Hagfræðistofnun vinnur þessa dagana að úttektinni sem ríkisstjórnin fól henni að gera á stöðu viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB.

Hagfræðistofnun vinnur þessa dagana að úttektinni sem ríkisstjórnin fól henni að gera á stöðu viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB. Ekki fást nákvæmar upplýsingar um hvenær verkefninu lýkur en þegar því var ýtt úr vör var gengið út frá að lokaskýrsla Hagfræðistofnunar lægi fyrir um miðjan þennan mánuð. Skv. upplýsingum blaðsins er vinnan enn í fullum gangi og er að því stefnt að henni verði lokið fljótlega.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands vinnur að annarri úttekt á aðildarviðræðunum fyrir ASÍ, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Ákváðu þessi samtök í september sl. að láta gera úttekt á viðræðunum og á þróun Evrópusambandsins og valkostum í efnahagsmálum í ljósi þess að ríkisstjórnin hefði ákveðið að gera hlé á aðildarviðræðum.

Lýstu samtökin því yfir að mikilvægt væri að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna við ESB og hvaða áhrif hlé á þeim hefði á framvindu viðræðna.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá SA í gær er gert ráð fyrir því að niðurstöður þessarar úttektar liggi fyrir í apríl. omfr@mbl.is