[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Staðan hefur versnað, ef eitthvað er. Það eru alltaf fleiri og fleiri að missa húsnæði sitt.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Staðan hefur versnað, ef eitthvað er. Það eru alltaf fleiri og fleiri að missa húsnæði sitt. Það er reyndar búið að fresta uppboðum á húsnæði en meðan leigan hækkar, þá eru færri sem geta leigt,“ segir Jóhann Már Sigurbjörnsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, um stöðuna. Eins og sýnt er á grafinu hér til hliðar hefur vísitala leiguverðs farið stighækkandi síðan í janúar 2011. Jóhann Már segir þessar hækkanir valda mörgum erfiðleikum. „Þeir sem eru að missa húsnæði vegna þess að leigunni er sagt upp eða sökum þess að húsnæðið er selt undan þeim eiga í miklum erfiðleikum með að finna leiguhúsnæði. Þetta kemur skýrt fram hjá umræðuhóp leigjenda á fasbókinni. Ef eitthvað er laust sækja hundruð um hverja lausa eign.“

Horft til félagsmálaráðherra

– Hvernig líst þér á þetta ár?

„Það eru ekki sjáanlegar neinar nýframkvæmdir sem munu hafa veruleg áhrif á framboðið á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Það fer nú hins vegar fram mikil vinna hjá velferðarráðuneytinu sem við bindum miklar vonir við að eitthvað komi út úr,“ segir Jóhann Már og vísar til samvinnuhóps um mótun húsnæðisstefnu á vegum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Ekki náðist í hana.

Greint var frá stofnun hópsins í minnisblaði frá forsætisráðuneytinu í nóvember, í tengslum við boðaðar aðgerðir stjórnvalda vegna kjarasamninga. Átti hópurinn að skila tillögum um miðjan desember. Jóhann segir ljóst að vinnu hópsins seinki um einn til tvo mánuði en hann situr í einu af fjórum vinnuteymum, svonefndu teymi 1 um fjármögnun. „Það er uppi mikill ágreiningur milli fulltrúa fjármálafyrirtækja og hagsmunaaðila. Menn hafa mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að fjármagna nýtt húsnæðiskerfi. Þessi vinna á síðan eftir að fara í samráðshópinn sem er næsta stig fyrir ofan. Ágreiningurinn snýst um það að fjármálageirinn vill fá ávöxtunarkröfu sem við unum ekki. Við hugsum um félagslega þörf fyrir húsnæði. Við hjá leigjendasamtökunum viljum koma á almennilegu húsaleigukerfi þar sem framboð er nóg og húsaleiga miðast við kaupgetu en ekki ávöxtunarkröfu,“ segir Jóhann sem fundaði nýverið með fulltrúum í teymi 3. Margir fundarmenn hafi átt erfitt með að „kyngja því hve bráðavandi á húsnæðismarkaði er mikill“.

Bráðavandinn enn óleystur

„Markmið vegna kjarasamninga eru jákvæð en neikvæði hlutinn er að bráðavandinn er eftir sem áður mikill. Það er talið að í kringum 3.000 til 5.000 manns á höfuðborgarsvæðinu búi í iðnaðarhúsnæði eða í bílum jafnvel,“ segir hann.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, starfandi formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir það koma skýrt fram í samtölum við þá sem þangað leita að margir eigi í húsnæðisvanda.

„Það kom mjög oft upp í fyrra að fólk er farið að flytja inn á foreldra. Foreldrar eru farnir að flytja inn á börnin sín. Sumir leigja aðeins eitt herbergi. Það er mikið um að einstæðir karlar búi við slæm búsetukjör. Margir hverjir hafa ekki aðgang að eldunaraðstöðu. Þegar við setjum í poka fyrir þá veljum við mat sem ekki þarf að elda.

Þá eru fleiri sem sofa í bílum sínum en kemur fram opinberlega. Síðast var hjá mér maður á föstudaginn var sem hefur búið í bílnum sínum í meira og minna ár. Hann fékk inni hjá vini sínum sem er að fara til útlanda í tvær vikur.

Það er líka mikið vandamál þegar hjón skilja að karlarnir flytji aftur inn á konurnar og séu þar aðeins yfir blánóttina. Það er alvarlegt mál að börnin horfi upp á að faðir þeirra er ekki velkominn á heimilinu,“ segir Ásgerður.

30% hækkun á þrem árum

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 30% á tímabilinu frá janúar 2011 til nóvember 2013, án tillits til verðlagsþróunar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 15% á tímabilinu og er raunhækkun leiguverðs því um 15%. Hefur hækkunin verið nokkuð stöðug.

Vísitalan byggist á þinglýstum leigusamningum.

Að sögn Þórunnar Bjarkar Sigurbjörnsdóttur, stærðfræðings á mat- og hagsviði Þjóðskrár Íslands, má ætla að stór hluti leigusamninga sé þinglýstur. Ástæðan sé m.a. sú að þinglýsing sé skilyrði húsaleigubóta.

Að hennar sögn var byrjað að taka saman vísitölu leiguverðs í ársbyrjun 2012. Ákveðið var að skrá gögn ár aftur í tímann og hefur vísitalan því göngu sína í janúar 2011.

Spurð hvaða samningar liggi að baki vísitölunni segir Þórunn Björk að félagslegar íbúðir og námsmannaíbúðir séu undanskildar til að endurspegla sem best markaðsverð á húsaleigu.

Þá séu herbergi sem leigð eru út tekin frá sem og eignir sem lánaðar eru út til venslafólks.