[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum á liðnum árum og hefur verið fjárfest fyrir milljarða í tækjum og búnaði.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum á liðnum árum og hefur verið fjárfest fyrir milljarða í tækjum og búnaði. Á síðasta ári fékk verksmiðjan vottun á framleiðslu á lýsi til manneldis og ný hreinsistöð hefur verið tekin í notkun. Í henni er allt blóðvatn hreinsað og unnið úr því lýsi og mjöl áður en því er dælt fitusnauðu og án þurrefna í hafið handan við Eiðið. Þetta skapar verðmæti og er mun umhverfisvænni aðferð en áður tíðkaðist.

„Það hefur orðið viðhorfsbreyting í vinnslu sjávarfangs á síðustu árum og alls staðar er reynt að hámarka afrakstur og bæta meðferð hráefnis. Hér hefur verið fjárfest gríðarlega til að ná árangri og félagið er á fleygiferð inn í framtíðina,“ segir Páll Scheving Ingvarsson verksmiðjustjóri um þær breytingar sem hafa orðið hjá fyrirtækinu.

Í lok síðasta árs var þess minnst að í fyrra var hálf öld liðin frá því að fiskimjölsverksmiðjan tók til starfa. Hét hún þá Fiskimjölsverksmiðja Einars Sigurðssonar eða FES eins og verksmiðjan er alla jafna kölluð. Í erindi á samkomu í tilefni af 50 ára afmælinu sagði Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, m.a.:

Gæðamjöl úr úrvalshráefni

„Þegar starfsemin hófst hér var afkastageta verksmiðjunnar um 400 tonn á dag og þrær fyrir 1.100 tonn af hráefni. Fljótlega fóru afköstin í 600 tonn og þrærnar voru stækkaðar í um 3.000 tonn. Í dag eru afköstin 1.200 tonn á sólarhring og framleitt er gæðamjöl úr úrvalshráefni. Allt hráefnið er nú geymt í þremur tönkum sem taka samtals 7.000 tonn.

Árið 1998 var verksmiðjan endurbyggð og loftþurrkarar settir upp sem gerðu verksmiðjuna hæfa til framleiðslu á hágæðamjöli. Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref í uppbyggingu verksmiðjunnar, m.a. með tvöföldun á eimingargetu, nýjum skilvindum fyrir mjöl og lýsi, hreinsistöð, hráefnisgeymi og mjölgeymslum.

Í vor fékk verksmiðjan svo leyfi til að framleiða lýsi til manneldis fyrst íslenskra fiskimjölsverksmiðja og í haust voru gerðar talsverðar endurbætur á starfsmannaaðstöðunni,“ sagði Stefán meðal annars.

Tarnir á loðnuvertíðum

Páll Scheving segir að miklar breytingar hafi orðið á síðustu 50 árum. Fyrir hálfri öld hafi einkum bein og annað sem til féll við vinnslu á botnfiski verið brætt. Þegar loðnan fór að veiðast af krafti hafi orðið mikil breyting á og tarnir oft verið langar á vertíð.

Loðnan hafi verið geymd í þróm og jafnvel á túnum í Eyjum og þegar hún loksins hafi verið brædd hafi dauninn, eða peningalyktina, oft lagt yfir bæinn. Verksmiðjurnar hafi verið kallaðar gúanó, en síðan hafi orðið mikil framþróun, gæði afurða hafi aukist og nú sé einfaldlega talað um fiskimjölsverksmiðju.

Páll segir að mest sé fryst af síld, makríl og loðnu en kolmunni sé bræddur og gulldepla þegar hún veiðist. Hann segir að kolmunnalýsi sé mjög eftirsótt til manneldis. Bein, afskurður og annað sem til fellur við vinnslu á bolfiski er ekki lengur brætt hjá Ísfélaginu heldur selt til frekari vinnslu hjá Lýsi hf.

Stefán nefndi í erindi sínu að árið 1978 hófst loðnuhrognataka í FES-inu við afar frumstæð skilyrði en strax árið eftir voru fryst 1.100 tonn af hrognum. „Ísfélagið hefur frá upphafi verið leiðandi í loðnuhrognavinnslu í heiminum. Í dag er hægt að vinna hrogn úr 3.000 tonnum af hráefni á sólarhring og nýtingin hefur meira en tvöfaldast á síðustu árum.

Á síðustu vertíðum hefur hrognunum verið dælt tæpan kílómetra á milli FES-ins og frystihússins. Í sumar hófst svo dæling á hausum og beinum frá frystihúsinu yfir í hreinsistöðina hér í FES þar sem þurrefnið og fitan eru hreinsuð úr öllum vökvanum en hreinsistöðin er sú stærsta og fullkomnasta sinnar tegundar á landinu,“ sagði Stefán.

Stöðug þróun

Páll segir að í Fesinu sé loðnan skorin, kreist og hreinsuð, nýlega hafi hrognakerfið verið stækkað og afköstin tvöfölduð. Hratið og annað sem til fellur fari í bræðslu, en hrognunum sé dælt yfir í frystihús Ísfélagsins um eins kílómetra leið eftir lögn, sem var grafin í gegnum bæinn 2012. Þar er hrognunum pakkað og þau fryst og gengið frá til útflutnings.

Nú starfa rúmlega 20 manns allan ársins hring í verksmiðjunni, en þeim fjölgar á loðnuvertíð. Fimm eru á vakt hverju sinni og fylgjast þeir náið með tölvum og mælum. Ekki fyrir ýkja mörgum árum voru 25 manns á vakt við keyrslu verksmiðjunnar.

Páll segir að með nýjum rafstrengjum til Eyja opnist möguleikar fyrir fyrirtækið að nýta raforku í stað olíu við gufuframleiðslu við suðu og þurrkun eins og nú sé gert. Gott sé að geta valið besta og hagkvæmasta orkugjafann hverju sinni. Starfsemin þurfi að vera í stöðugri þróun.

Þungir sívalningar og þurrkarar

Fyrsta fiskimjölsverksmiðjan tók til starfa í Vestmannaeyjum árið 1913, eða fyrir rúmum 100 árum. Á vefnum Heimaslóð er að finna eftirfarandi frásögn:

Enski ræðismaðurinn Gísli J. Johnsen komst í kynni við enskt félag í Grimsby sem framleiddi fiskimjöl í stórum stíl og sá hann að tilvalið væri að setja þannig félag á stofn hér í Vestmannaeyjum. Samkvæmt landslögum varð hann að hafa verksmiðjuna á sínu nafni, en félagið sá um byggingu og að borga þær vélar sem til þurfti.

Þegar skipið með vélarnar kom hingað lagðist það á Víkina, því skip hefðu þá ekki komist inn á höfnina. Allar vélar á þessum tíma voru mjög þungbyggðar þannig að erfiðlega gekk að koma vélum félagsins í land. Sívalningarnir og þurrkararnir voru þyngstir af vélarhlutunum. Þeir voru þéttir til beggja enda og þeim fleytt í land. Öðrum hlutum var komið í uppskipunarbáta sem sigldu með þá í land. Eftir að allt var komið í land þurfti að koma öllum þessum hlutum vestur í verksmiðjuhúsið. Að lokum komust allir vélarhlutirnir á sinn stað og tók verksmiðjan til starfa í aprílmánuði 1913.

Góð afköst og nýting með samstilltu liði

Í erindi í afmælisveislu í tilefni af 50 ára FES eða Fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins, stiklaði Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, á stóru í sögu verksmiðjunnar. Hann sagði að þeirri sögu yrðu ekki gerð góð skil nema minnast á starfsmennina sem hefðu staðið vaktina.

„Hér hefur ávallt verið úrvalsmannskapur og það er óhætt að fullyrða að góð afköst og nýting, sem eru lykilatriði til að ná árangri, nást ekki nema með samstilltu liði vaskra manna,“ sagði Stefán og þakkaði núverandi og fyrrverandi starfsmönnum fyrir vel unnin störf.

Frá upphafi hafa fimm verksmiðjustjórar verið í FES-inu en þeir eru: Birgir Helgason 1963-64, Örn Aanes 1964-69, Bogi Sigurðsson 1969-2000, Guðjón Engilbertsson 2001-07 og Páll Scheving frá 2007.

Stefán nefndi Boga sérstaklega „sem stóð hér í stafni í yfir 30 ár ávallt vakinn og sofinn yfir starfseminni“, eins og Stefán orðaði það. Bogi var verksmiðjustjóri þegar gaus í Heimaey árið 1973 og hélt hann alla tíð dagbók yfir það helsta í rekstrinum og það sem á dagana dreif.

Í gosinu var byrjað að taka verksmiðjuna niður, en hún var þó ekki sett upp annars staðar og aftur var byrjað að bræða í Vestmannaeyjum í lok janúar 1974.