Stöðugt stærri Stór plastbátur samkvæmt teikningu frá Seiglu á Akureyri.
Stöðugt stærri Stór plastbátur samkvæmt teikningu frá Seiglu á Akureyri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Margir hafa spurst fyrir um og kynnt sér möguleika á smíði stærri fiskibáta til veiða í krókaaflamarkskerfinu.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Margir hafa spurst fyrir um og kynnt sér möguleika á smíði stærri fiskibáta til veiða í krókaaflamarkskerfinu. Samkvæmt lögum frá Alþingi, sem samþykkt voru í fyrrasumar, mega þessir bátar nú vera mest 15 metrar að lengd og 30 brúttótonn. Samningar hafa verið undirritaðir um smíði á fimm slíkum bátum hjá bátasmiðjunum Trefjum í Hafnarfirði og Seiglu á Akureyri og sá fyrsti þegar verið afhentur.

Seigla á Akureyri og Stakkavík gengu á síðasta ári frá samningi á tveimur 14,4 metra löngum og 5,7 metra breiðum bátum sem jafnframt verða þeir stærstu á Íslandi í því kerfi, að sögn Sverris Bergssonar, framkvæmdastjóri Seiglu. Þeir taka allt að 48 kör í lest og er smíði skrokks fyrri bátsins fyrir Stakkavík langt komin. Sverrir reiknar með að afhenda 3-4 slíka báta á næstu tveimur árum.

Skipin tvö sem Seigla smíðar fyrir Stakkavík munu verða þau stærstu sem byggð hafa verið úr plasti af íslenskri skipasmíðastöð fyrir íslenskan markað, að sögn Sverris. Áður hafði Seigla byggt sambærilegan bát fyrir Íslendinga sem gera út frá Noregi, Sögu K.

Trefjar afhenda tvo báta á næstunni

Þröstur Auðunsson, framkvæmdastjóri Trefja í Hafnarfirði, segir að tveir stórir bátar séu í smíðum fyrir Einhamar í Grindavík og verður fyrri báturinn afhentur í marsmánuði og hinn um mánuði síðar. Fyrsta skipið sem smíðað var inn í nýja kerfið í samræmi við lögin frá síðasta sumri var Jónína Brynja ÍS sem Trefjar afhentu kaupendum í Bolungarvík í desember. Hún kom í stað heldur minni báts með sama nafni sem strandaði haustið 2012 eftir að hafa verið að veiðum í aðeins nokkrar vikur.

Hjá Trefjum er einnig unnið að smíði 10 metra báts fyrir útgerð á Djúpavogi, en önnur verkefni ársins eru fyrir fyrirtæki í Frakklandi, Noregi og Danmörku. Þröstur segir algengt að fyrirtækið smíði 10-12 báta á ári, en það sé misjafnt eftir stærð þeirra og gerð. Þá séu alltaf einhver viðhalds- og viðgerðarverkefni í gangi. Næg verkefni eru framundan hjá Trefjum, en þar starfa um 50 manns.

Góður gangur hjá Seiglu

Sverrir segir góðan gang vera í starfsemi bátasmiðjunnar Seiglu og verkefnastöðuna góða. Þar starfa nú um 30 manns að verktökum meðtöldum. Í næsta mánuði verða tveir 11 metra bátar afhentir kaupendum í Noregi. Þá er verið að smíða tvo svipaða báta fyrir kaupendur á Borgarfirði eystra, sem verður afhentur í næsta mánuði, og á Flateyri og er síðarnefndi báturinn með kraftmikla vél. Báðir þessir bátar eru ætlaðir til línuveiða.

Einnig er verið að byggja bát fyrir kaupanda á Réunion, sem er frönsk eyja á Indlandshafi austan við Madagaskar. Seigla gerir ráð fyrir að afhenda alls 10 fiskibáta á þessu ári og einn þjónustubát fyrir Færeyjar.

Hagsmunabarátta í fjórum félögum

Stærðarmörk báta sem eru á krókaaflamarki voru aukin verulega með lögum sem samþykkt voru á þingi síðastliðið sumar. Ekki er lengur aðeins miðað við skilgreininguna að stærð þeirra sé undir 15 brúttótonnum heldur er nú komið í lög að „þeir bátar einir geta öðlast veiðileyfi með krókaaflamarki sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn“.

Fjögur samtök starfa einkum að málefnum smábátaeigenda.

• Landssamband smábátaeigenda er langfjölmennast og hefur lengst sinnt hagsmunabaráttunni. Innan vébanda LS eru fjölmörg svæðisfélög um allt land. Formaður LS er Halldór Ármannsson og framkvæmdastjóri Örn Pálsson.

• Landssamband línubáta sinnir einkum verkefnum tengdum bátum með beitingavél um borð og er Gunnlaugur Árnason formaður, framvæmdastjóri er Reynir Þorsteinsson.

• Samtök smærri útgerða, SSÚ, voru stofnuð í fyrravor og stóðu að stofnuninni nokkrir áhugamenn um stækkun smábáta úr 15 tonnum í 15 metra, eins og segir á heimasíðu samtakanna. Formaður er Bárður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Helga Guðjónsdóttir.

• Samtök íslenskra fiskimanna starfa m.a. á vettvangi strandveiða og eru formenn þeir Hallgrímur Pálmi Stefánsson og Unnar Þór Böðvarsson.