[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingvi fæddist í Reykjavík 14.1. 1974 en ólst upp hjá afa sínum og ömmu á Flateyri: „Þetta voru frábærar æskuslóðir þar sem börn og unglingar nutu frelsis, víðáttu og mikillar nálægðar við atvinulíf hinna fullorðnu.

Ingvi fæddist í Reykjavík 14.1. 1974 en ólst upp hjá afa sínum og ömmu á Flateyri: „Þetta voru frábærar æskuslóðir þar sem börn og unglingar nutu frelsis, víðáttu og mikillar nálægðar við atvinulíf hinna fullorðnu. Að þessu leyti voru uppvaxtarárin gjörólík því sem börn og unglingar eiga að venjast hér á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Ég get hins vegar ekki neitað því að snjóflóðið á Flateyri, haustið 1995, setur svart strik í þessar endurminningar og æskuslóðir. Þótt ég hafi verið fluttur þaðan þá þekkti maður auðvitað marga sem þar fórust og ýmsa mjög vel. Snjóflóðagarðarnir fyrir ofan byggðina verða mér alltaf áminning um þær skelfilegu hamfarir.“

Ingvi var í Barnaskóla Flateyrar, lauk stúdentsprófi frá MR 1993, stundaði nám í lögfræði við HÍ, lauk embættisprófi í lögfræði 1998, stundaði framhaldsnám með áherslu á verðbréfaviðskipti og félagarétt við Columbia University í New York og lauk þaðan LLM-prófi og fékk heiðursverðlaun fyrir námsárangur þar 2003. Þá lauk hann MSc-prófi í fjármálum frá London Business School 2008.

Í fiskvinnslu og sjómennsku

Ingvi vann öll sumur menntaskólaáranna við fiskvinnslu og sjómennsku á Flateyri. Hann starfaði hjá útgerð Granda á háskólaárunum og var þá auk þess til sjós.

Ingvi var fulltrúi á Lögmannsstofunni Garðastræti 17 á árunum 1998 og 1999 og var aðstoðarmaður dómsmálaráðherra 1999-2003.

Ingvi starfaði hjá Íslandsbanka 2004-2011 að undanskildu námsleyfi 2007-2008, var þar lögfræðingur og síðar forstöðumaður lögfræðiráðgjafar bankans og var verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf.

Ingvi stofnaði lögmannsstofuna Lögmenn Lækjargötu, árið 2011, ásamt Birgi Tjörva Péturssyni, Reimari Péturssyni og Guðmundi Péturssyni en síðar hafa bæst í eigendahópinn þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Andri Sigurðsson.

Ingvi var formaður Vöku um skeið og var þá fulltrúi stúdenta í Háskólaráði HÍ. Hann var formaður Heimdallar 1999-2000 og formaður SUS 2001-2003. Þá var hann vþm. Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 2003-2007 og sat tvisvar á þingi.

Hann er stjórnarformaður Ríkisútvarpsins frá hausti 2013.

Lestrarfélagið Krummi

Ingvi hefur fjölbreytt áhugamál en ver þó mestum tíma í að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni, stunda útivist með börnum og vinum, fara á skíði og í ferðalög með fjölskyldunni, og svo eru veiðiferðir með félögunum fastur liður á hverju sumri.

Ingvi er virkur félagi í lestrarfélaginu Krumma: „Það eru skemmtilegir félagar sem koma reglulega saman til að ræða bókmenntir og samfélagsmál án þess þó að ætla sér að bjarga heiminum á næstunni.

Ég hef alltaf lesið mikið, ekki síst bókmenntir og sagnfræði, og alltaf verið pólitískur. Ég hef ekki sama tíma og áður fyrir pólitíkina en fylgist þó alltaf vel með íslenskri pólitík sem og stjórnmálaþróun í Bretlandi og í Bandaríkjunum.

Að öðru leyti snúast áhugamálin um klassíska tónlist. Ég lærði á píanó hjá James Houghton í Tónlistarskólanum á Flateyri og síðan hjá Halldóri Haraldssyni og Jónasi Sen hér fyrir sunnan. Áhugi á klassískum píanóleik hefur síðan fylgt mér og stundum sest ég við píanóið eftir langan vinnudag.“

Fjölskylda

Eiginkona Ingva er Helga Árnadóttir, f. 31.10. 1979, tölvunarfræðingur og MBA og framkvæmdastjóri Tulipop. Hún er dóttir Árna Jónssonar læknis og Steinunnar Kristinsdóttur hjúkrunarforstjóra.

Börn Ingva og Helgu eru Steinunn Ingvadóttir, f. 15.5. 2010, og Guðmundur Ingvason, f. 16.10. 2012.

Dóttir Ingva frá fyrra hjónabandi er Ingibjörg Þórunn Ingvadóttir, f. 8.3. 2002.

Hálfsystir Ingva, samfeðra, er Hulda Guðmunda Óskarsdóttir, f. 1.5. 1975, BA í sálfræði, búsett í Reykjavík.

Hálfsystir Ingva, sammæðra, er Eva Elísabet Rúnarsdóttir, f. 22.11. 1985, ljósmyndari.

Foreldrar Ingva eru Guðmunda Agla Júlíusdóttir, f. 19.1. 1955, grunnskólakennari við Grunnskólann á Flateyri, og Óskar Ellert Karlsson, f. 28.7. 1954, sjómaður.