Jóhann Gestsson fæddist á Fáskrúðsfirði 5. júlí 1933. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum, Fáskrúðsfirði 7. janúar 2014.

Foreldrar Jóhanns voru Gestur Guðmundsson, f. 16. júní 1904, d. 12. júlí 1962, og Kristín Elín Björg Jónsdóttir, f. 22. desember 1907, d. 2. september 1980. Þau bjuggu á Fáskrúðsfirði. Systkini Jóhanns eru: 1. Sveinbarn f. andvana 17.12. 1929. 2. Trausti, f. 11.13. 1930, d. 16.5. 2001. Kona Trausta var Pálína Ottósdóttir Vestmann, f. 29.10. 1930, d. 26.6. 1989. Börn Trausta og Pálínu eru Sjöfn, f. 21.4. 1951, Óðinn, f. 21.10. 1952, Þórir, f. 21.10. 1952, Bára, f. 7.8. 1956, d.2.4. 2008, og Björg, f. 12.5. 1960. Stjúpsonur Trausta er Ottó Valur Kristjánsson, f. 23.3. 1950. 3. Vilborg, f. 15.3. 1935, d. 5.10. 1935. 4. Guðni Ingólfur, f. 5.2. 1937. Kona Guðna var Halla Sylvía Hjelm, f. 24.4. 1937, d. 22.9. 1989. Guðni og Halla Sylvía skildu. Börn Guðna og Höllu Sylvíu eru Aðalsteinn Björgvin, f. 18.7. 1958, Jóhanna, f. 26.6. 1960, Þórunn Elfa, f. 22.8. 1964, Gestur Ellert, f. 18.7. 1966, Eybjörg Guðný, f. 19.10. 1968, Svanberg, f. 7.3. 1970, Guðbjörg Júlía, f. 13.8. 1973, og Guðmundur Ágúst, f. 13.8. 1973, d. 6.5. 2003. Stjúpsonur Guðna er Ásgeir Svan Hjelm Vagnsson, f. 16.7. 1955. 5. Jón, f. 13.11. 1945. 6. Elísabet, f. 24.9. 1947. Eiginmaður Elísabetar er Haukur Sigfússon, f. 20.9. 1946. Börn Elísabetar og Hauks eru Guðný Björg. f. 9.4. 1967, og Jón Gestur, f. 3.11. 1976.

Að lokinni hefðbundinni skólagöngu hélt Jóhann út á vinnumarkaðinn. Hann stundaði störf tengd sjávarútvegi alla sína tíð og vann lengst af hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Jóhann var mikill reglumaður og hafði mikla ánægju af útiveru. Jóhann var ókvæntur og barnlaus.

Útför Jóhanns fer fram frá Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag, 14. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Mig langar að skrifa nokkur orð með þakklæti um einlægan mætan mann, Jóhann Gestsson, föðurbróður minn, sem fæddist á Fáskrúðsfirði og bjó þar alla sína tíð. Hann lést 7. janúar sl. á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði eftir baráttu við krabbamein, rúmlega áttræður að aldri.

Jói var næstelstur sex systkina og byrjaði vinnu snemma, þá helst og alltaf tengda sjávarútvegi. Hann fór á margar vertíðir suður með sjó og til Vestmannaeyja en vann þó mest í landi hjá Hraðfrystihúsi Fáskrúðsfjarðar og Bræðslunni við ýmis störf. Hann hætti störfum með sóma nærri sjötugur og vildi njóta lífsins.

Við töluðum gjarnan um lífið og tilveruna, um sanna vináttu, og þannig var það í haust er við hittumst og fórum yfir genginn veg. Þú gerðir þínu vel skil, minni þitt einstakt og einlægni í uppgjöri þínu um menn og málefni. Svo margt sem þú sagðir mér um fyrri tíð, skondin og skemmtileg atvik úr daglega lífinu og döpur líka. Þú hafðir þína skoðun á áfengi og tóbaki þótt þú þekktir ekki bragðið né áhrifin, þar sem hvorugt hafðirðu prófað um ævina. Við rifjuðum upp flest sem skipti máli og gleymdum okkur við að segja hvort öðru ferðasögur en ferðalög voru okkar sameiginlega áhugamál. Þú sagðir mér oft frá ánægjulegum ferðum þínum með Norrænu og rútuferðunum til hinna ýmsu staða á Norðurlöndum svo og hér innanlands í góðum félagsskap. Eins fannst þér ungum gaman að koma í nýjar hafnir og bæjarfélög þegar þú varst á sjónum en ég hafði ekki fyrr heyrt söguna um fermingarferðalagið þitt upp í Hallormsstað sem tók viku að fara í þá tíð. Víst er að þú vildir ferðast meira og sagðir að þú hefðir byrjað alltof seint á því. Ég man eftir fyrsta ferðalagi mínu sem smábarn með foreldrum mínum og systkinum en það var farið á lánsbíl frá þér. Þakka þér.

Björg Traustadóttir.