Eiríkur Ómar Sveinsson fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1955. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 25. desember 2013.

Foreldrar hans voru Sigrún Sigurjónsdóttir skrifstofumaður, f. 14.4. 1934, d. 24.6. 2011, og Sveinn Rafn Eiríksson, slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli, f. 30.7. 1934, d. 2.6. 1986.

Systur Ómars eru Hafdís Sveinsdóttir, f. 12.2. 1954, og Sigrún Elínborg (Lóa) Sveinsdóttir, f. 5.6. 1963.

Ómar kvæntist 8. ágúst 1992 Ingibjörgu Sandholt, f. 14.5. 1964. Foreldrar hennar eru Hallgrímur Egill Sandholt, f. 31.1. 1936, d. 12.5. 2005, og Þóra Sandholt, f. 22.4. 1938. Börn Ómars og Ingibjargar eru Egill Orri, f. 17.12. 1991, og Þóra Kristín, f. 8.7. 1995.

Fyrri sambýliskona Ómars var Sigurbjörg Sjöfn Rafnsdóttir. Börn þeirra eru Eva Björk, f .25.9. 1977, d. 21.6. 2004, og Sveinn Rafn, f. 28.8. 1979. Sambýliskona hans er Melkorka Ragnhildardóttir.

Ómar ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík og útskrifaðist frá Loftskeytaskóla Íslands vorið 1975. Hann tók einkaflugmannspróf hjá Flugskólanum hf. árið 1977. Lauk námi í tölvunar- og kerfisfræði ásamt forritun árið 1984 og hlaut meistararéttindi í rafeindavirkjun sama ár. Ómar starfaði frá 1975 hjá flugvallarrekstrarsviði varnarliðsins og vann sjálfstætt að ýmsum kerfis-, forritunar- og tölvunarverkefnum meðfram aðalstarfi sínu hjá Varnarliðinu. Frá 1986 vann hann sem rekstrarstjóri flugvallarratsjárkerfa rafeindadeildar varnarliðsins og frá 1997 til 2006 sem aðstoðardeildarstjóri. Árin 2004 til 2008 var Ómar ráðgjafi og verkefnisstjóri á Pristina-flugvelli í Kosovo. Árið 2006 var hann ráðinn framkvæmdastjóri flugvallarsviðs hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og frá 2009 starfaði hann sem framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar hjá Isavia.

Útför Ómars fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 14. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku Ómar, það er mikil sorg að kveðja þig, þvílíkt góðmenni sem þú varst.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Blessuð sé minning þín.

Þín tengdamóðir,

Þóra.

Elsku frændi, nú kveðjum við þig með miklum söknuði. Ómar hafði einstaklega góða nærveru, þægilegt var að ræða við hann um daginn og veginn og alltaf fann hann það góða sem bjó í hverjum og einum. Hann hafði mikinn áhuga á að heyra um okkar framtíðarplön og hikaði ekki við því að hrósa fyrir alla velgengni. Ávallt var stutt í skemmtilegan og smitandi hlátur hjá honum Ómari og var því mikil gleði við völd alls staðar sem hann kom að. Hann var mikill húmoristi og hafði gaman af því að stríða, sem við fengum vel að kynnast og höfðum sérstaklega gaman af.

Ótal minningar koma upp í hugann, en sérstaklega er minnisstætt þegar Ómar frændi sagði við okkur frænkurnar á yngri árum að gula umferðarljósið væri í hans eigu. Hann einn mætti því alltaf aka yfir á þessu ljósi og þetta þótti okkur ótrúlega merkilegt. Við hlógum að þessu fyrir stuttu þar sem við töluðum um að í dag keyrðum við oft yfir á gula umferðarljósinu sem hann ætti.

Við erum þakklátar fyrir þær stundir sem við áttum og mun minning þín lifa í huga okkar.

Fanndís Þóra og

Ingunn Klara.

Nú er komið að kveðjustund. Veikindi Ómars komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og enginn átti von á að endalokin kæmu svo fljótt. Ég man eftir fjölmörgum gleðistundum með Ómari sem rifjast nú upp, en við höfum þekkst síðan ég fæddist.

Ómar var með hressari og glaðlyndari mönnum sem ég hef kynnst. Hann var bókstaflega alltaf hlæjandi með sitt stóra bros og í góðu skapi. Hann sá skemmtilegar hliðar á öllu og tókst að láta aðra hlæja með sér. Hann var hrókur alls fagnaðar. Hann og Ingibjörg frænka mín náðu vel saman og hlógu mikið og gerðu grín sín á milli. Ómar átti það til að skjóta létt á mann með örlítilli kaldhæðni, en það var alltaf í góðu gamni. Það var alltaf gaman þegar hann var í fjölskylduboðum. Hann hafði einlægan áhuga á því sem maður hafði fyrir stafni og vildi vita hvernig gengi. Ómar vildi öllum vel og kunni að samgleðjast öðrum. Þess má geta að hann tók unnustu minni opnum örmum frá fyrsta degi og var jafn áhugasamur að vita hvað hún hefði fyrir stafni og hversu vel gengi hjá henni.

Ómar var líka afskaplega ráðagóður og var alltaf til í að „redda“ fyrir mann hlutunum. Í hvert einasta skipti sem sjónvarp, net eða símar biluðu á heimilinu þá var enginn annar en Ómar sem reddaði málunum. Ég man eftir ófáum skiptum þegar hann lagaði tölvuna eða netið fyrir mig þegar ég var yngri og ég spurði óþreyjufullur hvað væri að og hvað væri í gangi. Hann gekk ákveðinn til verks og sussaði á mig. En um leið og hann var búinn að laga þetta þá sló hann á létta strengi eins og hann átti alltaf til.

Ég á óteljandi minningar af okkur saman og meðal annars þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í ræktinni og Ómar dró mig í fjallgöngu í Þingvallasveit, ótal mörg matarboð, jól og áramót eða aðrir hittingar í gegnum árin. Fjölskylda okkar hefur misst mikið en þá sérstaklega Ingibjörg frænka mín og börnin hans. Ég mun sárt sakna hans og aldrei gleyma. Takk fyrir allar góðu stundirnar.

Hallgrímur Andri Ingvarsson.

Margar minningar koma upp í hugann við andlát vinar okkar Ómars til margra ára. Við áttum lífleg og kát æskuár með mörgum skemmtilegum og ógleymanlegum atburðum. Við fylgdumst að við íbúðarkaup og byggðum síðan hús sitt í hvorri götunni á Álftanesi þar sem börnin okkar ólust upp. Hjónaklúbburinn var stofnaður með öðrum skemmtilegum vinum. Við fórum í útilegur, hestaferðir, ferðalög til Bandaríkjanna og til Spánar. Lífið, hamingjan og framtíðin blasti við okkur. Lítið um vandamál, ekkert vesen og hindrunum rutt úr vegi eins og að drekka vatn. Ómar var mikill gleðigjafi og hrókur alls fagnaðar. Ósjaldan tókum við saman lagið og stilltum strengina í gítarnum. Hann fékk okkur til að hafa gaman af hlutum, gaman af að lifa lífinu. Alvarleikinn og ábyrgðartilfinningin var þó aldrei langt undan.

Tímarnir breyttust og við með. Við fluttum til Danmerkur og nýr kafli hófst í lífi Ómars. Hann sýndi okkur mikla virðingu og vinskap þegar hann bað Sigga að vera svaramann við giftingu sína og Ingibjargar. Þó svo að leiðir okkar hafi ekki legið mikið saman síðustu árin hefur vinskapur okkar ekki gleymst. Nokkrum sinnum höfum við rekist hvort á annað og þá rætt um að það væri nú kominn tími til að fara að „hittast almennilega“. Nú verður það því miður að bíða betri tíma.

Hinsta kveðja okkar til Ómars er með miklum söknuði. Við sendum eiginkonu, börnum, systrum og öðrum aðstandendum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að varðveita þau og styrkja í sorginni og um ókomna tíð.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(V. Briem)

Sigurður S. Pálsson og Kristín A. Jóhannesdóttir.

Í minningu okkar kæra vinar, Ómars Sveinssonar. Í tæpan aldarfjórðung höfum við verið samferða í gegnum lífið. Minningar streyma fram, minningar um Ómar, börnin okkar, ferðalög, jól og áramót. Slík samvera skapar vináttu og virðingu sem endist ævina alla. Ómar hafði þann góða eiginleika að geta glaðst yfir árangri náungans. Hann tók þátt í gleði og sorgum annarra, hann gaf af sér. Hann var glaðlyndur að eðlisfari, hress og kátur. Hafði gaman af lífinu, reyndi að njóta alls þess góða sem það bauð upp á. Hans áhugamál voru hestamennska, skíði, ganga á fjöll, líkamsrækt og ekki má gleyma golfinu sem átti hug hans allan nú seinustu ár.

Við hittumst síðast á Landspítalanum, töluðum um alla þessa hversdagslegu hluti sem skipta þó svo miklu máli. Ómar bar sig vel og gerði grín að hjúkkunum og þær hlógu og snérust í kringum hann allar saman. Sjálfsvorkunn var ekki í boði, Ómar var ekki fyrir slíkt. Hann tók þessu áfalli sem hann varð fyrir með sama jafnaðargeði og öllu öðru í lífinu.

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson.)

Hvíldu í friði, kæri Ómar. Við þökkum þér ánægjulegar samverustundir og þú gleymist aldrei í huga okkar.

Ingvar Vilhelmsson og Kristín Sandholt.

Vinur minn og samstarfsmaður til margra ára, Ómar Sveinsson, er látinn langt um aldur fram. Hans verður sárt saknað.

Náin kynni okkar og samstarf hófst um það leyti sem bandaríska varnarliðið yfirgaf landið og Íslendingar tóku við rekstri Keflavíkurflugvallar. Ómar varð þá framkvæmdastjóri flugvallarsviðs og ég deildarstjóri flugvallarþjónustu undir hans stjórn. Við höfðum þá báðir unnið á vellinum í meira en tvo áratugi, hvor á sínum vettvanginum.

Í hönd fóru nú miklir umbrotatímar þar sem í húfi var að halda rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar í horfinu en um leið að skipuleggja til framtíðar. Nú, rúmum sjö árum síðar, er óhætt að fullyrða að í flestu hafi vel tekist til þótt margt sé enn ógert. Allir lögðu þarna hönd á plóginn, ekki síst einvalalið starfsmanna Keflavíkurflugvallar. Á engan er þó hallað þegar staðhæft er að þar hafi Ómar farið fremstur í flokki og gegnt lykilhlutverki. Það skarð sem hann skilur nú eftir sig verður vandfyllt.

Ómar var vakinn og sofinn í því að halda merkjum Keflavíkurflugvallar á lofti. Þrátt fyrir að ýmis dægurmál og golf hafi oft borið á góma í hundruðum ferða okkar til og frá vinnu þá var aðal-umræðuefnið nær alltaf verkefni líðandi stundar og framtíðarhorfur á vellinum. Hann var KEF-maður af lífi og sál.

Ómar var glæsimenni í alla staði sem átti auðvelt með að sjarmera fólk upp úr skónum. Það fylgdi honum alltaf einhver ferskur andi hvar sem hann kom. Hann var flugskarpur, átti ótrúlega létt með að tileinka sér nýjungar og var fljótur að skilja hismið frá kjarnanum. Hann hafði mjög ríka réttlætiskennd en gat verið harður í horn að taka þegar á þurfti að halda. Í góðra vina hópi var hann hrókur alls fagnaðar, ekki síst á golfvellinum.

Ég þakka fyrir þann heiður og forréttindi að hafa átt Ómar Sveinsson að vini og fengið að starfa honum við hlið.

Ómar átti yndislega fjölskyldu sem hann talaði oft um. Harmur hennar er mikill og ég bið almættið um að vernda hana og styrkja.

Hjörtur Hannesson.

Ég hitti hávaxinn, reffilegan mann með glettið bros á heitum sumardegi í Kosovo fyrir 10 árum síðan. Ekki grunaði mig að þá hæfist samvinna sem átti eftir að verða eins náin og gefandi og raunin varð. Ómar var kominn til að aðstoða við kaup á ratsjárbúnaði fyrir alþjóðaflugvöllinn í Pristina og var lykilmaður í því að honum var komið upp með miklum sóma. Iðulega heyrði ég á starfsmönnum flugvallarins hversu frábær samvinnan væri við Ómar. Frá því fréttir bárust af fráfalli hans hafa margir þeirra haft samband og beðið mig um að koma samúðarkveðjum á framfæri. Þeim finnst við hafa misst mjög góðan mann.

Aftur hófst samstarf með okkur Ómari haustið 2008 á Keflavíkurflugvelli. Erfiðir tímar fóru í hönd í nýstofnuðu fyrirtæki í kjölfar efnahagshrunsins en Ómar vildi aldrei horfa á hlutina neikvætt. Þvert á móti átti að búa til kerfi fyrir flugvallarekstur sem yrði fyrirmynd á alþjóðavísu. Hann var ávallt reiðubúinn að ræða nýjar aðferðir og koma þeim í framkvæmd – aðalsmerki góðs leiðtoga. Víst er að áhrif Ómars á flugvallarekstur verða langvinn. Starfið vakti athygli víða og átti hann t.d. að kynna aðferðarfræði Keflavíkurflugvallar fyrir erlendum aðilum nú í janúar. Ekkert verður af því en víst að við munum halda áfram á þeirri braut sem hann markaði.

Ég mun sakna mikils og góðs félaga sem var alltaf boðinn og búinn til þess að gefa af sér og aðstoða þar sem þurfti. Ég votta Ingibjörgu, börnunum og fjölskyldu Ómars mína dýpstu samúð.

Björn Óli Hauksson,

forstjóri Isavia.

Látinn er eftir stutta en snarpa sjúkdómslegu félagi okkar og samstarfsmaður Eiríkur Ómar Sveinsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar.

Eiríkur Ómar var fjölhæfur og úrræðagóður og vel liðinn í störfum sínum og vinamargur. Hann var menntaður loftskeytamaður, flugmaður, tölvunarfræðingur og rafeindavirki. Hann hóf störf hjá Flugvallarrekstrarsviði varnarliðsins árið 1975 og varð rekstrarstjóri flugvallarratsjárkerfa Rafeindadeildar varnarliðsins (Ground Electronics Maintenance Division) og síðar aðstoðardeildarstjóri hennar. Árið 2006 var Eiríkur Ómar ráðinn framkvæmdastjóri flugvallarsviðs Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, sem varð Keflavíkurflugvöllur ohf. í janúar 2009, og var framkvæmdastjóri flugvallarins frá stofnun Isavia ohf. árið 2010. Jafnframt starfi sínu á Keflavíkurflugvelli starfaði Eiríkur Ómar sem ráðgjafi og verkefnisstjóri fyrir Pristinaflugvöll í Kosovo á árunum 2004 til 2008 þegar flugvöllurinn var starfræktur undir leiðsögn og með faglegri ábyrgða íslenskra flugmálayfirvalda á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Framkvæmdastjórn Keflavíkurflugvallar er erilsamt og krefjandi starf. Undanfarin ár hefur þar verið lyft grettistaki í endurskipulagningu og uppbyggingu eftir að Íslendingar tóku að fullu við rekstrinum. Reynsla og hæfileikar Ómars og mannkostir nutu sín sín einkar vel við það starf, enda var hann flestum hnútum kunnugur á flugvellinum eftir áratuga starf, röggsamur stjórnandi og vel liðinn af viðskiptavinum og samstarfsmönnum.

Með Ómari er genginn góður félagi og vinur langt um aldur fram. Hugur okkar dvelur við minningar um traustan vin sem kvaddur er með söknuði og þakklæti. Við sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar og samstarfsmanna hjá Isavia,

Þórólfur Árnason og

Elín Árnadóttir.