Verðlag Fyrirtæki hafa mörg hætt við að hækka verð eða dregið úr.
Verðlag Fyrirtæki hafa mörg hætt við að hækka verð eða dregið úr. — Morgunblaðið/Ásdís
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Þessi hvatning ASÍ um að hækka ekki verð hefur haft gríðarlega mikil áhrif á umræðuna í fyrirtækjum og sveitarfélögum.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Þessi hvatning ASÍ um að hækka ekki verð hefur haft gríðarlega mikil áhrif á umræðuna í fyrirtækjum og sveitarfélögum. Einnig hefur sterk umræða skapast í samfélaginu,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur á hagdeild Alþýðusambands Íslands, um hvatningu ASÍ til fyrirtækja um að hækka ekki vöruverð.

Í gær sendi ASÍ út beiðni til fyrirtækja þar sem óskað var eftir að þau gæfu yfirlýsingar um að þau myndu ekki hækka vöruverð. Fjölmörg hafa brugðist við þessum óskum, ýmist dregið úr fyrirhuguðum hækkunum eða hætt alveg við þær. Greint hefur verið frá því í Morgunblaðinu.

Á vefsíðunni vertuaverdi.is birtust tveir listar. Annar yfir fyrirtæki sem sýna samstöðu og lýsa því yfir að þau hækki ekki vöruverð og svartur listi yfir fyrirtæki, sem hafa hækkað verð í kjölfar kjarasamninga og vinna þannig gegn markmiðum um lága verðbólgu og aukinn kaupmátt.

Henný bendir á að vert sé að hampa þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt ábyrgð með því að ætla ekki að hækka vöruverð fremur en að einblína á þau fyrirtæki sem hættu við boðaðar hækkanir. „Við höldum að fyrirtækin séu miklu fleiri þar sem aldrei stóð til að hækka vöruverð og sýna samstöðu,“ segir Henný.

Í gær voru þessi fyrirtæki komin á lista yfir fyrirtæki sem hækka ekki: Brúnegg, Flúðasveppir, Brugg-smiðjan, Þín verslun á Seljavegi, smíðafélagið, PFAFF, Emma.is, Flóra – verslun og vinnustofa, IKEA, Hreyfill og Lifandi markaður.

Spurð hvernig viðbrögð almennings hafa verið við vefsíðunni, vertuaverdi.is, segir Henný þau hafa verið góð. „Við treystum á almenning til að fylgjast vel með.“ Hún segir þó að fleiri ábendingar hafi komið frá almenningi um hækkanir en lækkanir. Fyrirtæki sem eru á svarta listanum eru: Orkuveita Reykjavíkur, Lýsi, Nói Síríus og Freyja.

Hækkandi raforkuverð

Heildar raforkukostnaður hjá heimilum landsins hefur hækkað frá því í ágúst 2013 m.v. 4.000 kWst. notkun á ári. Mest hefur raforkukostnaðurinn hækkað hjá viðskiptavinum Rarik dreifbýli/Orkusalan eða um 6,6%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Forsendur fyrir stöðugu verðlagi

„Allar forsendur eru fyrir því að markmið um stöðugt verðlag náist,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Spurður um mat á áhrifum á vísitölu neysluverðs af þeim lækkunum og hækkunum á vöruverði fyrirtækja sem nú standa yfir svarar Hannes því til að gengisstyrking krónunnar, sem og að leiðandi aðilar hafi kynnt áform um verðlækkun á innflutum vörum, muni hafa veruleg áhrif á næstu mælingu á vísitölu.

Hann segir að árangurinn af kjarasamningnum og þeirri samstöðu sem hefur myndast um verðstöðugleika muni ráðast af því hvort verðbólguvæntingar fyrirtækja og almennings minnki niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. „Við þurfum á því að halda,“ segir Hannes. Hann bendir á að trúin á árangur fari vaxandi og sú sannfæring breiðist út að það muni takast. Hann þakkar það m.a. þrýstingi og umræðu í samfélaginu um ávinninginn af efnahagslegum stöðugleika sem kjarasamningurinn hafi að meginmarkmiði og það hafi leitt til þess að mörg fyrirtæki hafi ákveðið að draga til baka áformaðar hækkanir.

Hannes áréttar að vísitala neysluverðs sé samsett af fjölmörgum liðum, m.a. vegi húsnæði þungt. „Húsnæði má ekki hækka mikið svo það tefli verðbólgumarkmiðinu, 2,5%, í tvísýnu, en spár um hækkun þess valda áhyggjum.“