Veiðar og vinnsla Fiskistofa var gagnrýnd á Alþingi fyrir vinnubrögð við eftirlit í sjávarútvegi. Eftirlitið verður endurskoðað, að sögn ráðherra.
Veiðar og vinnsla Fiskistofa var gagnrýnd á Alþingi fyrir vinnubrögð við eftirlit í sjávarútvegi. Eftirlitið verður endurskoðað, að sögn ráðherra. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, gagnrýndi Fiskistofu harðlega á Alþingi í fyrradag. Hann sagði starfshætti stofnunarinnar undrum sæta.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, gagnrýndi Fiskistofu harðlega á Alþingi í fyrradag. Hann sagði starfshætti stofnunarinnar undrum sæta. Hún hefði gert húsleitir án þess að hafa fengið til þess heimildir og lagt hald á gögn. Jafnvel hefði verið tekið heimilis- og persónulegt bókhald eigenda fyrirtækjanna. Rannsóknir tækju langan tíma og dæmi um að gefnir væru út fleiri en einn úrskurður meðan á rannsókn máls stendur. Síðan hefði Fiskistofa fallið frá rannsóknum og kærum en eftir sitji óverjandi kostnaður, óþægindi og algjört vantraust.

Ásmundur nefndi fjögur fyrirtæki sem Fiskistofa rannsakaði og lagði sektir á sum. Þau eru Hafnarnes VER ehf., Saltver ehf., Fiskkaup hf. og Þórsberg ehf.. Málalyktir urðu ýmist að héraðsdómur felldi úrskurð Fiskistofu úr gildi eða Fiskistofa sjálf felldi úrskurði úr gildi og endurgreiddi sektir eða féll frá málinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, svaraði Ásmundi og sagði m.a. að forsvarsmenn Fiskistofu hefðu bent sér á þau vandkvæði sem væru til staðar í eftirliti í sjávarútvegi og þunga sönnunarbyrði í þessum málum.

„Það er því sameiginlegt álit okkar að endurskoða þurfi þennan hluta eftirlitsins frá grunni. Það breytir því ekki, að við getum ekki fallið frá kröfu um skilvirkt eftirlit með vigtun sjávarafla,“ sagði Sigurður Ingi. .

Úrskurður og sekt felld niður

Fiskistofa hóf rannsókn á Fiskkaupum hf. í júní 2012. Starfsmenn Fiskistofu komu fyrirvaralaust, lögðu hald á allt bókhald og afrituðu allar tölvur. Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri, sagði að starfsfólki hefði verið mjög brugðið.

„Þetta var mjög óþægilegt og fyrirvaralaust. Þetta var eins og í bíómynd,“ sagði Ásbjörn. Hann sagði að húsleitarheimild hefði ekki verið framvísað. „Þeir sögðust hafa heimild til þess að gera þetta. Ég trúði þeim. Eftir á þegar ég fór að kafa í þetta þá hafa þeir enga heimild til þess að gera þetta.“

Ásbjörn sagði að þetta hefði verið truflandi og tímafrekt fyrir starfsfólkið. Fiskistofa gerði einnig nýtingarprufur í vinnslunni. Félaginu barst svo bréf þar sem úrskurðað var að afli hefði verið vantalinn um 480 tonn á 18 mánuðum og að lögð yrði á sekt upp á 135 milljónir.

„Við fórum yfir þetta og fundum út að þeir notuðu kolvitlausa nýtingu í einni afurð. Svo tvítöldu þeir mikið af útfluttum gámum. Það blasti alveg við hvað þeir höfðu gert vitlaust og hvað þetta var illa unnið,“ sagði Ásbjörn. Tveimur mánuðum síðar barst bréf þar sem Fiskistofa féll frá úrskurði sínum og sektinni.

Bakreikningsdeildin mætti

Þórsberg ehf. á Tálknafirði fékk í nóvember 2009 óvænta heimsókn. Þá kom bakreikningsdeild Fiskistofu í fylgd lögreglu á skrifstofu Þórsbergs og sótti þangað gögn. Guðjón Indriðason, framkvæmdastjóri, sagði að fimm daga hefði vantað upp á að rannsóknin stæði í heil fjögur ár.

„Þeir komu fyrst með ásökun um mismun á afla og afurðum eftir 18 mánuði. Því áttum við að svara á 15 dögum,“ sagði Guðjón. Fiskistofa taldi fyrst að landaður afli væri vantalinn um 177 tonn, svo 606 tonn, þá 213 tonn og síðan 87 tonn. Allt var þetta fengið úr sömu gögnunum. Margir mánuðir liðu á milli hvers skiptis.

„Við notuðum tímann til að útskýra okkar mál og fengum fagfólk til að vinna með okkur. Það eru til tvær 30-40 síðna skýrslur um hvað við vorum að gera á þessum tíma,“ sagði Guðjón. „Þetta truflaði okkur heilmikið. Við vorum í samningaviðræðum við lánastofnanir í kjölfar á bankahruninu. Það hjálpaði ekki til í þeim málum að liggja undir ásökunum sem gátu þýtt tuga eða hundraða milljóna króna yfirvofandi sektir.“

Guðjón sagði að Fiskistofa hefði byggt mál sitt á gögnum frá útflytjanda. Þrjár sendingar voru tvöfaldaðar en enginn fótur var fyrir því.

„Þeir felldu þetta niður í haust,“ sagði Guðjón.

Rannsókn ákveðinna mála tók allt of langan tíma

Fiskistofa hefur efnt til rannsókna og aflað gagna á heimilum, vinnustöðum og um borð í skipum og tekið gögn án þess að vera með leitarheimildir, að því er Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, sagði þegar hann ræddi málefni Fiskistofu á Alþingi.

„Ég tel að það sé réttmæt ábending hjá þingmanninum að Fiskistofa ætti að afla sér slíkra heimilda,“ sagði Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri. „Við höfum býsna víðtækar heimildir í lögum til þess að óska eftir gögnum og stofnuninni hefur ekki verið synjað um afhendingu gagna. Af þeirri ástæðu kölluðum við ekki eftir heimildum.“

Eyþór sagði að persónuleg gögn starfsfólks ættu ekki að lenda í höndum starfsmanna Fiskistofu, nema þau væru innan um gögn fyrirtækisins sem er til skoðunar.

Hann sagði að farið væri í gegnum pappírsgögn og það ljósritað sem varðaði málið. Öllum gögnum væri skilað svo fljótt sem auðið væri. Úr rafrænum gögnum er notað það sem skiptir máli og því sem ekki tengist málarekstrinum er eytt.

Eyþór sagðist taka undir að það sé óásættanlegt að rannsókn á einu fyrirtæki geti staðið yfir í tæp fjögur ár. Hann sagði að fyrst væri aflað gagna. Á grunni þeirra væri reiknað og niðurstaðan send fyrirtækinu sem hefði andmælarétt. Fyrirtækið gæti sent inn ný gögn máli sínu til sönnunar. Unnið sé úr þeim og það geti leitt til nýrrar niðurstöðu sem aftur er send til fyrirtækisins. Eyþór sagði þetta vera skýringuna á því að tölur breytist í meðförum mála. Stundum biðji fyrirtækin líka um lengri andmælafrest.

„Ég get tekið undir að ákveðin mál voru allt of lengi í rekstri en öðrum málum tókst að ljúka innan ásættanlegs tíma,“ sagði Eyþór.

Hann benti á að þegar Fiskistofa hefði birt sína niðurstöðu gætu aðilar áfrýjað til úrskurðarnefndar vegna álagningar gjalds vegna ólöglegs sjávarafla. Í öllum tilvikum hefði úrskurðarnefndin komist að sömu niðurstöðu og Fiskistofa en niðurstöðunni í einhverjum tilfelllum verið hnekkt fyrir dómstólum. Eitt dæmi er um að Fiskistofa hafi tekið mál upp aftur og fellt úr gildi eigin niðurstöðu.

En hefur Fiskistofa endurskoðað starfsaðferðir sínar í ljósi reynslunnar?

„Við sáum fyrir nokkuð löngu að aðferðirnar virkuðu ekki. Við höfum ekki hafið nýja rannsókn í meira en eitt og hálft ár en notað tíma til að ljúka málum sem voru opin. Jafnframt fórum við á fund ráðherra og gerðum honum grein fyrir erfiðri stöðu í þessum málum. Það er sameiginleg niðurstaða okkar að það þurfi að endurskoða þetta regluverk og aðferðir.“ Eyþór sagði einnig að veikleikar væru í reglum um vigtun og skráningu

sjávarafla. Úr því þyrfti að bæta.