Úlfar Jónsson
Úlfar Jónsson — Morgunblaðið/Ernir
Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Ég kem til með að fá meiri stuðning í starfinu og kom því tvíefldur til leiks,“ segir Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari í golfi, við Morgunblaðið um ástæðu þess að hann er hættur við að hætta sem landsliðsþjálfari.

Í byrjun desember tilkynnti Golfsamband Íslands að Úlfar hefði látið af störfum og sagði hann þá réttan tímapunkt fyrir sig að hætta en Úlfar tók við landsliðinu í nóvember 2011.

„Ég hef gegnt öðru starfi samhliða landsliðsþjálfuninni sem íþróttastjóri GKG og mér fannst álagið bara vera of mikið. Það eru verkefni á hvorumtveggja vígstöðvum og þau færast í aukana. Nú verður smá breyting á landsliðinu þar sem ég fæ gott fólk með mér til aðstoðar en það er of snemmt að fara að tala um hverjir það verða. Ég held samt áfram að velja liðin,“ segir Úlfar sem fagnar því að halda áfram sem landsliðsþjálfari.

„Maður hefur auðvitað mikinn metnað fyrir því að vera landsliðsþjálfari og landsliðsmálunum í heildina. Maður er líka á fullu í uppbyggingarstarfi hjá GKG og saman tengist þetta allt. Ég held svo að kraftar mínir og reynsla muni nýtast hjá landsliðinu,“ segir Úlfar.

Það er spennandi ár framundan í golfinu og nóg að gera þannig að það var líklega um lítið annað að ræða en að Úlfar fengi aðstoð.

„Fram að vori eru æfingabúðir hjá afrekshópum GSÍ og svo eru stóru mótin í sumar. Við tökum þátt í fjórum Evrópumótum (karla, kvenna, pilta og stúlkna) sem eru heilmikil verkefni. Þetta er líka allt að gerast á sama tíma. Það verður kappkostað við að undirbúa keppendur fyrir þessu mót,“ segir Úlfar Jónsson, endurráðinn landsliðsþjálfari í golfi.