[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Á þriðja hundrað ferða er á dagskrá Útivistar á þessu ári. Svo margir leiðangrar, lengri sem skemmri, hafa ekki sést með sama hætti áður í áætlun félagsins.

Viðtal

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á þriðja hundrað ferða er á dagskrá Útivistar á þessu ári. Svo margir leiðangrar, lengri sem skemmri, hafa ekki sést með sama hætti áður í áætlun félagsins. Þetta endurspeglar, að sögn Þórarins Eyfjörð formanns Útivistar, hve öflug starfsemin er orðin. Útivist og ferðalög af ýmsu tagi eru orðin ríkjandi þáttur í lífi tuga þúsunda Íslendinga. „Fólk er að leita í íslenska náttúru og fegurð fjallana. Og þetta er allur pakkinn; stuttar kvöldgöngur, nokkurra daga sumarleyfisferðir og erfiðar toppaferðir og fleira,“ segir Þórarinn.

Lagt upp frá Toppstöðinni

Nefnir þar fyrst Útivistarræktina: gönguferðir um Elliðaárdal á mánudögum og miðvikudögum. Lagt er upp frá Toppstöðinni kl. 18:00 á mánudögum en hálftímanum síðar á miðvikudögum. Ekkert þátttökugjald er í þessum göngum sem henta vel fólki sem til dæmis vill komast í þjálfun til þess að geta farið í meira krefjandi verkefni í fyllingu tímans.

„Ferðanefndir Útivistar setja upp dagskrána en allir félagsmenn geta komið með tillögur. Nýjar ferðir eru nær undantekningalaust hugmyndir úr grasrót félagsins og þannig ræðst ferðaframboðið af því hvað félagsmenn vilja. Með þessum hugmyndapottum koma alltaf fram ný og spennandi verkefni,“ segir Þórarinn.

Frá Reykjanestá

Raðgöngur hafa lengi verið áberandi þáttur í starfi Útivistar, en þá eru teknar fyrir lengri leiðir og bútar úr þeim teknir yfir lengri tíma. Er þá farið um slóðir sem hafa sérstöðu, með tilliti til náttúru, sögu eða annarra þátta. Útivistarfólk hefur til dæmis nokkrum sinnum gengið Reykjaveginn svonefnda, það er frá Reykjanestá og þaðan svo í norðaustur yfir fjöll og firnindi. Er þessi leið einmitt í boði þetta ár.

Fyrsti leggurinn verður tekinn um aðra helgi, sunnudaginn 2. febrúar. Þá verður gengið frá Valahnúk á Reykjanesi og þaðan svo fram á ystu nöf, fram á Öngulbrjótsnef þar sem brimið ber klettana. Á þessari leið er náttúrufar um margt einstakt; óvíða sjást ummerki eldvirkni jafn skýrt.

„Það er ástæða til að velta fyrir sér hversu lengi verður hægt að bjóða upp á þessa raðgöngu. Hvenær framkvæmdir á svæðinu ná því marki að þetta hættir að þykja spennandi?“ segir Þórarinn og heldur áfram. „Fyrir nokkrum áratugum var þetta eitt helsta útivistarsvæðið í nágrenni borgarinnar. Enn má finna óspillta náttúru á Reykjanesi og það verður án efa verkefni næstu missera að verja það landsvæði sem enn hefur ekki orðið náttúruvígvélunum að bráð. Þetta á einnig við um ýmsar náttúruperlur á hálendi Íslands.“

Fimmvörðuháls um hverja helgi

Í sumar er á vegum Útivistar gengið nánast um hverja helgi yfir Fimmvörðuháls, sem mörgum er hugleikinn eftir jarðeldana fyrir fjórum árum. Þar á Útivist skála og í raun er þessi leið milli jökla eitt af kjörlendum félagsins. Auk þess stendur félagið að afar fjölbreyttum ferðum, dagsferðum, helgarferðum, lengri gönguferðum svo og skíða-, hjóla- og jeppaferðum. Auk þessa eru mjög öflugir hópar starfandi innan félagsins, en það eru Everest-hópurinn, Fjallarefir og kvennahópur og starfa þeir hver eftir sinni dagskránni.

Hæfileg dreifing fólks um viðkvæmt svæði

Tvær gönguleiðir á sunnanverðu hálendinu njóta mikilla vinsælda; það er Laugavegurinn og svonefndur Strútsstígur. Sú síðarnefnd er frá Hólaskjóli á Nyrðra-Fjallabaki og norðan Mýrdalsjökuls í Hvanngil á Rangárvallaafrétti. Það var Útivistarfólk sem opnaði þessa leið á sínum tíma og það nam einnig land á Skaftártunguafrétti á leiðinni Sveinstindur – Skælingar.

„Útivist opnaði þessi svæði í lok 10. áratugarins með því að gera upp gömul gangnamannahús og reisa nýja skála sem mæta þörfum gönguhópa. Þessar leiðir þjóna bæði því hlutverki að kynna fyrir útivistarfólki ný og spennandi svæði. Eitt af því sem við útivistarfólk verðum að fara að huga að er hæfileg dreifing ferðamanna um viðkvæmt hálendi. Þessar leiðir koma mjög sterkt þar inn enda algjör gullkorn. Einstaklega góðir og spennandi valkostir,“ segir Þórarinn Eyfjörð.