Trú Íslendinga á störf rannsóknarrétta í ýmsum málum er umfram það sem góðu hófi gegnir. Í krafti þekkingar er auðvitað meiri von en hitt til þess að finna megi skýringar á flóknum málum og leiða þau til lykta.

Trú Íslendinga á störf rannsóknarrétta í ýmsum málum er umfram það sem góðu hófi gegnir. Í krafti þekkingar er auðvitað meiri von en hitt til þess að finna megi skýringar á flóknum málum og leiða þau til lykta. Hins vegar er fólk sem sinnir rannsóknarstörfum mannlegt, breyskt og skeikult og umræða um störf þess – og þau mál sem til athugunar eru – veitir fínt aðhald. Þannig hefur síðustu daga borið á nokkurri gagnrýni á að fjölmiðlar skuli hafa birt myndband af flugslysi norður á Akureyri síðasta sumar. Sýning þess og önnur umfjöllun um málið er sögð strá salti í sár aðstandenda þeirra sem létust. Sjálfsagt er að taka tillit til sjónarmiða aðstandenda því aðgát skal sýna í nærveru sálar. Hins vegar eru mjög umhugsunarverð orð eins þeirra sem skipa Rannsóknarnefnd flugslysa um að birting myndbandsins sé óheppileg, með tilliti til þess að fólk geti nú fyrirfram hrapað að annarri niðurstöðu en þeirri sem verði lokaorð nefndarinnar.

Í hlutarins eðli liggur að umfjöllun um flugslys sem tugir ef ekki hundruð manns verða vitni að verður ekki stöðvuð. Það er og beinlínis heppilegt að um þetta sé fjallað í viðurkenndum fjölmiðlum þar sem málin eru sett í samhengi og steinum velt við. Munum líka að umfjöllun um rannsókn á flugslysinu í Skerjafirði árið 2000 reyndist í alla staði þörf.

Hér verður einnig gert að umfjöllunarefni mál Ragnars Þórs Péturssonar, kennara við Norðlingaskóla í Reykjavík, sem sagði sögu sína nýlega. Hann kaus að hætta störfum eftir að fræðslustjórninni í Reykjavík barst nafnlaus ábending um að kennarinn væri varhugaverður í námunda við börn. Tilkynning þessi, sem var í miklum véfréttarstíl, var könnuð af starfsfólki skólaskrifstofunnar í Reykjavík svo og fleirum – þótt lýsing á málavöxtum, að minnsta kosti í fjölmiðlum, hafi verið þannig að spyrja má hvort einhver ástæða hafi verið til þess að taka málið alvarlega. Eigi að síður fór það í farveg, kennarinn var hreinsaður af öllum áburði en hefur skaðast mjög. Í því sambandi er rétt að hafa í huga íslensk dæmi frá síðustu áratugum um heiðvirða menn sem bendlaðir hafa verið að ósekju við alvarleg mál og eru brennimerktir af.

Í Reykjavíkur eru nú um stundir í forystu borgarmála stjórnmálaöfl sem láta mannréttindamál til sín taka og mál kennarans, sem varð leiksoppur kjaftasagna, telst til slíkra. Því er aumt af hálfu kjörinna fulltrúa í borginni, hvar í flokki sem þeir standa, að koma manninum ekki til varnar. Viðbáran er sú að það sé þeim ekki heimilt samkvæmt barnaverndarlögum og sjálfsagt má túlka ákvæði laganna þannig. Þó er ekkert sem bannar ærlegu fólki í áhrifastöðum að taka afstöðu gegn almennu óréttlæti og rangindum af hvaða tagi sem þau kunna að vera. Virðist því, í hreinskilni sagt, sem mas meirihlutans í borginni um mannréttindi sé marklítið þvaður. sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson