum voru lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða meirihluti ellilífeyris, í Ástralíu og á Íslandi. Í öðrum löndum er meirihluti ellilífeyris greiddur úr ríkissjóði viðkomandi lands. Í Danmörku, Hollandi, Sviss, Bretlandi og Bandaríkjunum var hlutfall ellilífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum meira en einn þriðji af heildarellilífeyrisgreiðslum en annar staðar var hlutfallið lægra.

Opinber lífeyrir var hæstur í Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi og Ítalíu en í þessum löndum greiddi ríkissjóður yfir 10% af landsframleiðslu í ellilífeyri árið 2012. Hlutfallið var lægst á Íslandi eða 1,7% af landsframleiðslu og næstlægst í Ástralíu eða 3,5%. Lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða voru hins vegar hæstar á Íslandi (5,7%) en þar á eftir koma Danmörk og Sviss. Hlutfall lífeyrissjóða var hins vegar lægra en 0,3% af landsframleiðslu í 11 OECD-löndum.

Vægi íslensku lífeyrissjóðanna mun aukast

Uppsafnaður lífeyrissparnaður sem hlutfall af landsframleiðslu segir ekki alla söguna um getu þjóða til að greiða lífeyri. Önnur atriði hafa áhrif, svo sem annar sparnaður, aldurssamsetning þjóða og fjárhagsstaða ríkissjóðs. Hlutfallið gefur samt vísbendingu, einkum þegar haft er í huga að annar sparnaður er yfirleitt mun minni en lífeyrissparnaður. Flestar vestrænar þjóðir eru að eldast og margar eru mjög skuldugar.

Samanburður á greiddum ellilífeyri er gagnlegur en tekur ekki tillit til aldurssamsetningar þjóðanna og annars sparnaðar. Samanburðurinn sýnir hins vegar að lífeyrissjóðir gegna mjög mikilvægu hlutverki í Íslensku hagkerfi, ekki síst þegar það er haft í huga að mannfjöldaspár gera ráð fyrir því að langlífi aukist og hlutfall aldraðra tvöfaldist á næstu áratugum. Sjóðirnir greiða nú þegar megnið af ellilífeyri landsmanna og í framtíðinni mun vægi þeirra hækka þegar kynslóðir fara á eftirlaun sem hafa greitt í lífeyrissjóð alla starfsævina. Á sama hátt er óvarlegt að búast við að ríkissjóður Íslands geti greitt hærri eftirlaun í framtíðinni. Ríkissjóður hefur verið rekinn með viðvarandi halla um árabil og hans bíða mörg brýn viðfangsefni, t.d. að greiða niður skuldir og að efla heilbrigðiskerfið.

Engin eftirlaunakrísa hér

Það er ekki bara á Íslandi sem mannfjöldaspár gera ráð fyrir breyttri aldurssamsetningu og auknu vægi eftirlaunaþega. Þjóðir sem byggja lífeyriskerfi sitt á því að ríkissjóður greiði ellilífeyri, sem er fjármagnaður með sköttum, munu standa frammi fyrir stórkostlegum vanda þegar lífeyrisþegum fjölgar á sama tíma og skattgreiðendum fækkar. Þessi vandi er stundum kallaður „eftirlaunakrísa.“ Á meðan við Íslendingar stöndum vörð um lífeyrissjóðina og starfsumhverfi þeirra þurfum við ekki að óttast þessa krísu.

Höfundur er formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Höf.: Gunnar Baldvinsson