— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is „Ég vil þakka öllum sem hafa stutt mig. Konan mín, vinir mínir og sonur.

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is „Ég vil þakka öllum sem hafa stutt mig. Konan mín, vinir mínir og sonur. Þetta er ógleymanleg og tilfinningarík stund,“ sagði tárvotur Cristiano Ronaldo, haldandi á gullboltanum sem verðlaunum fyrir að vera kjörinn besti leikmaður heims á galakvöldi í Sviss í gærkvöldi.

Þetta er í annað sinn sem Ronaldo er kjörinn sá besti í heimi en síðast fagnaði hann sigri í kjörinu árið 2008 eftir að hann tryggði Manchester United Englands- og Evrópumeistaratitil. Síðan þá hefur eini maðurinn sem getur skákað Portúgalanum ótrúlega, Lionel Messi, verið kjörinn sá besti fjögur ár í röð en einokun hans lauk í gær og skiptu verðlaunin Ronaldo augljóslega miklu máli en tilfinningarnar báru hann ofurliði. Messi varð þriðji í kjörinu að þessu sinni en Frank Ribéry, leikmaður Bayern München og Frakklands, varð annar.

Takk!

„Ég vil þakka öllum mínum liðsfélögum hjá félagi mínu sem og í landsliðinu. Án þeirra framlags hefði þetta aldrei verið mögulegt. Ég er mjög glaður enda þarf að leggja hart að sér til þess að vinna þessi mögnuðu verðlaun,“ sagði Ronaldo eftir að hann hafði náð að jafna sig og hemja táraflóðið. „Það eina sem ég get sagt við alla sem hafa á einhvern hátt komið að þessu er, takk!“ bætti Portúgalinn við en sonur hans kom síðan upp á sviðið og fékk að halda á sigurlaunum föður síns.

Þjóðverjinn Nadine Angerer var kjörin besta knattspyrnukonan fyrir árið 2013 en hún varð Evrópumeistari með Þýskalandi á síðasta ári. Hún er jafnframt fyrirliði þýska liðsins. Angerer fór hamförum á Evrópumótinu og varði m.a. tvær vítaspyrnur í úrslitaleiknum gegn Noregi.

Silvia Neid, þjálfari þýska kvennalandsliðsins, var kjörin þjálfari ársins í kvennaflokki og Jupp Heynckes, fyrrverandi þjálfari Bayern München, fékk sömu verðlaun í karlaflokki.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson kaus Ronaldo bestan en Lars Lagerbäck, þjálfari Íslands, kaus samlanda sinn, Zlatan Ibrahimovic. Víðir Sigurðsson, íþróttastjóri Morgunblaðsins, er fulltrúi íslenskra fjölmiðla í kjörinu en hann kaus Ronaldo bestan líkt og Aron.