Svik og prettir Jennifer Lawrence (t.v.) á stórleik sem óörugg og málglöð eiginkona í American Hustle og Amy Adams gefur henni lítið eftir.
Svik og prettir Jennifer Lawrence (t.v.) á stórleik sem óörugg og málglöð eiginkona í American Hustle og Amy Adams gefur henni lítið eftir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: David O'Russell. Leikarar: Christian Bale, Amy Adams, Michael Cooper, Jennifer Lawrence, Jeremy Renner, Robert De Niro. Bandaríkin, 2014. 138 mín.

Svikahrappar, loddarar og lukkuriddarar hafa löngum átt upp á pallborðið í bandarískum skáldskap og kvikmyndum. Bandaríkin hafa löngum verið kölluð land tækifæranna, en þau drjúpa þó ekki af hverju strái og svik og prettir hrappanna geta virst vænlegri til árangurs en heiðvirt streð.

Kvikmyndin American Hustle (engin íslensk þýðing fylgir, en auðvitað blasir við að myndin eigi að heita Bandarískir bragðarefir) er uppfull af svikahröppum og gerist í lok áttunda áratugarins. Myndin er (ákaflega) lauslega byggð á svonefndu Abscam-hneyksli þar sem bandarískir alríkislögreglumenn notuðu gervisjeika til þess að nappa bandaríska stjórnmálamenn fyrir spillingu.

Slægasti svikahrappurinn er Irving Rosenfeld (Christian Bale með ístru og yfirgreiddan skalla), sem í æsku varð vitni að því hvernig heiðvirður faðir hans var dreginn á asnaeyrunum og hét sjálfum sér að frekar myndi hann blekkja en að láta blekkjast.

Hann fær til liðs við sig Sydney Prosser (Amy Adams), sem kemur frá Nýju-Mexíkó, en þykist vera bresk aðalskona til að blekkja væntanleg fórnarlömb. Helsta brella þeirra snýst um að lokka fimm þúsund dollara pant út úr fólki í fjárkröggum fyrir lánum, sem aldrei eru veitt. Sú brella minnir á dæmigerð tölvupóstssvik og er reyndar sú ótrúverðugasta í myndinni, en hvað um það. Metnaðarfullur lögreglumaður, Richie DiMaso (Bradley Cooper), grípur þau glóðvolg, en býður þeim grið veiti þau hjálp við að afhjúpa aðra hrappa.

DiMaso vill hins vegar slá í gegn í alríkislögreglunni, FBI, og grípur hvert tækifæri til að seilast lengra. Fyrst lenda stjórnmálamenn inni á ratsjánni hjá honum og síðan kemur röðin að mafíunni. Smáglæpaparið Rosenfeld og Prosser átta sig á að þau eru komin í aðstæður, sem þau ráða ekki við og muni þurfa að taka á öllu sínu ætli þau að sleppa heil.

Bandarískir bragðarefir er bráðskemmtileg mynd og sagan er sögð af mikilli list. Hver uppákoman rekur aðra. Myndin gerist á þeim tíma sem John Travolta sló í gegn á dansgólfinu og ber því vitni. Klæðaburður söguhetjanna er yfirgengilegur og hárgreiðslurnar kapítuli út af fyrir sig þar sem konurnar komast ekki með tærnar þar sem karlarnir hafa hælana.

Í myndinni eru nánast allir með eitthvað í gangi; allir eru að spila á alla og reyna að komast áfram ýmist með bola- eða bellibrögðum og undantekningarnar verða brjóstumkennanlegar.

Það er eitthvað öfugsnúið við að finna til samúðar með svikahröppum, ekki síst vegna þess að þeirra velgengni byggist á óförum annarra. Kannski hjálpar til í þessu tilfelli að fórnarlömbin eru ekkert síður viljug til svika, þótt kænskuna skorti, en samúðin helgast líklega líka af því að á ferðinni er undirmálsfólk, sem einnig vill njóta réttanna, sem blasa við á borðum hinna velmegandi en eru utan seilingar.

Karl Blöndal